Mánudagur 17.12.2018 - 21:32 - FB ummæli ()

Jólabaggarnir frá Hólmavík

Hólmavík, 17.12.2018

Það var heldur betur skemmtileg og óvænt upplifun að koma til Hólmavíkur fyrir helgina og sjá yfirhlaðna bryggjubakkana, af stórum hvítum heyböggum og sem gaf bænum alveg nýjan og hátíðlegan svip í anda jólanna. Fleiri þúsund heybakkar, nokkur hundruð tonn alls og sem bíða nú flutningaskips frá Noregi sem væntanlegt er á föstudaginn. Hreinasta jólaskraut í raun og sannkallaðir jólapakkar sem sigla á með um jólin fyrir heyþurfandi bændur í Noregi, eftir þurrkana þar í sumar og heybrest. Loks erum við Íslendingar ríkulega aflögufærir í nauðum nágrannaþjóðar og sem enginn annar hefur upp á að bjóða. Áststand sem minnir áþreifanlega á hvað við við erum í raun rík sem þjóð, af landsgæðum og hagstæðu veðurfari í heildina séð. A.m.k. enn sem komið er. Áhyggjur heimsbyggðarinnar allrar er engu að síður tengt óeðlilegri hlýnun jarðar og öfgum í veðurfari, einkum þurrkum, vegna mengunar jarðarkringlunnar og umhverfisráðherra hefur gert góð skil sl. daga. Íslenskir bændur m.a. á Ströndum og Dalabyggð náðu hins vega margir þremur sláttum í sumar og eiga því nóg af heyi af bestu gæðum. Ekki er að spyrja af iðjusemi þeirra og dugnaði og að leggja meira til en þeir sjálfir þurfa. Á niðurskurðartímum og höftum stjórnvalda sl. ár í íslenskum landbúnaði.

Á sama tíma heyrum við samt að sumar byggðir, m.a. hérna á Ströndum, nánar tiltekið í Árneshreppi, er við það að leggjast af. Aðallega samt bara vegna vöntunar á tryggum samgöngum og snjómokstri á veturna! Áður blómleg sveitabyggð og útgerðarþorp með íbúatölu á þriðja hundrað, en þar sem rekstrar- og búsetuskilyrðin hafa orðið mikið erfiðari með lækkandi verði á búvörum og erfiðum vegasamgöngum. Flestir sveitabæirnir þar voru áður með ríkulega sauðfjárrækt og góð tún, en þar sem bæir eru nú víða komnir í eyði, og tún og hagar í vaxandi órækt. Smábátaútgerðin getur ekki heldur borið sig þar sem trygga flutninga vantar á fiskmarkaði fyrir sunnan með ferskan fisk! Aðeins 14 íbúar halda byggðinni í byggð þar í vetur og jafnvel búið að loka bæði barnaskólanum og kaupfélaginu. Ástandið getur ekki orðið verra og síðan ófært landleiðina marga mánuði á veturna.

Heyfengurinn í sumar og útflutningsmöguleikarnir á heyi í dag, sýna allt aðra stöðu en okkur hafði áður órað fyrir. Eins væntanleg tækifæri með ótakmarkaða útflutningsmöguleika á kindakjöti, m.a til Kína. Miklu bjartari mynd en teiknuð hefur verið upp hingað til af pólitískum öflum og Samtökum verslunarinnar. Samtök sem kappkosta í raun að auka kolvetnissporin okkar með stórinnflutningi á erlendu kjöti, þar að auki oft vafasömu „smituðu“ kjöti. Í stað þess að standa þéttar að innlendri sjálfbærri hreinni íslenskri landbúnaðarframleiðslu.

Það eru sannarlega komnir nýir tímar og sem stjórnmálaöflin verða að líta til. Þá um leið að halda í brothættar byggðir í dreifbýlinu eins og kostur er. Til varðveislu menningar okkar og tækifærum til sjálfbærs búskapahátta í framtíðinni og sem hlýtur að teljast til einstaks láns að teknu tilliti til alvarlegri umhverfisstöðu heimsins í dag og daglega er í fréttum. Versandi búsetuskilyrða víða um heim, óveðráttu og þurrka. Myndalegur stuðningur við brothætta byggð í Árneshreppi og sem sárlega vantar lágmarks vegasamgöngubætur, gæti verið fyrsta skrefið. Líka til að við öll og komandi kynslóðir fái notið stórkostlegs landsvæðis og náttúru norður á Ströndum. Þar sem sagan okkar og menningararfur, í oft harðbýlu en oftast gjöfulu landi, getur verið áfram órjúfanlegur þáttur við nútíðina og þeirri ógn sem við og heimbyggðin öll stöndum frammi fyrir.

„Stór innviðaverk­efni í Árnes­hreppi þola enga bið. Verði ekk­ert að gert gæti byggðin lagst af og þar með væru „var­an­lega glötuð mik­il verðmæti sem fel­ast í menn­ingu og mann­lífi í þessu sér­stæða og afar fal­lega byggðarlagi“. https://www.mbl.is/frettir/innlent/2018/12/17/oasaettanleg_innilokun_i_arneshreppi/

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn