Sunnudagur 08.09.2019 - 19:28 - FB ummæli ()

Ekkert brothætt á Ströndum

Það var skemmtileg tilviljun að ég fór í sunnudagsgöngutúr á Strákatanga í Hveravík á Ströndum, rétt nýbúinn að lesa bókina hans Kim Leine Spámennina í Botnleysufirði sem gerist seint á 18 öld og reyndar hálfnaður með Rauður maður, svartur maður sem gerist á svipuðum slóðum hálfri öld áður, í nýlendum Dana á suðurhluta Grænlands. Þar sem líf aðkomumanna snerist mest um að afla sel- og hvalspiks til framleiðslu lýsis til útflutnings. Hollendingar stunduðu hvalveiðar á Steingrímsfirði á Ströndum á eftir Böskum (1615) og reistu hvalveiðistöð til bræðslu á Strákatanga seinna á 17 öld eða upphafi 18 aldar. Ólögleg viðskipti eru talin hafa verið mikilli milli þessara aðila og Strandamanna, í mikilli óþökk einokunarveldis Dana og því til fáar samtímaheimildir af atburðunum. Talið er að Íslendingar hafi aðallega sóttst eftir hvalkjöti, járnvörum, tóbaki og brennivíni.

Sögurnar hans Kim Leine eru mjög nákvæmar hins vegar er varðar aðbúnað nýlenduherra Dana og leigulýðs á Grænlandi. Menningu þess tíma, sérstaklega tengt danska konungsveldinu og kristniboðinu á Grænlandi. Lífsháttum Grænlendinga eru gerð góð skil og ósamræmi þessara tveggja menningarheima, ekki síst er varðaði lífsviðurværi og trúmál. Lítilsháttar tengingar eru við Ísland í skipaferðum, sögupersónum og jafnvel er varðar hugmyndir um fyrra landnám norrænna manna á austurströnd Grænlands.

Aðstæður syðst á Grænlandi svipar mjög til íslenskra aðstæðna, sérstaklega þó Vestfjarða. Aðstæður Strandamanna í upphafi 18 aldar hafa sennilega þannig ekki verið ósvipaðar og Grænlendinga á margan hátt, að reyna að lifa lífinu og þótt menningin, verslun og öll aðföng hafi verið ólík. Flestir bjuggu í torfhúsum einhverskonar og sjávarafurðir aðallífsviðurværið. Íslendingar stunduðu þó landbúnað og sem var fáséður í Grænlandi, en veiðar villidýra hverskonar hins vegr meiri.

Það er gaman að spegla þessar aðstæður og menningarheima saman, tengt sögunum og minjum sem enn finnast. Bergsveinn Birgisson, rithöfundur gerir reyndar íslenska kaflanum og tengingu við danska konungsvaldið miklu betri skil í bók sinni Lifandilífslækur (2018). Skáldsaga sem gerist mest á Ströndum eftir móðurharðindin miklu í lok 18 aldar og Íslendingar við það að þurrkast út. Þegar hugmyndir voru jafnvel uppi í danska konungsveldinu að flytja mætti restina af vinnufæru fólki nauðugt til Danmerkur. Galdrar nyrst á Ströndum voru hins vegar ansi nálægt að breyta þeirri mynd í skáldsögu Bergsveins, vegna áhrifa sem danski konungssendiboðinn Magnús Árelíus varð fyrir á leið sinni norður Strandirnar.

Á Ströndum er víða hægt að ganga um fornar slóðir og skynja síðustu menjar nánast horfins heims. Jafnvel frá 12 öld, á tímum Guðmundar góða hólabiskups og sem var Strandamönnum sérstaklega kær og sem ég hef áður getið um í pistli um Kálfanes. Enn einu sinni koma Strandirnar manni skemmtilega á óvart, nú á Strákatanga (áður Skarfatangi) við Hveravík (áður Reykjarvík). Ótrúleg samtenging sögunnar og nútíðar. Upplifun sem skynja má reyndar í daglegri menningu Strandamanna og þar sem allt kemur heim og saman. Og enn gerast galdrar fyrir aðkomumanninn mig, eins og lýst er í frásögn Bergsveins, sem engan vegin er hægt að skrifa á tilviljanir einar saman. Brothætt byggð heitir þetta reyndar í dag í opinberu máli.

Strákatangi við Hveravík, Steingrímsfirði á Ströndum

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn