Sunnudagur 14.06.2020 - 12:10 - FB ummæli ()

Næmur á Íslandi

Hungurleikarnir – þeir hæfustu fá að lifa

Í dag á Íslandi höfum við miklar áhyggju af smitsjúkdómi sem kallast Covid-19 og sem er heimsfaraldur stökkbreyttrar kórónuveiru. Jafnvel banvænn eldra fólki og fólki með langvinna alvarlega undirliggjandi sjúkdóma. Veirusjúkdómur og sem veldur samt flestum aðeins tímabundnum vægum kvefeinkennum, en sem getur í útsettum tilvikum verið langvinnari og sett í gang alvarlegar vefjabreytingar m.a. í lungum og brenglað ónæmissvör með víðtækum afleiðingum í flestum líffærakerfum, m.a. blóði og storkukerfinu. Öndunarbilun og blóðtappar eru þannig algengastar dauðorsakirnar og sem geta náð til yfir 2% smitaðra í mestri áhættu. Það sem er hins vegar ekki vitað er, hversu mörg okkar eru í raun næm fyrir sjúkdómnum og þar sem aðeins um 1% hefur náð að smitast samkvæmt mótefnamælingum fyrir veirunni í fyrstu bylgju faraldursins í mars-maí á þessu ári. Sennilega aðallega vegna mikilla smitvarna hverskonar og lokunar landsins í 3 mánuði.

 Mannkynssagan markast hins vegar mest af gerðum okkar mannanna og náttúruhamförum ýmiskonar sem við höfum hingað til engu ráðið um. Hlýnun jarðar, mengun og ofnotkun sýklalyfja hafa skapað miklar áskoranir fyrir mannkynið að leysa á eigin forræði og sitt sýnist hverjum í þeim efnum.
Sumar þjóðir hafa líka farið afar illa út úr samskiptum við aðrar þjóðir í aldanna rás og bera þess ætíð merki hvað lýðheilsuna varðar. Ein slík er Haítí sem Spánverjar lögðu landareign sína á um miðja 15 öld og kölluðu hana þá Hispaníólu sem síðar varð að þrælanýlendu Evrópuþjóða. Ef til vill má þó segja að Íslendingum hafi verið bjargað að deyja út sem þjóð undir yfirstjórn Dana á okkar málefnum í upphafi 19. aldar. Heimsfaraldar ýmiskonar og náttúruhamfarir höfðu dunið á þjóðinni í aldanna rás, en loks móðurharðindin og stórabóla og þegar danski konungurinn, Friðrik 6. (formlega þó Kristján 7.) sá aumur á þjóðinni og skaffaði Íslendingum fyrst meðal þjóða bóluefni gegn stórubólunni 1805. Stærsta lýðheilsuverkefni Íslandssögunar í mannslífum talið og fækkun ungbarnadauða sem langa-langa-langafi minn, Ari Arason tók þátt í meðal fyrstu læknanna hér á landi í Skagafirði og mér er oft hugsað til þessa daganna og þegar bóluefni gegn Covid-19 sárlega vantar. https://blog.dv.is/vilhjalmurari/2015/02/20/ef-bolan-tekur-hann-ekki-eir-ix-seinni-hluti/
En aftur til smitsjúkdómanna úti í hinum stóra heimi og samspil þeirra við erfðafræðina, en á allt annan hátt en þess sem við höfum fengið nú að njóta með aðstoð og aðseturs Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) í Vatnsmýrinni og þar sem Kári Stefánsson, læknir leikur eitt stærsta hlutverkið. Og hugsum okkur nú eitt andartak að lúsmýið skæða gæti borið með sér smitsjúkdóma eins og moskítóflugan gerir víða, t.d. malaríu, beinbrunasótt eða jafnvel fílaveikina og eitt tilfelli greindist fyrir tilviljun á allt anna hátt á Íslandi fyrir rúmum þremur áratugum. Svo sem lítið tilfelli í stóra samhenginu á heimsvísu, en sem segir samt svo ótrúlega mikið um hvað við höfum það gott í dag á Íslandi. Eins til hvers mikils er að að vinna að halda þeirri heilbrigðisstöðu sem er í dag og sem sagan segir að sé auðvitað ekki neitt náttúrulögmál, allra síst með miklum fjölda ferðamanna og ótryggu heilbrigðiskerfi. En hér kemur sagan um Litlu stúlkuna frá Haítí sem ég skrifaði um fyrir áratug, nánar tiltekið janúar 2010 eftir jarðskjálftana miklu á Haítí.
——————————————————————————————————-

Sagan markast mest af gerðum okkar mannanna og náttúruhamförum ýmiskonar. Sumar þjóðir hafa farið illa út úr samskiptum við aðrar þjóðir í aldanna rás og bera þess ætíð merki. Ein slík er Haítí sem Spánverjar lögðu landareign sína á um miðja 15 öld og kölluðu hana þá Hispaníólu sem síðar varð að þrælanýlendu Evrópuþjóða. Englendingar, Frakkar og Hollendingar voru þar stórtækastir og fluttu þangað milljónir Afríkubúa nauðuga. Afkomendur þrælanna blönduðust síðan innfæddum með tímanum.

Sigðkornablóðleysi (Sickle Cell Anemia) sem er erfðablóðsjúkdómur sem á upptök sín upphaflega í Afríku en er nú mjög algengur meðal eyjaskeggja á Haítí. Arfblendnir einstaklingar geta lifað nokkuð eðlilegu lífi en þola ílla alvarlegar sýkingar og háan hita. Rauðu blóðkornin geta þá hlaupið í kekki, stíflað litlar æðar og síðan sprungið. Því er mjög mikilvægt að meðhöndla undirliggjandi sýkingar fljótt og koma eins í veg fyrir fyrir vökvatap. Margir smitsjúkdómar eru auk þess algengir í mið-Ameríku sem eru okkur vesturlandabúum framandi, svo ekki sé talað um eyðnisjúkdóminn sem er mjög algengur á Haítí og tengist mest fátækt þjóðarinnar.

Hér á eftir ætla ég að greina betur frá einum landlægum sjúkdóm sem eyjaskeggjum á Haítí þykir ekki merkilegur en er mér mjög ansi hugstæður. Vegna atburðanna á Haítí og nú síðast frétta um Tarantúlu kóngulóabit meðal íslenskra björgunarmanna sem voru að koma heim, varð mér hugsað til lítillar stúlku frá Haítí sem undir umsjón Þrastar Laxdal, barnalæknis, ég og félagar mínir önnuðumst á barnadeildinni á Landakoti fyrir um aldarfjórðungi síðan. Hún var nýkomin frá Haítí í heimsókn til Íslands með kanadískri fósturfjölskyldu. Stúlkan var innlögð vegna hita, en vitað var að hún var með arfblendna sigkornablóðleysi og það því ein aðal ástæðan fyrir innlögninni.

Þegar við Íslendingarnir vorum að smásjárskoða blóðið til að fræðast og sjá hvernig rauðu blóðkornin skryppu saman við súrefnisskort og sem er einkennandi próf sem hægt er að gera hjá þeim sem eru grunaðir um þennan blóðsjúkdóm í arfblendnu formi, var erfitt að fá fókus og rauðu blóðkornin virtust öll á „iði“. Við betri athugun og lýsingu, kom í ljós að blóðdropinn undir glerinu var fullur af lirfum og sem litu út eins og lítil síli og sem sópuðu til blóðkornunum.

Nú voru góð ráð dýr og Dr. Sigurður Richter, dýrafræðingur á Keldum var kallaður til, til að reyna greina fyrirbærið fyrir okkur  og út frá myndum í stórum atlas sem hann kom með var hægt að greina Wuncheria Bancrofti lirfar. Hann veldur ormaveiki sem kölluð er „fílaveiki“ (elephantosis) og sem reyndar tveir aðrir skyldir ormar geta einnig valdið. Móðurormarnir geta verið allt að 10 cm. langir og stíflað sogæðar og þannig valdið miklum og síðar krónískum bjúg þannig að útlimir geta margfaldast að ummáli og afmyndast líkt og sést á meðfylgjandi mynd.

Reyndar var stúlkan okkar með vægan „fílafót“ á öðrum fætinum. Við ómskoðun komu enda fram nokkrir stórir móðurormar í nára, og síða m.a. hreiður við ósæð hjartans sem olli þrengslum og hjartaóhljóði við hjartahlustun sem við vorum búnir að greina. Annar stór ormur var líka við lifur. Við þessum sjúkdóm var svo sem ekkert heldur að gera.  Ormanna og lirfurnar á þessu stigi má ekki drepa með lyfjum vegna hættu þá á ofnæmis-sjokki og mikið magn af framandi próteinum frá ormum og lirfum leysast snögglega upp í blóðinu.

Það sem vantaði hér á landi til að smit gæti átt sér stað milli manna voru moskító flugurnar. Flugan er síðan millihýsill fyrir lirfurnar sem geta síðan smitað aðra og hún náð kynþroska. Lifitími ormsins í líkama mannsins er ca 1-2 ár og sennilega var stúlkan langt komin með sína ormaveiki miðað við umfang ormaveikinnar í blóðrásinni (aldur og stærð móðurormanna). Auk framangreindra sjúkdóma var stúlkan með ýmsa aðra króníska sjúkdóma svo sem langvarandi þvagfærasýkingu og mikla vaxtartruflun.

Tilfellið minnti mann á áþreifanlegann hátt  á erfiða sjúkdóma sem eru okkur hér norður á hjara veraldar framandi.  Sýkingar og vatnsskortur gerir nú líf fólksins á Haítí enn erfiðara og farsóttir geta blossað upp. Eyjaskeggjar sýna þó ótrúlegan dugnað og æðruleysi, eins og fram hefur komið í viðtölum við björgunarsveitarmenn. Í dag snýst umræðan hér á landi og mörgum vestrænum löndum hins vegar meira um oflækningar, sjúkt heilbrigðiskerfi og ofnotkun lyfja. Mikið er lífsins gæðunum misskipt milli landa og sennilega væri vestrænum löndum betra að fara sér eitthvað hægar og reyna að koma a.m.k. í veg fyrir heimatilbúin heilbrigðissvandamál.

Mér er ekki kunnugt um að fílaveiki hafi greinst hér á landi fyrr eða síðar, þótt áætlað sé að allt að 120 milljónir manna séu smitaðir og sýktir úti í hinum stóra heimi. Ekki má heldur gleyma þeim aragrúa annarra sníkjudýrasjúkdóma og smitsjúkdóma sem lönd eins og Haítí eiga við að glíma, ofan á allt annað. Sagan hér að ofan getur e.t.v. verið hvatning fyrir einhverja að styrkja þessa þjóð nú.

Flokkar: Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn