
Stokkhólmur, 2014
í Læknablaðinu sá ég viðtal við gamlan kunningja, lækni sem ég starfaði með á Barnadeild Hringsins um 1980 og sem var að láta nú af störfum, rúmlega sjötugur. Hann fór þar yfir farinn veg og minntist með hlýjum orðum á gömlu lærifeður sína. Fannst þeir hafa tekið sér ótrúlega vel sem kandídat á sínum tíma og sem varð til þess að línurnar í hans sérnámi voru lagðar fyrir framtíðina. Ég kynntist aðeins sumum af þeim gömlu höfðingjum sem hann nefndi, en starfaði sjálfur sem kandídat m.a. undir hans umsjón. Eins og hann nefndi og sem varð honum eitt dýrlegasta veganestið, góð virðing og traust gagnvart sjúklingnum, tel ég að sama skapi hafa verið mitt mikilvægasta veganesti í læknisfræðinni. Góð tengsl við sjúklinginn og hans aðstanendur. Þótt hugurinn væri mest tengt barnalækningum í þá daga og sem ég starfði við á ólíkum starfssviðum í 2 ár, m.a. á Landakoti, varð úr að ég valdi heimilislækningar.
Í dag þegar þetta er skrifað datt upp á skjáinn minn 10 ára gömul meðfylgjandi mynd sem tekin var í Svíþjóð. Það sem heillaði mig og sem ég man svo vel eftir, var litafegurðin, gamalt fallegt hús, gömul tré og gróðurinn sem skartaði þar hlýjum haustlitum. Gamalt og gott, en samt eitthvað nýtt. Ég hef lengi heillast af sögu læknisfræðinnar og hvað menn gátu oft gert mikið úr litlu. Traust almennings á læknisfræðina þótt oft væri lítið til ráða. Hvað síðan margt breyttist í nálgun læknisfræðinnar til svokallaðra eiginlegra lækninga og sem jafnvel fer þá stundum í hringinn í kringum sjálfan sig. Mitt rannsóknarverkefni til doktorsnáms var í vissum skilningi oflækningar og þegar sýklalyf eru ofnotuð, jafnvel þá til skaða fyrir einstaklinginn og ekki síður samfélagið allt. Forfaðir minn Ari Arason, læknir var einn af fyrstu læknum Norðurlands og fékk það hlutskipti að berjast m.a. við bólusóttina með bólusetningum (kúabóluefni). Bólusetningin var skráð í kirkjubækurnar, enda flestir bólusóttir þegar þeir sóttu kirkju. Átakið sem hann og samtímalæknar um landið á þessum tíma upp úr aldarmótunum 1800 er sennilega stærsta lýðheilsusátak Íslandssögunnar. Eins kennsla um mikilvægi hreinlætis svo sem við fæðingaraðstoð. Upphaf síðar kennslu kvenna í yfirsetufræðum og fæðingarhjálp almennt og sem síðar varð upphaf ljósmæðrakennslu hér á landi. Mitt rannsóknasvið var hins vegar þegar við læknarnir gerum um of.
Þegar ég lít yfir farinn veg, hefur margt breytst í læknisfræðinni. Sérstaklega á það við er varðar lýðheilsusjúkdómanna. Sannleikurinn er enda ekki svart-hvítur. Gráa svæðið á milli oft mikilvægara eða skulum við segja í dag litrófið allt. Þar sem nándin, þroski, skilningur og fræðsla skipta mestu máli. Umburðarlyndi og nýr kynjaskilningur. Til að bæta almenna heilsu og geðheilbrigði og fyrirbyggja hina þekktu sjúkdóma. Læknisfræðin í dag á heldur engin viðurkennd lyf sem eru beinlínis er græðandi, nokkuð sem gamla læknisfræðin í jafnvel þúsundir ára hafði reynt að tileinka sér og þegar hún sótt í kraft til líkamans sjálfs (sjálfbærni hans eins og annarra dýrategunda í eðlilegu umhverfi), náttúrinnar sjálfrar og plönturíkisins. Forskriftarbækur voru þeirra tíma lyfjafræði, allt eftir staðháttum. Nokkuð sem lyfjafyrirtæki samtímans hafa ekki lagt mikið upp úr að rannsaka með dýrum klínískum rannsóknum. Markmiðið lyfjaframleiðenda er að framleiða lyf sem græða má sem mest á og sem hefta frekar en að græða. Sannarlega samt oft mjög öflug lyf eins og t.d. svokölluð líftækni- og krabbameinslyf. Gömul góðu ódýru lyfin sem sum byggja á gömlu læknisfræðin eiga hins vegar oft undir högg að sækja. Lyfjaskortur er auk þess oft á ódýrustu en stundum lífsnauðsynlegustu lyfjunum, vegna markaðslögmála verslunarinnar.
Það hefur verið mikil reynsla að fylgjast með breytinum á lyfjamarkaðnum sl. hálfa öld. Undralyfin koma hvert af öðru og sem eru kölluð allskonar töfranöfnum. T.d. svokölluð efnaskiptalyf sem tekin eru við offitu og sykursýki í dag og sem eiga að breyta hegðun okkar. Eins oft ný geðlyf eins og ADHD lyfin. Stundum meira gegn einkennum og vanda, en raunverlulegum sjúkdómum og sem hafa fengið greiningaskilmerki sjúkdóma svo hægt sé að skrifa þau út á lyfjamarkaði. Kvíði/þunglyndi er eins orðinn algengur fylgikvilli nútímalífs og sem kallar á lyfjameðferð í mörgum tilvikum og þegar sálfræðihjálp er jafnvel vanfengin. Á síðari árum svo þróun að flokka okkur eftir erfðum með jafnvel óforspurðum genarannsókum, frekar en með t.d. umhverfiserfðafræðilegri nálgun og sem oft ræður mestu hvaða gluggar eru opnaðir eða lokað fyrir í erfðamengi okkar. Möguleikum til að stuðla að bættri lýðheilsu allra með almennri og einstaklingsmiðaðri ráðgjöf, frekar en hræðsluáróðri sem kollvarpað getur lífinu ef forskrift genanna er ekki á besta máta.
Nútíminn hefur hvað sem hver segir alið af sér ótal lífsstílssjúkdóma sem leysa á með lyfjum, frekar en vinna á grunnorsökinni. Tímaleysið alltaf meira, ekkert síður hjá læknum og heilbrigðisstarfsfólki almennt, en almenningi. Rafræn tjáning og samskipti sífellt meiri en tjáning augnliti til augnlits. Sennilega er samvera og tími með skjólstæðingi þess sem maður saknar orðið mest og sem upphaflega dró mann að starfinu. Gervigreindin síðan skammt undan (sem þróunarkenningin gerði ekki ráð fyrir) og stöðug aukin rafræn skilaboð að vinna úr í tölvunni eða símanum.
Mikilvægasta í starfinu er að þykja vænt um það og sem læknisfræðin almennt býður samt sannarlega upp á. Meta breytingar sem hægt er að spegla í fortíðinni. Margar breytingar líka til góðs og aukin þekking á gangi sjúkdóma. Aukið skyn á því sem maður telur mikilvægast og að fá tækifæri til að miðla þekkingu sinni til annarra. Einn mikilvægasta þekkingin kemur enda af reynslunni, helst á sem ólíkustu sviðum læknisfræðinnar. Gerir hana um leið svo miklu skemmtilegri og skýrari, heildrænni. Aukin næmni á vandamálin. Starfskraftur sem brennur enn fyrir starfi sínu, þótt fullorðinn sé ætti að vera mikilvægur heilbrigðiskerfinu. Fyrir unglækna eru þetta held ég mikilvæg skilaboð, að vera meðvitaður um sífellda þróun fagsins og möguleikann á að móta það á sem bestan veg. Vonandi, eins fyrir þá sem yngri eru, að meta reynslu þeirra eldri og til að forðast megi mistök í skipulagningu heilbrigðiskerfisins sem við sjáum svo víða í dag. Millistjórnendur ættu auðvitað að berjast með grasrótinni í stað þess að líta alltaf upp fyrir sig í stjórnunarpýramídanum.
Stöðugt þarf maður samt að minna sig á gildi sitt í heildarmyndinni. Stundum getur það verið sárt. Það sem hefur gefið mér mest og ég er stöðugt minntur á, eru mannlegu tengslin við manneskjuna, frekar en sjúklinginn. Eitthvað sem eflist með hverju starfsárinu. Stundum meira í hlutverki leiðbeinanda og stuðningsaðila. Samtalsmeðferð er einn þýðingarmesti partur í heimilislæknisfræðinni. Vísindaþátttaka í þessu öllu saman er ekkert að síður dýrmætur skóli. Góðir leiðbeinendur eru þar mikilvægastir. Niðurstöður rannsókna eiga að geta leitt til góðra breytinga. Þakklátastur er ég þó tækifærinu á að fá að kynnast ólíkum starfsstöðum lækninga. Reynsla sem kallaði á mikla vinnu og viðveru á ólíkum starfsstöðvum. Kostaði líka oft mikla fjarveru frá fjölskyldu, en sem miklu betur hefur tekist að samræma í dag. Mín reynsla a.m.k. til 40 ára af vinnu á BMT LSH, áður Slysa- og bráðamóttöku Landspítalans, samfara heimilislæknastörfum og sem hefur verið mér ómetanleg reynsla í starfi, ekki síst í dreifbýlinu. Á sama tíma og sérhæfing í læknisfræðinni er samt alltaf að aukast og krafa er um að hver og einn læknir eigi að hafa sinn fasta samanstað í kerfinu!
Símenntun er mikilvæg til að geta deilt þekkingu jafnóðum, ekkert síður milli kynslóða og vísindasviða. Vísinda- og greinaskrif er þar stór partur. Greinaskrif með það að markmiði að fræða almenning út frá bestu þekkingu og reynslu höfundar tel ég sérstaklega mikilvæga. Þannig varð til sú „dægrastytting“ að ég fór að blogga fyrir 15 árum. Allt tengt fræðslu og upplýsingum til almennings, en eins stjórnsýsluleg gagnrýni á heilbrigðiskerfið. Margt sem tengist þróun en sem var andstæð minni reynslu og sýn. Réttri forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu og að vel sé farið með fjármagn. Eins ferðapistlar utan úr heimi og sem gaf manni oft aðra sýn en sem maður hefur hér heima.
Jafnvel um bolabrögð og lögbrot samkvæmt gildandi íslenskum lögum eins og samráðsleysi stjórnvalda var við Sóttvarnaráð Íslands í heimsfaraldri Covid19 og ég hef áður gert grein fyrir. Eins með tilliti til breytingatilburða með nýjum Sóttvarnalögum og þar sem sjónarmið heimilislæknisins eru gjaldfelld. Gengið var allt of langt með heftingu á tjáningarfrelsi með (skyndi) þjóðaröryggisnefnd ríkisstjórnarinnar um falsfréttaflutning. Þar sem ekki var hlustað á vísindamenn og lækna sem vel áttu að þekkja vel til út frá reynslunni. Ríkisfjölmiðillinn RÚV ohf. var nýttur sem stjórntæki stjórnvalda til að móta skoðanir almennings. Langtímaskaðann og tapað fjármagn til skynsamlegra fjárfestinga fær sagan ein að dæma um og alltaf er að koma betur í ljós. Sama með staðarvali á nýja þjóðarsjúkrahúsinu á Hringbrautarlóð sem mér hefur oft verið tíðrætt um. Stærstu og dýrustu skipulagsmistök Íslandssögunnar að mínu mati.
Lífið, fjölskyldan og starfið, lífsskoðanir og reynsla, gleði og særindi, allt er þetta nátengt að lokum og þegar litið er yfir farinn veg. Sennilega hef ég verið heppinn, og svo sannarlega sé ég ekki eftir neinu. Sárast er aðeins að sjá afleiðingar slæmrar stjórnsýslu og stjórnunar í heilbrigðiskefinu og sem koma hefði mátt í veg fyrir. Auðvitað nálgast allir sitt og læknisfræðina á sínum forsendum með gott eitt í huga. Allir gera sín mistök, líka ég, og flestir reyna sitt besta. Sannleikurinn er ekki heldur svartur eða hvítur eins og áður segir, heldur meira í lit. Stjórnsýslan og pólitíkin lýtur hins vegar oft að sínum eigin svart-hvítu lögmálum.