Nú er mikið rætt frjálsari aðgang að áfengi gegnum netverslanir, jafnvel í matvörubúðirnar, á sama tíma og töluverðar skerðingar hafa verið viðhafðar að aðgengi að öðrum ávana og fíkniefnum. Margir vilja takmarka aðgengið þar enn meira, lýðheilsunnar vegna og vegna hættu á ofnotkun. Það má vel velta fyrir sér eðlismuninum á áfengisvímu og áhrifum slævandi vímuefna. Hver er t.d. skilgreindur eðlismunur á áhrifum af einni töflu af Valíum/Stesolid og einu glasi af sterkri áfengisblöndu eða tveim bjórum? Af hverju eru höfð ströng skilyrði með lyfjaávísunum á sama tíma og ef svo að segja afgreiða má jafnvel ótakmarkað magn af áfengi í matvöruverslunum? Til að fá endurnýjuð flest lyf getur sjúklingur oft óskað eftir endurnýjun gegnum Heilsuveru, en þar sem ávanabindandi og sterk verkjalyf eru undanskilin. Til þess þarf viðtal við lækni. Í dag getur hver sem er sótt um afgreiðslu áfengis gegnum netverslanir og nú jafnvel sótt í matvöruverslun og ef hann hefur aldur til. Til að fá afgreidd lyf með slævandi verkun, svefnlyf og sterk verkjalyf, og örvandi ADHD lyfin, þarf alltaf lyfseðil frá lækni og afgreiðsla er eingöngu gegnum apótek sem hafa lyfsöluleyfi. Vegna meiri og vaxandi notkunar á þessum lyfjum, meira en í nágrannalöndunum, er stefnt að minnka notkunina með meiri fræðslu heilbrigðisstarfsfólks og ráðleggingum í apótekum- með átaki sem kallað er LYF ÁN SKAÐA og töluvert hefur verið í fréttum.
Áfengi er sennilega eitt mesta böl samtímans þótt öll vímuefni (ekkert síst þau ólöglegu) séu í vaxandi mikið þjóðfélagsvandamál, félagslega og heilbrigðislega. Tölur frá SÁÁ og Vogi benda til aukins fjölda sjúklinga sem leita þarf sér aðstoðar við vímuefnavanda, þó ekki síst vegna áfengisvandans. Dagdrykkju eldra fólks er þar ekki síst um að kenna og eins „normaliseringu“ áfengisdrykku almennings. Margir búnir að brenna allar brýr að baki sér og sumum vart bjargandi nema með lágmarks áframhaldandi lyfjaskömmtum eða með svokallaðri skaðaminnkandi meðferð. Færa má góð rök fyrir því að allar takmarkanir á sölu áfengis hafi skaðaminnkandi áhrif í för með sér.
Áfengisvandinn er mikill á Íslandi í dag, hverjar svo sem ástæðurnar eru. Sífellt fleiri á fullorðinsárum verða skaðanum að bráð með miklu heilsutapi. Til skamms tíma var hins vegar neysla léttvína og bjórs með því minnst þekkist meðal Evrópuþjóða. í dag stefnum við sennilega að norðurlandameti eins og staðreyndin er með ávanabindandi lyf. Það er væntanlega til einhvers að vinna að forðast þá stöðu. Árleg áfengisneysla hefur minnkað um hálfan lítra á einstakling í Evrópusambandslöndum frá 2010 til 2020 en á Íslandi hefur hún aukist um 0,6 lítra (DV 15.4.2024).
Sölutölur hafa bent til þess að við erum nú á pari við hinar Norðurlandaþjóðirnar í áfengissölu að Danmörku undanskildari. Að vilja frjálsrar verslunar á að reyna að auka söluna með afnámi einkasöluleyfis ÁTVR. Ekki af mannkærleika heldur vegna gróðasjónamiða. Erlendar netverslanir, jafnvel dótturfélög innlendra aðila hafa verið með áfengisölu hér á landi um árabil með póstsendingum og íslensku birgðarhaldi. Efitir á að setja í lög í ljósi regluverks ESB/EB hvernig þessu verður háttað hér á landi í ljósi þess að ÁTVR hefur eitt verið með einkasöluleyfið gegnum verslanir þess. Færa má góð rök fyrir að með þeirri einokun sé að minnsta kosti lágmarks söluhefting á áfengi, lýðheilusmarkmiðanna vegna.
Maður spyr sig líka, af hverju eru sum lyf lyfsöluskyld með kröfu um læknisávísun og síðan afgreiðslu í apótekum þegar gera á áfengissölu frjálsa í dag. Á áfengi virkilega að skilgreina í dag sem eðlilega neysluvöru sem hægt er að nálgast í matvöruverslunum, ekki sem vímuefni sem það sannarlega er og ákveðin lög gilda um? Hver á þá aðgangur almennings að vera að öðrum sambærilegum vímuefnum og áfengið er og sem flestir eru sammála um að þurfi að takmarka sem mest? Vilja matvöruverslanir afgreiða þau líka án hafta? Ef grundvöllur bregst á rekstri ÁTVR í þeirri mynd sem við þekkjum í dag, taka almennir verslunareigendur alfarið glaðir við keflinu og sem sennilega er lokatakmark þeirra í dag.
„Snúið huganum að því, hvort þið viljið halda áfram að neyta áfengra drykkja, hvort sem það mun vera til hagsmuna eða tjóns fyrir þjóðina, að áfengir drykkir eru hafðir á boðstólnum í vörubúðum og gesthúsum handa hverjum sem hafa vill. Ef gagnsemi áfengis væri meira en tjónið, sem að því hlýst, þá væri það gott og blessað og þá ætti að hafa það til sölu í hverri sveit. En nú hefir því verið haldið fram hér á landi í mörg ár að aðalútkoman af áhrifum áfengis á þjóðina er annars vegar stóreflis bein fjáreyðsla, hins vegar líftjón margra manna og heilsuspjöll á sál og líkama“. (Guðmundur Björnsson, landlæknir árið 1900 Áfengi í vörubúðum og gesthúsum.
Menn og konur hljóta að sjá í hvað stefnir ef sala áfengis verður gefin frjáls í næstu kjörbúð, jafnhliða sælgætinu og gosinu, þar sem við erum margfaldir Norðurlandameistarar í neyslu. Eða þá jafnvel með afgreiðslu áfengis í stað vandaðra blómvanda í blómabúðunum, kannski með einni sölnaðri rós á útsöluverði á flöskunni.