Þriðjudagur 15.10.2024 - 18:25 - FB ummæli ()

Hver er þín staða með lungnabólgu-bólusetningu?

Engin lýsing tilGegnum aldirnar hefur pneumókokkalungnabólga verið ein algengasta dánarorsök aldraða. Eftir heimsfaraldur Covid19 sl. ár og hvatningu til endurtekinna bólusetninga ásamt árlegri inflúensubólusetningu, eru margir búnir að gleyma einni mikilvægustu bólusetningunni fyrir aldraða og sem er einmitt pneumókokkabólusetningin. Lungnabólga af völdum pneumókokka er algengasta og alvarlegasta afleiðing allra slæmra lungnapesta, þó sérstaklega tengt Inflúensu og jafnvel Covid19.

Landlæknisembættið mælir með pneumókokkabólusetningu (svokölluð lungnabólgubólusetning) eftir 60 ára aldur og sem þarf að endurtakast helst á 5 ára fresti. Ráðlögð bólusetning er fyrr hjá sjúklingum með undirliggjandi alvarlega lungnasjúkdóma og aðra langvinna sjúkdóma og ónæmisbælingu. Á síðu Landlæknis er í dag mælt með fjölsykursbóluefninu Pneumovax (PCV23) sem fyrsta val (virkar ágætlega gegn 90% algengustu stofna pneumókokka sem valda sýkingum) og sem kostar um 6000 krónur. Í sumum tilvikum af læknisráði er frekar ráðlögð bólusetning með próteinbundnu bóluefni sem er virkara og langvinnara gegn alvarlegum ífarandi sýkingum en fjölsykursbóluefnið (Prevnar20, áður Apexxnar) og sem er svipað að gerð og börnum er gefið í ungbarnabólusetningunum undir 2 ára aldri. Þau bóluefni eru yfir helmingi dýrari en í vissum tilvikum er hægt að sækja um svokallað lyfjakort hjá lækni til niðurgreiðslu. Fjölsykursbóluefni eru ekki gefin ef áður hefur verið gefið próteinbundið bóluefni.

Spurning er hvort PCV23 (Pneumovax) ætti ekki að vera frítt fyrir þá sem eru í áhættuhópum á Íslandi. Í Danmörku, 2020-2023, var bóluefnið gefið frítt fyrir 65 ára og eldri með Inflúensu- og Covid19 bólusetningunum með mjög góðum árangri. Lungnalæknar þar vilja áfram slíka tilhögun og reiknað hefur verið út að PCV23 lungnabólgubólusetningin ein og sér fækkað innlögum á sjúkrahús vegna lungnabólgu aldraða um 30% og dauðsföllum um 40%.

Áður hefur verið sýnt fram á mikinn árangur með pneumókokkabólusetningum meðal barna sem byrjað var á á Íslandi 2011, Gangvart alvarlegum miðeyrnabólgum, lungnasýkingum og blóðeitrunum. Vonast var til að verulega væri hægt að draga úr sýklalyfjanotkun barna vegna miðeyrnabólgu sérstaklega og sem er algengasta ástæða sýklalyfjaávísana barna á Íslandi. Erlendar rannsóknir höfðu sýnt upp undir 70% minnkun á sýklalyfjanotkun vegna þeirra tilvika.

Reyndin var reyndar ekki nærri eins góð hér á landi, og þar sem skýringa var að leita í almennum sýklalyfjaávísanavenjum lækna í heilbrigðiskerfinu. Íslendingar nota þannig sýklalyf almennt mest allra á Norðurlöndum og hefur svo verið lengi.

Lungnabólgubólusetning aldraða ætti að minnka þörf á sýklalyfjum eins og barna og sem er út af fyrir sig mikið þjóðþrifamál í heimi vaxandi sýklalyfjaónæmis helstu sýkingarvalda mannsins. Ónæmi gegn vörnum sem bóluefnin framkallar, er hins vegar ekki til, en því þarf að viðhalda. Hér erum við fyrst og fremst að huga um eign vörnum gegn alvarlegum smitsjúkdómi.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn