Flestir í dag setja vindmyllur í samhengi við hugmyndir um að virkja eða ekki vindinn, til raforkuframleiðslu og sitt sýnist hverjum með tilliti til efnahagslegrar hagkvæmni annars vegar og land- og náttúruspjalla á víðlendum landsins, hins vegar. Tálsýn eða raunveruleikinn? Sennilega er skáldsagan frá 16 öld um riddarann Don Kíkóta á Spáni frægust fyrir árangursleysis hugsjónamanns á Spáni. Í persónu hans og fylgisveins, Sansjó Pansa, kristallast andstæður hugsjóna og veruleika, sannleika og tálsýnar, glópsku og skynsemi, listar og lífs. Barátta og elja Kíkóta má líka að sumu leiti túlka sem baráttu velviljaðs einstaklings gegn póltísku valdi eins og þeir blása hverju sinni. Meðfylgjandi mynd af styttunni af Kíkóta og fylgisveini tók ég í Madrid sl. sumar og þegar ég átti þar leið um á Plaza de España. Fann þar fyrir sterkum vindblæ og um leið hugrænni tengingu.
Alla mína starfstíð sem læknir hef ég fundið fyrir blæstri frá vanköntum í íslenska heilbrigðiskerfinu. Framan af var ég samt bjartsýnn á að flest mætti bæta með árunum og heimilislæknisfræðin varð fyrir valinu sem mín sérgrein. Álagið í vinnunni var mikið og vaktirnar margar, en sérgreinin ung og setti sér metnaðarfull markmið til framtiðar eins og marklýsing sérfræðináms í heimilislækningum bar með sér. Sat þá í stjórn FÍH og var virkilega stolltur af framsýninni. Gleðin stóð þó ekki lengi enda baráttan fljótt meiri varnarbarátta en framsókn. Breyttu litlu þótt ég stundaði gæðarannsókn m.a. í ávísanavenjum lækna í yfir áratug og sem að lokum var mitt doktorsverkefni. Niðurstöðurnar þóttu þó merkilegar og birtust í víðlesnum læknatímaritum um allan heim. Sumir telja að aðrar þjóðir gætu margt lært af reynslu íslendinga í þessum efnum og sem skilað gæti heilbrigðiskerfum miklu hagræði og lækkað heilbrigðiskostnað. Samdar voru jafnvel nýjar erlendar klínískar leiðbeiningar sem tóku tillit til rannsóknanna á Íslandi. Önnur gleðistund í starfsferlinum og fljótlega á eftir var ég líka skipaður klínískur dósent og tilnefndur sem fulltrúi LÍ í Sóttvarnaráð Íslands í tæp tvö kjörtímabil, skipaður af heilbrigðisráðherra.
Samhliða störfum í heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi, starfaði ég í um 40 ár á BMT LSH. Brann fyrir faginu og þar sem áskornair voru miklar. Fljótlega snerust hugrenningar mínar í vaxandi mæli um það sem miður fór í heilbrigðiskerfinu, yfirflæði og vöntun á þjónustu hverskonar. Öldrunarmálin og þjónustu við geðsjúka vó þar þungt. Lengi framan starfsævinni af taldi ég þó að starfsreynsla mín og þekking hlyti að ráða einhverju um framvindu úrbóta. Að stjórnvöld tækju mark á skoðunum, myndaðar af reynslu úr grastótinni. Að stjórnvöld væru að minnsta kosti tilbúin að hlusta. Það var minn misskilningur. Þau hafa aldrei viljað hlusta á einstaka raddir úr grasrótinni til stefnumótunar. Sama hver á í hlut og sérstaklega ef raddirnar gagnrýna fyrirliggjandi stefnumótun. Ekki einu sinni svarað neyðarópum, ekki svarað bréfum eða öðrum skilaboðum um viðtal. Vindhögg af minni hálfu?
Fyrir rúmum áratug fór ég virkilega að verða svartsýnn. Ég virtist alltaf vera að berjast við vindmillur og þótt ég teldi ekki vindmilluspaðana dreka eins og Don Kíkóte á sínum verstu stundum. Álagið í móttöku og yfirflæðið á BMT jókst stöðugt og starfsfólk þurfti einfaldlega að hlaupa hraðar. Löngu fyrirséð vöntun á lofuðum úrbótum t.d. í öldruna-og geðheilbrigðismálum og þjónustan bara versnaði ár frá ári. Jafnvel ríkisfjölmiðillinn RÚV ohf. virtist vera sem öxull í vélvirki vindmillanna og sem blés gagnrýnisröddum á haf út. Ekki vantaði þó loforðflaum hinna ýmsu stjórnmálaflokka fyrir einstakar alþingiskosningar gegnum árin, en sem féllu síðan í dúnalogn gleymskunnar.
Um þessar hugmyndir mínar hef ég skifað hundruð greina á blogginu mínu á gömlu Eyjunni. Mín vindhögg en sem voru engu að síður viðleitni til málsins. Allar verstu spár sem þar koma fram hafa því miður rætts. Í læknaeiðnum sverjum við þess heit að ganga ekki framhjá sjúklingi í neyð. Sama hlýtur að eiga við um heilbrigðiskerfið okkar og sem í dag er líklega stærsti og sjúkasti sjúklingur okkar allra. Engu breytir þar um að enn Í DAG er ungbarnadauði á Íslandi hvað lægstur í heiminum og langlífi þjóðarinnar telst gott. Þegar svo ráðherra vildi síðan ekki einu sinni hlusta á sína skipaða fulltrúa í sínu æðsta ráði sóttvarna landsins, Sóttvarnaráði Íslands, í heimsfaraldri Covid19 2020-2022, var nóg komið. Ráð sem ráðherra bar að leita til, til ráðgjar í stefnumótun sóttvarna hverju sinni samkvæmt stjórnsýslulögum. Þegar slagorð stjórnvalda var samt sem áður “gerum þetta saman”. Undirritaður sagði sig því frá ráðinu. Millistjórnendur í stjórnsýslupíramídanum, oftast með pólitíska tengingu að ofan, vildu bara fá að ráða í skjóli ráðherra. Vindmillurnar voru þannig ósigrandi!
Ég vildi samt óska að komandi kosningar snúist ekki enn einu sinni bara um vindmillur og að íslensk stjórnsýslulög fái a.m.k. haldið. Að lýðræðið viðhaldi sér ekki eingöngu með pólitískum vindblæstri á Íslandi. Stundum veit ég ekki heldur hvar setja á skilgreininguna milli vindhögga frá sjálfum vindmillunum og sem fanga og þess sem kenndur gæti jafnvel verið við spillingaróveður. Annars ætti samtalið, og sem er heilsugæslunni og bráðaþjónustunni heilagast gagnvart sínum skjólstæðingum, að sterkasta vopnið gegn vindgustri stjórnsýslunnar. En ef til vill verður annars bara sagan að dæma um Don Kíkóta heilkennið hjá okkur sumum í dag. Tálsýnina eða raunveruleikann?