Miðvikudagur 19.02.2025 - 17:46 - FB ummæli ()

Hver gaf skotveiðileyfi á innviðaöryggið í dreifðari byggðum landsins?

Engin lýsing tilUm árið var mikið talað um að styrkja “brothættar byggðir” til að tryggja að land héldist í byggð. Í því fellst mikil menningarleg verðmæti og þar sem saga okkar allra á oft rætur. Þrátt fyrir miklu meiri umferð tengt ferðamönnum og þungaflutningum gegnum héruð, hefur víða hallað stöðugt undan fæti og þótt íbúar geri sitt besta til atvinnusköpunar og í frumkvöðlastarfi í heimabyggð. Öryggisleysi tengt skertri heilbrigðisþjónustu og möguleikanum á öruggum sjúkraflutningum er víða mjög ábótavant og sem samfélagsumræða þessa daganna ber með sér. Skertar flugsamgöngur og lélegir eða jafnvel stórskemmdir vegir lýsa augljósu hættuástandi, ekki síst þegar mest á reynir í lífi okkar og við þurfum hjálp til að komast í öruggt var t.d. vegna bráðra veikinda eða slysa.

Víða um landið er sjúkrahúsþjónusta ekki lengur til staðar og sem kallar á enn fleiri sjúkraflutninga landshorna á milli, ekki síst til Reykjavíkur og nágrennis. Einn sjúkraflutningur af Ströndum getur hiklaust t.d. tekið 8 klst. 250 km hvor leið frá og til Hólmavíkur. Ekkert sjúkraflug er í boði og flugvöllurinn löngu ónýtur. Vegirnir síðan eins og þeir eru og sem takmarkar öruggan akstur, sérstaklega forgangsakstur.

Stundum þarf að fara lengri leið -Suður-Strandaveg- og síðan yfir Holtavörðuheiði og sem lengir þá leiðina suður um 80 km. Þá leið fara þungaflutningarnir í dag frá Ísafirði og Suðurfjörðum Vestfjarða vegna stórskemmdra vega á Vesturlandi og aðeins tímaspursmál hvenær sá vegur eyðileggst einnig. Stundum þarf  að fara í slysaútkall inn í Djúp enda Ísafjörður í 250 km. fjarlægð frá Hólmavík. Eins stundum norður í Árneshrepp, 100 km frá Hólmavík, ekki ósjaldan tengt ferðafólki. Reyndar er sjúkraflugvöllur á Gjögri. Samkvæmt almannavá er eins viðbragð frá Hólmavík í Reykhólahrepp ásamt með Búðardal og um alla Austur-Barðastrandasýslu. Aðeins einn sjúkrabíll í héraðinu öllu og einn læknir, en enginn hjúkrunarfræðingur. Sjúkrahúsið sem áður var starfrækt á Hólmavík er í dag aðeins öldrunarstofnun og þar sem ekki er lengur hægt að leggja inn sjúklinga, jafnvel yfir blánóttina.

Þegar ég byrjaði læknisstörf á Hólmavík í afleysingum fyrir rúmum aldarfjórðungi var íbúatalan áþekk og hún er í dag, en umferðin hins vegar nú margföld um héraðið og þungaflutningar með fisk suður sömuleiðis. Fyrstu árin var starfrækt sjúkrahúsaþjónusta og eins var föst viðvera hjúkrunarfræðings og jafnvel meinatæknis. Þjónusta í almennri móttöku á heilsugælustöðunni hefur þó alla tíð verið stöðug og eins föst viðvera sjúkraliða. Sjúkraflugvöllur var nothæfur allra fyrstu árin mín á Hólmavík. Þyrlur Landhelgisgæslunnar, 2-3, vissulega en til staðar og þegar veður og aðstæður/ísing leyfa. Þær hafa oft bjargað miklu. Sjúkraflutningar með sjúkrabílnum suður hafa hins vegar verið vel yfir 100 á ári – allt að þriðja hvern dag. Þá enginn sjúkrabíll í héraði á meðan og stundum enginn læknir – í allt að 6-8 tíma (reyndar stundum reynt að fá sjúkrabíl á móti sunnan frá). Ekki má heldur gleyma mikilvægu hlutverki björgunarsveitarinnar Dagrenningar á Hólmavík og Bjargar á Drangsnesi.

Hvers eiga brothættar byggðir eins og Strandir að gjalda og þegar nú jafnvel eina flutningsleiðin með sjúklinga suður er um sundurbrotna vegi og sem er þungaflutningum og lélegu viðhaldi fyrst og fremst um að kenna? Hvað má síðan ganga langt í að skera niður sjálfa heilbrigðisþjónustuna og þegar jafnvel líf okkar er í veði?

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Menning og listir

«

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn