Föstudagur 23.08.2013 - 08:36 - Lokað fyrir ummæli

Steinsteypuhallir

Það er ákveðið vanþróunarmerki þegar aðalnotkun á takmörkuðum gjaldeyri hagkerfis er notaður í steinsteypu.  Hagvöxtur verður seint dreginn áfram af steinsteypu einni saman.

Fá eyríki hafa getað byggt upp norrænt velferðarríki með því að byggja og reka hótel fyrir erlenda ferðamenn.  Ferðamennskan er góð búbót en er ekki undirstaða undir hagkerfi hjá þróuðu ríki.

Enn vafasamari notkun gjaldeyris eru steinsteypuhallir ríkisforstjóra sem þrá minnisvarað um sjálfan sig.  Slík forgangsröðun er óskynsöm svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Það er því rétt ákvörðun hjá nýrri ríkisstjórn að stöðva 5 stjörnu hótel fyrir fanga, auðvelt er að finna ódýrari lausn á þeim vanda.  Þá er rétt að staldra við og huga betur að byggingu á nýjum spítala.  Fyrst þarf að endurskoða heilbrigðiskerfið og gera mannauðsþáttinn sjálfbæran áður en til byggingar kemur.

Það er eðlileg krafa að menn viti utanum hvað þeir eru að byggja áður en byrjað er að steypa.  En þessi einfalda regla virðist vefjast fyrir Íslendingum eins og dæmin um fangelsið og spítalann sýna.

Það eru því viss vonbrigði að ríkisbankinn ætli að byggja glæsihöll á einni dýrustu lóð á Íslandi áður en efnahagsreikningur bankans er kominn á þurrt land og tiltekt á rekstrarreikningi er lokið.  Þessari vinnu þarf að ljúka fyrst þannig að tryggt sé að húsnæði af réttri stærð og staðsetningu henti framtíðarþörfum.  Ekki er nóg að loka útibúum úti á landi til að réttlæta byggingu á nýjum höfuðstöðvum á gamla Björgúlfsreitnum.

2007 hugarfarið virðist enn lifa góðu lífi í 101 Reykjavík.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur