Fimmtudagur 22.08.2013 - 08:15 - Lokað fyrir ummæli

Krónan = lág laun

Krónan er einn mesti dragbítur á laun og hagvöxt á Íslandi í dag.  Fortíðarvandi hennar og tómt framtíðarlausnarmengi mynda aldrei grunn sem hægt er að byggja á.  Er reynsla síðustu 5 ára ekki nóg?  Hvað á þessi tilraun að halda áfram lengi?

Helsti vandi krónunnar fyrir hinn almenna launamann er hár og sveiflukenndur fjármagnskostnaður sem heldur launum niðri og gerir neytendalán dýr.

Lítum nánar á hvernig krónan heldur launum niðri.

Samband launakostnaðar og fjármagnskostnaðar er í sinni einföldustu mynd fasti.

Því lægri sem fjármagnskostnaðurinn er því meira svigrúm hafa fyrirtækin til að borga há laun án þess að velta launakröfum út í verðlagið.   Há laun ýta svo undir fjárfestingar í framlegðaraukandi aðgerðum sem eru arðbærar vegna lágs fjármagnskostnaðar sem aftur dregur úr þörf á fjölda starfsfólks sem síðan styður við hóflegar raunlaunahækkanir.  Svona virka hlutirnir í hinum þýskumælandi hluta Evrópu.  Hinn hringinn þekkja Íslendingar hins vegar vel.

Því hærri og sveiflukenndari sem fjármagnskostnaðurinn er því lægri þarf launakostnaður að vera.  Hár fjármagnskostnaður gerir framlegðaraukandi aðgerðir oft óarðbærar.  Fyrirtæki eiga því erfitt með að mæta launahækkunum með fækkun starfsfólks.  Þetta setur mikinn þrýsing á að viðhalda lágum launatöxtum.  Þegar fyrirtækin ráða síðan ekki við launahækkanir renna þær út í verðlagið sem magnar sveiflurnar og viðheldur vítahring lágra launa og framlegðar.

Fyrirtæki sem starfa á eðlilegum samkeppnismarkaði þurfa á kostnaðarhliðinni annað hvort að vera samkeppnishæf um fjármagn eða laun.  Til að fyrirtæki geti starfað með bæði háan launakostnað og fjármagnskostnað þurfa samkeppnisaðstæður að vera skertar, t.d. að fyrirtækið hafi einokunaraðstöðu á markaði.

En það er einmitt þetta samspil, hás fjármagns- og launakostnaðar samhliða skertri samheppnisstöðu sem hefur bjagað íslenskt atvinnulíf um allt of langt skeið.  Þegar Ísland fékk tímabundinn aðgang að ódýru fjármagni eftir aldarmótin keyrði um þverbak.  Í stað þess að nota fjármagnið til að fjárfesta í framlegðaraukandi aðgerðum og gera íslenskt atvinnulíf samkeppnishæfara þandist launakostnaður út með hækkandi launatöxtum og fleiri starfsmönnum.  Því varð skellurinn í hruninu miklu harkalegri á launafólk en annars hefði þurft að vera.  Ísland missti af gullnu tækifæri.

Í staðinn sitja menn upp með lág laun, háan fjármagnskostnað og lélega framlegð.  Þetta er þó ekki algild regla, stærsta undantekningin er sjávarútvegurinn þar sem mörg fyrirtæki eru vel rekin.

Þessi vítahringur verður ekki rofinn nema með lækkun fjármagnskostnaðar og aukinni samkeppni sem þvingar fyrirtæki til að auka farmlegð sem á endanum mun skila sér í raunhækkun launa.  Þá er samkeppnishæft atvinnulíf undirstaða undir fjölbreytt atvinnulíf.  Hin leiðin eru lág laun, há verðbólga og einhæft atvinnulíf sem byggir á sjávarútvegi, orku og ferðamönnum.  Tölur um minnkandi atvinnuleysi samfara hægum hagvexti benda einmitt til að fyrirtæki séu farin að gera út á lág laun á meðan fjárfrekar framkvæmdir sitja á hakanum.  Hagvöxtur á Íslandi verður aldrei dreginn áfram af lágum launum.

Lykilinn að hærri launum og hagvexti er lágur og stöðugur fjármangskostnaður í alvöru gjaldmiðli.  Til þess þarf að taka upp nýjan gjaldmiðil og hækka lánshæfiseinkunn rikisins með skynsömum aðgerðum í ríkisfjármálum sem hljóta gæðastimpli frá matsfyrirtækjunum.  Að væla yfir falleinkunn, gerir bara illt verra.

Það þýðir lítið að lækka vexti á krónum til að ná niður fjármagnskostnaði, það leiddi aðeins til gjaldeyriskreppu.  Hagkerfið er fullt af “innistæðulausum” krónuávísunum á gjaldeyri enda er haftakerfið farið að líkjast gjaldeyrishappdrætti sem enginn bortnar í.  Sumir halda á krónum sem hægt er að skipta í gjaldeyri aðrir ekki.  Og þó að kerfið yrði hreinsað upp af “verðlausum” krónum er ekki hægt að lækka fjármagnskostnað niður á samkeppnishæft stig nágrannalandanna með afgangskrónu sem er rúin trausti.  Laun á Íslandi verða því alltaf lægri með krónu en alvöru gjaldmiðli.

Kjósendur hafa hins vegar valið krónuna og fylgifisk hennar lágu launin.  Þeir sem vilja samkeppnishæf laun og fjölbreytta starfsæfi verða því í auknu mæli að flytja úr landi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur