Mánudagur 19.08.2013 - 21:21 - Lokað fyrir ummæli

Stormur á gjaldeyrismarkaði

Gjaldmiðlar skuldugra þróunarríkja falla nú hratt.

Indverska rúpían leiðir fallið enda eru fjáfestar ekki trúaðir á aðgerðir indversku stjórnarinnar, sem þeir telja að stefni í öfuga átt.  Indverski seðlabankinn reynir að róa markaðinn með því að benda á að gjaldeyrisvarasjóður Indverja sé stærri nú en áður. Þá voru gjaldeyrishöft sett á í síðustu viku sem takmarka erlendar fjárfestingar Indverja erlendis.  En þetta virðist ekki hafa áhrif.  Sérfræðingar benda á að ekki sé nóg að stoppa útflæði af gjaldeyri, vandamálið sé skortur á innflæði.  Á meðan fellur rúpían.

Financial Times telur að róðurinn fyrir skuldug ríki og ríki með mikinn ríkishalla eigi eftir að þyngjast um leið og bandaríski seðlabankinn fer að hækka vexti.  Erlendir fjárfestar munu draga sig frá áhættumeiri hagkerfum og halda sig við trausta gjaldmiðla.

Stormurinn er rétt að byrja.  Það verður ekki auðvelt að fleyta krónunni út í svona veður, sérstaklega ekki þegar fyrirhugaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa fengið falleinkunn í nýlegum skýrslum hjá AGS og S&P.

Allt tal um að gjaldeyrishöftum verði aflétt hér í bráð er óskhyggja ein.  Líklega er áætlun AGS of bjartsýn – afnámið með hraðahindrunum mun líklega taka áratugi og getur ekki hafist fyrr en ró er komin á alþjóðlega markaði og ríkisstjórnin hefur birt trúverðuga gjaldmiðils- og efnahagsáætlun til lengri tíma.

Það er svo spurning hvort Ísland geti nokkurn tíma byggt upp nothæfan og frjálsan gjaldmiðil eins og gjaldeyrismarkaðir eru að þróast erlendis.  Til þess er hagkerfið einfaldlega of lítið, sveiflukennt og einhæft að ekki sé talað um skort á trúverðugri reynslu í efnahagsmálum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur