Sunnudagur 19.01.2014 - 09:22 - Lokað fyrir ummæli

x-D sýni á ESB spilin

Það er kominn tími til að Sjálfstæðisflokkurinn sýni á ESB spilin sín.

Er flokkurinn kópía af Framsókn eða ætlar flokkurinn að vera breiðfylking þar sem er rými fyrir kjósendur með mismunandi skoðanir í ESB málinu?

Hver er systurflokkur Sjálfstæðisflokksins í Bretlandi, UKIP eða Íhaldsflokkurinn?  Þetta er spurning sem kjósendur framtíðarinnar þurfa svar við.

Vinstra megin við miðju hafa kjósendur val, sérstaklega eftir að Jóhanna keyrði Samfylkinguna langt inn á vinstri kantinn.

En hægra megin við miðju hafa kjósendur sem vilja ræða og skoða ESB aðild ekkert val.  Ólíkt því sem hefur gerst í Danmörku og Svíþjóð er enginn borgaraflokkur á Íslandi sem styður Evrópusamvinnu.  Á Íslandi er stór hluti kjósenda skilinn á vergangi af stjórnmálastéttinni og þetta sést vel ef kosningatölur eru skoðaðar.

Miðjan er galopin.  Jóhanna keyrði Samfylkinguna frá miðju og inn á vinstri kantinn og galt afhroð.  Davíð, á bak við tjöldin, tókst að halda Sjálfstæðisflokknum þar sem hann parkeraði honum á síðustu öld og þar situr hann nú fastur með fjórðungsfylgi.  Framsókn notfærði sér tómarúmið og hoppaði á UKIP – Le Pen lýðskrumsvagninn í Evrópu og sigraði.

Það eru mistök að halda að allir ESB sinnar séu í Samfylkingunni.  ESB aðild gengur þvert á hægri-vinstri línur í stjórnmálum eins og sést vel þegar flokkamynstur í Evrópu er skoðað.  Það eru hins vegar þjóðernissinnar á við UKIP og Le Pen sem eru hörðustu andstæðingar ESB.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin ætla að endurheimta fyrra fylgi verða þessir flokkar að færa sig inn á miðjuna og breyta sér aftur í breiðfylkingar.  Sjálfstæðisflokkurinn verður að ná lendingu í ESB málinu og þynna út Davíðsáhrifin og Samfylkingin verður að þynna út gamla Alllaballa liðið í brúnni.

Vinstri vængur íslenskra stjórnmála hefur ekki afl til að koma Íslandi inn í ESB.  ESB aðild verður ekki að veruleika fyrr en flokkur hægra megin við miðju styður aðild.  Af núverandi flokkum er Sjálfstæðisflokkurinn eini kandídatinn.  Ef hann segir pass, þá verður spennandi að sjá hvernig tómarúmið hægra megin við miðju verður fyllt.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur