Laugardagur 18.01.2014 - 12:38 - Lokað fyrir ummæli

Sovét heilbrigðiskerfi

Íslenska heibrigðiskerfið virkar nú eins og kerfin í gamla Sovét.  Eini munurinn er að á Íslandi flytja læknar jafn og þétt úr landi og setjast að þar sem markaðslögmálin fá að gilda.  Þetta var ekki leyft í Sovét – enda var lausnin þá að banna fólki að flytja til annarra landa.

Íslenskir stjórnmálamenn hafa engar lausnir við þessum vanda.  Þeir vita ekkert hvað á að gera nema kyrja sömu gömlu flokkssöngvana um ríkisrekið kerfi.  Og hér er sami rassinn undir öllum flokkum.  Enginn þeirra hefur þor eða kjark til að ræða hvað þá innleiða lausnir sem byggja á markaðslögmálum og það á líka við flesta þingmenn Sjálfstæðisflokksins.

Svo virðist sem Íslendingar vilji frekar varðveita núverandi kerfi sem eru byggt og stjórnað af annars flokks stjórnmálamönnum en að hafa aðgang að fyrsta flokks læknum?

Það er athyglisvert að bera saman þróunina á síðustu fimm árum í heilbrigðismálum í Bandaríkjunum og á Ísland.  Obama hefur unnið þrekvirki í að breyta bandaríska kerfinu og gera öllum Bandaríkjamönnum kleyft að fá aðgang að heilbrigðisþjónustu sem byggir á fyrsta flokks læknum, lyfjum og meðferðum.    Á sama tíma hefur íslenska heilbrigðiskerfið smátt og smátt koðnað niður og þjónustan versnað.  Ný lyf, tæki og ungir læknar með þjálfun í nýjum meðferðum er á jöfnu og stöðugu undanhaldi í íslenska kerfinu.  Ísland á engan stjórnmálamann sem raunverulega berst fyrir því að íslenskir sjúklingar hafi aðgang að fyrsta flokks þjónustu.

Það er varla hægt að hugsa sér vitlausara kerfi en það sem borgar fyrir menntun og þjálfun fyrsta flokks lækna og segir svo farið bara til útlanda því það er pólitískt óverjandi á Íslandi að borga læknum markaðslaun og enginn má byggja og reka spítala nema ríkið.  En þar sem ríkið hefur eytt öllu í að bjarga bönkum og skuldurum verða engir peningar til næstu áratugina til að byggja nútíma ríkisspítala hvað þá borga heilbrigðisfólki markaðslaun.

Ísland er ríkt land og það eru til nógir peningar til að byggja nútíma spítala og borga læknum markaðslaun.  Allt sem þarf er vilji og rétt forgangsröðun, sem því miður fæst seint með annars flokks stjórnmálastétt sem er uppteknari af lýðskrumi og skammtímalausnum.

Þegar ég tala við Íslendinga erlendis er það yfirleitt íslenska heilbrigðiskerfið sem er helsta fyrirstaða fólks við að flytja til Íslands.  Ekki krónan, EBS, gjaldeyrishöftin eða litla íslenska klíkusamfélagið.  Það að hafa ekki greiðan aðgang að fyrsta flokks læknum er málið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur