Fimmtudagur 16.01.2014 - 12:45 - Lokað fyrir ummæli

Stórt og dýrt bankakerfi

New York Times er með úttekt á íslenskum bönkum eftir hrun og kemst að þeirri augljósu niðurstöðu að bankar á Íslandi séu of stórir og dýrir fyrir þann litla markað sem þeir þurfa að þjóna innan hafta.

Líklega voru það mistök að endurreisa Landsbankann eftir hrun með peningum skattgreiðenda.  Sá banki var of laskaður með Icesave á bakinu.  Þá er engin þörf fyrir 3 stórbanka í litlu hagkerfi.  Samkeppnisrökin geta villt mönnum sýn.  Það er betra að hafa 2 stóra banka sem keppa sín á milli á eðlilegum samkeppnisgrundvelli en 3 sem ekki starfa á sama grundvelli.

Arion Banki og Íslandsbaki hafa svipaða uppbyggingu en Landsbankinn sker sig úr.  Það kostaði ríkið offjár að kaupa sig inn í Landsbankann og ekki er ljóst að þeir peningar skili sér aftur til skattgreiðenda nokkurn tíma.  Ef það er núnan stefna stjórnmálastéttarinnar að ná peningum út úr bankakerfinu með skattlagningu voru það mistök að kaupa Landsbankann.  Eða eins og sagt er á ensku: “Why buy the cow, when you can get the milk for free?”

En það er ekki bara að Landsbankinn hafi verið keyptur of dýru verði hann skekkir samkeppni á bankamarkaði og hjálpar við að viðhalda dýru og óskilvirku bankakerfi sem heimilin og fyrirtækin þurfa á endanum að borga fyrir með hærri gjöldum og vaxtamun.

Á meðan Arion banki og Íslandsbanki eru að undirbúa sig fyrir framtíðina og byggja upp sambönd við fjárfesta erlendis með skuldabréfaútgáfu og umsóknum um lánshæfismat er Landsbankinn upptekinn af fortíðinni.  Stóra skuldabréfið sem Seðlabankinn segir að ógni fjárhagsstöðuleika landsins tekur upp drjúgan tíma hjá Landsbankanum.  Eitt stærsta verkefni bankans er að finna nógan gjaldeyrir til að borga af stóra bréfinu sem sligar efnahagsreikning hans.  Vextir af bréfinu hækkuðu á síðasta ári svo það kemur ekki á óvart að enn þarf bankinn að loka afgreiðslum (það heitir víst að sameina á bankamáli) og hækka gjaldskrár.  Dýr erlend fjármögnun Landsbankans setur honum skorður og heftir hann í samkeppninni við hina bankana.  Þeir njóta þess og sjá enga ástæðu að fara í harða samkeppni við stirða risaeðlu ríkisins og ekki skemmir fyrir að ÍLS, hin fjármálastofnun ríkisins, er helsærð.

Hér er því ríkið búið að koma upp kerfi sem malar gull fyrir kröfuhafa gömlu bankanna.  Ein ástæða þess að innlendar eignir kröfuhafa hafa hækkað svo í verði frá hruni eru vanhugsaðar pólitískar ákvarðanir stjórnmálamanna um mikilvægi þess að ríkið sé starfandi á fjármálamarkaði án þess að sá rekstur byggi á sjálfbærri stefna sem verndar hagsmuni skattgreiðenda.

Ef ríkið ætlar að eiga og reka fjármálastofnanir á við Landsbankann og ÍLS er það lágmark að stjórnmálamenn setji þeim rekstri viðskiptaramma sem ekki íþyngir almenningi.  Ef menn treysta sér ekki í það, þá ættu menn að huga að því hvernig ríkið kemur sér út úr þessum rekstri með sem minnstu tapi fyrir skattgreiðendur.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur