Þriðjudagur 24.11.2015 - 11:45 - Lokað fyrir ummæli

Vaxtaokur stjórnvalda

Raunvextir hafa farið hratt lækkandi á Íslandi og eiga enn eftir að lækka, sérstaklega ef vel tekst til með afnám hafta og lánshæfiseinkunn landsins batnar. Lífeyrissjóðirnir hafa verið leiðandi í að færa neytendum þessa lækkun í formi lægri vaxta á verðtryggðum húsnæðislánum. En á sama tíma eru stjórnvöld í gegnum ÍLS að selja neytendum húsnæðislán á föstum verðtryggðum vöxtum sem taka mið af vaxtakostnaði liðins tíma. Á hvaða forsendum byggist sú sala og er hún í þágu neytandans?

Hver gætir hagsmuna unga fólksins og heimilanna í þessu máli? Hvað segir FME, Neytendasamtökin og Samkeppnisstofnun um svona okursölu til neytenda? Ekki mikið – og hvers vegna? Af hverju þessi þögn um stofnun sem heldur stórum hópi landsmanna og ekki síst landsbyggðinni í gíslingu okurvaxta og gerir greiðslumat óyfirstíganlegt fyrir svo marga?

Því miður eiga heimilin fárra kosta völ. Erfitt er að fá rétta og óháða ráðgjöf. Í staðinn fyrir að leysa áratuga vanda ÍLS og skapa grundvöll fyrir eðlilegan fjármálamarkað eru stjórnmálamenn uppteknir af kjánalegum patentlausnum sem byggja flestar á boðum og bönnum.

Það sem menn ættu að vera að gera er að undirbúa markaðinn og heimilin fyrir nýtt lágraunvaxta umhverfi. Eitt fyrsta skrefið er að vara heimilin við að taka verðtryggð lán á föstum vöxtum, á meðan þessi aðlögun stendur yfir. Mikilvægt er að lántakendur átti sig á eiginleikum lána með breytilegum vöxtum sem eru sveigjanleg og uppgreiðanleg. Þegar vextir lækka getur lántakandinn endurfjármagnað lánið, t.d. hjá samkeppnisaðila sem býður betri kjör. Svona lán eru oft eitur í beinum lánastofnana, enda vilja þær halda í sína viðskiptavini frá vöggu til grafar, en slíkt er yfirleitt aldrei í þágu neytandans.

Fjármálaráðgjöf til neytenda á Íslandi er frumstæð og einhæf. Hún er að mestu í höndum seljandans sem hefur yfirburða þekkingu og reynslu sem hann notar til að pína sem mest út úr viðskiptavininum.  Þá er miður, að Ísland búi ekki yfir ríkisfjölmiðli sem er óháður auglýsingum, en slíkar stofnanir gegna mikilvægu hlutverki í nágrannalöndunum við að miðla óháðum upplýsingum til neytenda.  Hér er því mikið umbótarverk að vinna fyrir hinn einsleita hóp sem einkennir íslenska stjórnmálastétt og vildarvinahóp hennar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur