Þriðjudagur 30.08.2016 - 09:57 - Lokað fyrir ummæli

EES, ESB eða hvað?

Bretar kalla EES samninginn bakdyraaðild að ESB. Þeir sem berjast fyrir Brexit eru jafnvel enn meira á móti EES en ESB því EES myndi gefa enn meiri afslátt af fullveldi Bretlands en ESB. Með því að ganga úr ESB og í EES væru Bretar að yfirgefa háborð Evrópu þar sem þeir hafa tillögu- og atkvæðisrétt og yrði skipað á lægstu skör með Norðmönnum, Íslendingum og Lichtensteinbúum þar sem menn sitja og taka við skipunum frá hærra settum þjóðum. Enda hafa þýskir ráðamenn bent á að í EES sitji þjóðir sem aldrei hafi verið fullgildir meðlimir að ESB og þekki því ekki hvað felist í úrsögn úr ESB.

Það er athyglisvert að bera saman viðhorf manna til EES í Bretlandi og á Íslandi. Svo virðist sem meirihluti íslensku þjóðarinnar telji að EES sé ákjósanleg grunnstoð utanríkisstefnu landsins og tryggi fullveldi þess betur en ESB samningur, sem af mörgum er talinn næsti bær við fullveldisafsal. Hvers vegna er EES samningurinn betri en ESB aðild á Íslandi en báðir eru taldir ófullnægjandi í Bretlandi? Er rökrétt að telja EES lýðræðislegri en ESB? Varla ef menn kaupa breska röksemdafærslu.

Og hér liggur ákveðinn vandi fyrir íslenska stjórnmálaflokka og þá sérstaklega Sjálfstæðisflokkinn. Það er ákveðin þversögn í því að gera ESB að grýlu í augum kjósenda en aðhyllast bakdyraaðild að sömu stofnun? Það er ekki bæði haldið og sleppt.

Eina rökrétta leiðin er klára ESB samninginn og halda þjóðaratkvæðisgreiðslu um þrjár leiðir: fulla ESB aðild, óbreytt ástand í EES, eða úrsögn úr EES. Slík þjóðaratkvæðisgreiðsla er flókin og þarfnast mikils undirbúnings. Þar verða menn að læra af reynslu Breta og skilgreina þarf úrsögn úr EES vel og hvað tekur þá við. Fjórði möguleikinn gæti svo falist í að hanga aftaní Bretum þegar þeir hafa klárað sinn samning við ESB, sem að öllum líkindum verður lýðræðislegri en EES.

Allar þessar leiðir hafa sína kosti og galla. Það sem er hins vegar mikilvægt er að Íslendingar marki sér stefnu sem byggir á vel ígrunduðum valkostum og heildaryfirsýn. Varast ber að einblína á einn valkost sem þjónar ákveðnum hagsmunahópum eða hanga hálfsofandi aftaní nágrannaþjóðum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur