Föstudagur 16.09.2016 - 16:20 - Lokað fyrir ummæli

Skýrslan og vinnubrögðin

Skýrslan um hina síðari “einkavæðingu” bankanna fellur ofan í nákvæmlega sömu gryfju og viðfangsefnið. Vandamálið í báðum tilvikum er hóphugsun og einsleit vinnubrögð. Allt er þetta rakið faglega í Rannsóknarskýrslu Alþingis, þar sem varað er við vinnubrögðum sem mögnuðu hrunið og enn hrjá Íslendinga. Það er eins og menn vilji ekki sjá bjálkann í eigin auga.

Í staðinn fyrir að horfa heildstætt á vandamálið og ráðast að rótum þess er alltaf farið í endalausa hringi um aukaatriði og afleiðingar og allt vafið inn í einfaldan búning til að þóknast stjórnmálamönnum á atkvæðaveiðum.

Það er alltaf auðvelt að gagnrýna þá sem stóðu í slökkvistarfinu og gleyma hlut brennuvarganna. En ef gagnrýna má störf ríkisstjórnar Jóhönnu er það að ofmeta getu og hæfileika innlendra ráðgjafa og vanmeta mismuninn á milli fyrsta og þriðja flokks erlendra ráðgjafa.

Lærdómurinn af samningum við erlenda kröfuhafa (sem, nota bene, urðu kröfuhafar vegna hóphugsunar einsleits hóps örfárra Íslendinga) þarf að byggja á reynslunni af Lee Buchheit og hans teymi. Sú staða að menn eru að hnakkrífast um þá samninga sem Buchheit kom ekki að, segir auðvitað margt.

Í litlum klíkusamfélögum skiptir öllu máli að þekkja rétta fólkið og nota “réttu” aðferðirnar. Hæfileikar og þekking eru æskileg en ekki nauðsynleg. Þetta virkar hins vegar ekki þegar mótaðilinn er her erlendra sérfræðinga. Samningavinna Íslendinga við kröfuhafa síðastliðin 8 ár er skólabókardæmi um mikilvægi þess að byggja á hæfileikum og alþjóðlegri reynslu, og varast hóphugsun.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur