Þriðjudagur 20.09.2016 - 20:48 - Lokað fyrir ummæli

Er rétt að samræma lífeyriskerfin?

Samkomulag um að samræma lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna og hinna á almennum markaði er um margt merkilegt og til lengri tíma þjóðhagslega hagkvæmt, svo framarlega sem útfærslan klúðrist ekki! Þá er tímasetningin mjög heppileg, bæði er ríkið aflögufært um peninga til að loka götum í gamla kerfinu og útreikningar á núvirði lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna fara fram áður en Ísland siglir inn í lágvaxtaumhverfi nágrannalandanna. Þar með er núvirðið mun lægra en ella. Hið opinbera sparar sér mikla peninga og veltur áhættunni í kerfinu yfir á starfsmenn.

Það er hins vegar ekki eins auðvelt að skilja hvernig samtök opinberra starfsmann hafa verðlagt verðmæti núverandi kerfis og áhættuna við hið nýja. Loforð um launahækkanir og launaskriðstryggingar virka eins og verðbólgufugl í skógi. Það er aldrei skynsamlegt að gefa upp réttindindi sem eru verðmæt og munu verða enn verðmætari í framtíðinni á móti ófjármögnuðum loforðum.

Mörgum spurningum er ósvarað. Hversu stór hluti “launahækkana” verður fjármagnaður með hagræðingu og úthýsingu til einkageirans? Hvernig er tryggt að fjárfestingaákvarðanir verði teknar af óháðum fagaðilum sem ekki hafa bein tengsl við íslenskt atvinnulíf eða íslenska stjórnmálamenn? Ávöxtunarsaga íslenskra lífeyrissjóða er allt of sveiflukennd. Nýlegar fregnir af tapfjárfestingum lífeyrissjóðanna í olíuleitarskipum og erlendum tuskubúðum benda til að enn séu tækifæri til að bæta fjárfestingaákvarðanir. Þetta er mikið hagsmunamál lífeyrisþega, sem því miður fær litla umræðu í einsleitu klíkusamfélagi, þar sem það virðist næstum vera sport að gera út á og plata lífeyrissjóði hins almenna launþega

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur