Fimmtudagur 29.09.2016 - 13:55 - Lokað fyrir ummæli

Enginn vill eiga banka

Bankakrísan í Evrópu er hvergi búin. Viðskiptafjölmiðlar eru fullir af fréttum um að stærsti banki Þýskalands, Deutsche Bank, riði nú til falls og að þýska ríkið verði að koma honum til bjargar. Þessu harðneitar stjórn bankans en því harðar sem menn neita sögusögnum því meiri byr fá þær í fjölmiðlum. Hlutabréf Deutsche Bank hafa fallið yfir 50% á einu ári og sýnir það vel þá gríðarlegu áhættu sem fylgir hlutabréfaeign í bönkum. Lítið þarf út af að bera í dag til að hlutabréf í bönkum taki dýfu. Spurningin sem þá vaknar er, hver vill eiga banka?

Þeir sem eru spenntir fyrir að eignast hlut í banka ættu að hlusta á orð bankastjóra Credit Suisse, Tidjane Thiam. Á nýlegri ráðstefnu bankamanna velti hann upp þeirri spurningu hvort núverandi viðskiptamódel banka væri sjálfbært? Þetta er hin mikla spurning sem fjárfestar og aðrir verða að íhuga vel.

Bankarekstur er ekki eins og annar rekstur. Hugtakið “samkeppni” er tálsýn í bankarekstri. Nýir aðilar eiga nær enga möguleika að hasla sér þar völl, framboð af bankaþjónustu er allt of mikið, kostnaður of hár og arðsemi of lág miðað við áhættu. Nýjar tölur sýna að fyrir bankahrunið var meðalarðsemi banka í Evrópu um 15% en í dag mælist hún um 5% á sama tíma og áhætta og ábyrgð hluthafa hefur margfaldast. Viðbrögð hluthafa er að selja bankaeignir úr hlutabréfasafni sínu. Þeir hafa val. Þeir færa sig einfaldlega yfir í aðrar eignir sem gefa meira af sér og eru áhættuminni. En þar sem bankarekstur er nauðsynlegur öllum hagkerfum eru margir farnir að draga þá ályktun að ríkisvaldið verði að koma þar að sem kjölfesta. Öðruvísi verði framtíð öruggrar bankaþjónustu ekki tryggð.

Í þessum mikla mótvindi sem umlykur bankarekstur og skorti á skýrri framtíðarsýn er erfitt að fara út í einkavæðingu banka. Fáir kaupendur eru að hlutafé banka, nema kannski einstaka spekúlant eða þeir sem eru plataðir til að fjárfesta. Fagfjárfestar hafa meiri áhuga á einstökum eignum banka sem gefa betri og öruggari hagnaðarvon.

En hvað með íslensku bankana? Þeir eru mun betur fjármagnaðir en bankar á meginlandinu. En það mikla fjármagn sem ríkisvaldið hefur bundið á efnahagsreikningi bankanna væri ef til vill betur notað í annað, svo sem heilbrigðiskerfið. Það er erfitt að telja fólki trú um að mikilvægara sé fyrir ríkið að halda úti tveimur ríkisbönkum og Íbúðarlánasjóði á meðan heilbrigðiskerfið sveltur? Og það sem gerir málið flóknara er að það er alls ekki gefið að ríkið geti fengið bókfært virði bankanna til baka, krónu fyrir krónu. Í dag fá, t.d. eigendur Deutsche Bank, 20 evrur fyrir hverjar 100 evrur af bókfærðu virði. Enginn veit hverjar heimtur íslenska ríkisins verða við einkavæðingu bankanna, en líklegt er að þær munu varla verða meiri en 60-80% ef kaupendur finnast! (Það er því ekki amalegt fyrir starfsmenn Landsbankans að geta selt sín bréf á bókfærðu virði áður en bréfin fara á almennan markað)! Þó íslenskir bankar séu vel fjármagnaðir er kostnaður þeirra of hár, framboðið mikið og samþjappað og arðsemin lág, þrátt fyrir gríðarlega hátt vaxtarstig og verðtryggingu.

Ef ríkið ætlar sér að hámarka söluvirði bankaeigna og á sama tíma tryggja öruggan bankarekstur til framtíðar verða menn að stokka upp kerfið. Gera það bæði einfaldara og ódýrara, og sníða þjónustuna að íslenskum aðstæðum. Að reka bankakerfi fyrir rúmlega 330,000 íbúa í þremur glæsihöllum á höfuðborgarsvæðinu á viðskiptamódeli frá síðustu öld er bruðl og vitleysa.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur