Sunnudagur 16.10.2016 - 14:18 - Lokað fyrir ummæli

Björt Framtíð með Viðreisn?

“…að færa þjóðinni fullveldi sitt og sjálfræði að nýju” er frasi sem þjóðernispopúlistar eru þekktir fyrir. En þessi orð eru nú notuð af Pírötum á Íslandi í kosningabaráttu til Alþingis. Það eru ákveðin vonbrigði að svona orðræða heyrist á þeim bæ, en svo bregðast víst krosstré sem önnur.

Píratar hafa stimplað sig inn sem vinstri flokkur sem vill umbætur. En hvernig hafa Píratar staðið sig í umbótastarfi við stjórn Reykjavíkur á þessu kjörtímabili. Eiga þeir ekki sinn þátt í að skera niður hjá leikskólum og hjá öldruðum á meðan egóverkefni eins og einn dýrasti hjólastígur landsins, upp Grensásveginn, fær forgangsröðun? Því miður virðast Píratar hafa verið litið annað en þægur kjölturakki VG og S við stjórn borgarinnar og því vaknar spurningin, verður þetta eitthvað öðruvísi í ríkisstjórn?

Þá hefur borgarstjórnarþríeykið bætt gráu ofan á svart með því að stimpla kjósendur Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar sem óvinnuhæfa. Þeir vilja ekki vinna með þessum flokkum og þar með eru þeir að senda skilaboð um að sumir kjósendur séu jafnari en aðrir. Eiga ekki allir að vera vinir í skóginum?

Hér hefur því skapast tækifæri fyrir Bjarta Framtíð og Viðreisn á miðju íslenskra stjórnmála. Kjósendur sem ekki vilja láta stjórnmálamenn draga sig í dilka eiga val. Björt Framtíð og Viðreisn dekka allt miðjusvæðið og eru því líklegir til að verða í lykilstöðu eftir kosningar.

Kjósendur sem vilja stöðugleika eftir kosningar geta gert margt verra en að kjósa Bjarta Framtíð eða Viðreisn.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur