„Fagur fiskur í sjó,
brettist upp á halanum
með rauða kúlu á maganum.
Vanda, banda,
gættu þinna handa.“
Í pólitíkinn og jafnvel innan stjórnsýslunar sjálfrar eru margir fagrir fiskar með rauða kúlu á maganum þótt sumir séu reyndar meira eins og fiskar á þurru landi sem þekkja ekki sitt nærumhverfi. Umræða síðustu misseri, ekki síst um heilbrigðismál minnir mig á ofangreinda vísu því hún endar með hörðum skell. T.d. það að byggja háskólasjúkrahús fyrir tugmilljarða en rífa á sama tíma niður sjálfa grunnþjónustuna, heilsugæsluna. Eins að tryggja ekki mannauðinn í heilbrigðiskerfinu sem skiptir miklu meira máli en byggja tóm hús. Eins og fram kemur í frétt moggans í gær er stétt heimilislækna hér á landi að deyja út! „Vanda, banda, gættu þinna handa“….
Sveinn Kjartansson matreiðslumaður, hefur hins vegar sýnt og sannað að hann er einn af okkar bestu kokkum. Áratuga reynsla viðskiptavina og nú síðast mjög vinsælir þættir hjá RÚV á sunnudagskvöldum sem Saga film hefur framleitt, Fagur fiskur í sjó, sýna afbragðs takta í eldamennsku sem kemur örgustu kjötætum og fiskhöturum til að svelgjast á. Jafnvel þorskhausarnir verða sem herramannsmatur. Nálgun og virðing fyrir viðfangsefninu er aðdáunarverð. Þvílík auðlegð sem við eigum annars í sjávarfanginu okkar sem hann kynnir svo vel. Ef einhverjir geta gert hlutskipti okkar auðveldara á þessum ögurtímum að þá eru það listakokkar á borð við Svein sem kennir okkur nýja hugsun í matarlist og um leið og hann gerir lífið okkar miku skemmtilegra. Geta aðrir ekki reynt að læra af honum og einbeitt sér að því sem þeir eru besti í, og látið aðra um hitt? Aðeins þannig verða þeir aðdáunarverðir og koma þjóðfélaginu að góðu gagni.
Allt er spennandi að smakka úr sjónum og hugmyndarflugið á sér engin takmörk, t.d. heilsteiktur roðhreinsaður karfi á grillið í kvöld með chilisósu. Hvað er hægt að hugsa sér betra? Þættirnir eru reyndar ný nálgun þar sem við fáum að kynnast hvaðan hráefnið er fengið úr fögrum sjónum. Ónýttir fiskar og nýir stofnar eins og makríll. Ef þetta er ekki til að fylla mann pínu bjartsýni varðandi framtíðina, að þá veit ég ekki hvað. En það besta af öllu er hollustan í fiskinum okkar, ekki síst í omega 3 fitusýrunum sem er sem yngingarmeðal fyrir þjóðina. Hún hefur m.a. sýnt sig draga úr æðabólgum, æðakölkun, gigtareinkennum, elliglöpum, krabbameinum, athyglisbresti og þunglyndi. Fisk á diskinn minn. Já takk.
Hvergi annars staðar á byggðu bóli eiga íbúar sennilega aðgang að öðru eins úrvals hráefni og við Íslendingar, þótt auðvitað grænmeti mætti vera aðgengilegra og ávextir ódýrari. Og hvergi fæðast börnin heilbrigðari. Við erum rétt að átta okkur á öllum herlegheitunum og möguleikunum, sérstaklega þegar við sjáum samanburðinn í aðstæðum erlendis í fjölmiðlunum, þurrkar eða flóð, eitur- og mengunaráhrif og skort á landi. Allt byggist þetta á samspili landsins okkar við náttúruöflin, veðurfarið og sjóinn, sem er okkar stærsta matarkista. Vatnið sem við höfum svo mikið af og passlegur kuldi í lofti en hiti í sjónum er okkar lukka. Til sjávar og sveita, útgerðar og landbúnaðar. Við sitjum á fjársjóð og óendanlegri auðlegð fyrir komandi kynslóðir, ef við förum vel með og reynum að vera skynsöm. Og aðeins þannig tryggjum við líka mannauðinn, heilsuna og velferðina að öðru leiti. Aðeins þess vegna viljum við búa hér á landi.
„Vingur, slingur, vara þína fingur.
Fetta, bretta, svo skal högg á hendi detta“.