Það er sitthvað lög eða regla. Það vantar sem betur fer ekki lögin hér á landi en regluverkið, meðal annars hjá sjálfum löggjafanum, er oft sárlega ábótavant. Nú þegar sjálf lögreglan kvartar um úræðaleysi gagnvart óhæfum ökumönnum í umferðinni væri rétt að líta í baksýnisspegilinn og rifja upp þann losarabrag sem ríkt hefur á þeim bænum og tengist vottorðabeiðnum til heimilislækna eða skulum við segja samráðsleysis um gerð læknisvottorða og hvað í þeim á að standa. Einnig þess trúnaðarsambands sem maður skildi ætla að gæti ríkt milli lögreglu og heimilislækna, á báða vegu.
Heimilislæknar eru í þeirri stöðu að þurfa að votta allt milli himins og jarðar enda skjalaverðir sjúkraskýrslunnar, ekki síst ef lögregluyfirvöld óska þess sem lögaðilar að málum og sem geta ásamt lögfræðingum og tryggingafélögum óskað eftir vottorðum. Þó er það oft svo, að ekki liggur nákvæmlega fyrir hvað þessir aðilar í raun vilja að sé sérstaklega vottað. Formið vantar þannig oft og að leitað sé svara við réttu spurningunum. Skýrasta dæmið um þetta er skotveiðileyfisvottorð sem ekkert staðlað vottorðaform er til um frekar en mörg önnur. Spurning hvort verið sé að leita eftir vottun á sjónhæfni, góðri heyrn, vottun á góðu úthaldi til útivista á heiðum landsins eða vottun á eðlilegu geðheilbrigði. Allt eru þetta í sjálfu sér þættir sem eðlilegt væri að skotveiðimaður uppfylli þótt sennilega skiptir geðheilbrigðið mestu máli. En spyrja þarf réttu spurninganna. Jafnvel í stöðluðu vottorði vegna ökuleyfis er ekkert sem beinlínis spyr um andlega getu og færni en spurt er um sjón og heyrn, hvort limaburður sé eðlilegur og hvort báðir fætur séu jafn langir. Þannig virðast því oft sem lögregluyfirvöld vilji varpa frá sér ábyrgðinni á aðra, svo sem á vottorðagjafann. Þó stendur nú til að framkvæmd verði hæfnispróf til aksturs hjá öldruðum sem endurnýja þurfa ökuskírteini á vegum lögreglunnar sjálfrar og sem er löngu tímabær ákvörðun. Ekki má gleyma að lögreglan og heilsugæslan eru á sama veginum og vilja sem stofnanir stefna í sömu áttina, í að bæta sem mest öryggi og almannaheill í landinu.
Nýlegt og afdrífaríkt dæmi fyrir um ári síðan er þó þegar sjálf Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sniðgekk eldri verklagsreglur og samninga við heimilislækna um ítarlegri vottorð vegna áfengis- og fíkniefnamats auk blóðprufutaka og mati á ökuhæfni aðila sem stoppaðir höfðu verið í umferðinni og samdi við einkafyrirtæki úti í bæ. Málum sem einmitt snýr að almannaheill í umferðinni og nú er mikið til umræðu. Þjónustu sem heimilislæknar Læknavaktarinnar í opinberri þjónustu höfðu sinnt vel um áraraðir eins og allir aðrir heimilis- og héraðslæknar í sveitum landsins. Nú að hluta vegna gjörningsins og ónógra verkefna á nóttunni er rætt um að leggja vitjanaþjónustu Læknavaktarinnar niður á nóttunni hér á höfuðborgarsvæðinu. Því spyr maður sig auðvitað um sameiginlegu ábyrgðina innan stjórnsýslunnar. Það getur nefnilega haft afdrifaríkar afleiðingar að klippa hlekki úr öryggiskeðjunni og verst þegar lögreglan á sjálf hlut að máli. Þessir aðilar þurfa öðrum fremur að geta gengið í takt og spilað sömu lögin.