Sunnudagur 06.03.2011 - 10:17 - FB ummæli ()

Sjávarkjallarinn

Í vikunni fór ég út að borða með konunni minni af sérstöku tilefni. Fyrir valinu varð veitingarstaður sem mig hefur lengi langað til að heimsækja og sem heitir Sjávarkjallarinn. Ástæðan var ekki sú að ég væri góðkunnugur í Geysishúsinu í gamla daga, þegar ég var eins og grár Vesturbæjarköttur að reyna að selja fréttablöð eða sendast eitthvað fyrir stórkaupmennina.

Ástæðan var auðvitað fyrst og fremst sú að staðurinn var sagður standa undir nafni sem góður veitingarstaður, þótt hann kynni að vera í dýrari kantinum. Flestir fínni staðir sem ég hef heimsótt hafa hins vegar ekki staðið undir mínum væntingum hingað til og því meiri væntingar sem ég hef haft, því meiri hafa vonbrigðin orðið. Fínustu staðir í heimsborgum eins og París hafa jafnvel valdið mér miklum vonbrigðunum. Sennilega þar sem margir staðir þykjast geta lifað á gamalli frægð en mín upplifun var fyrst og fremst sú að ég væri að reyna að upplifa fræg atriði í bíómynda sem ég hafði einhverntíman séð eða ég væri staddur í nýrri atburðarrás óþekkts skáldverks. Sú saga var bara aldrei ætluð að vera mín saga, því miður. Ég var því dálítið kvíðinn með að velja þennan stað á þessari stundu. Lífið hefur hins vegar kennt mér að taka stundum smá áhættu. Láta slag standa eins og sagt er. Lífið getur komið á óvart.

Kvöldið í vikunni var samt einstakt og í fullri einlægni sagt að þá hef ég hvorki komið á betri veitingarstað eða stað þar sem þjónustan var jafn þægileg og vinaleg. Ég verð því að gera aðeins betur grein fyrir þessum staðhæfingum og samanburð við annað sem við þekkjum svo vel úr þjóðfélaginu en sem miðla öðru en veitingum. En betur um það síðar. Sagan verður að hafa sinn gang. Töluvert var að gera, þrátt fyrir að um miðja viku væri að ræða og úti réð hversdagleikinn ríkjum. Fyrir valinu varð 4 rétta máltíð með austurrísku víni sem þjóninn mælti með, og sem kom skemmtilega á óvart. Í boði hússins voru ígulkerahrogn með tilheyrandi í sjálfri skelinni. Sjávarbragð sem fór beint í æð eftir að hafa kitlað bragðlaukana og sem gaf fyrirheit um það sem koma skyldi. Áður hafði verið framborið heitt brauð með smjöri að hætti hússins, hrærðu annars vegar með eplaediki og dularfullum kryddblöndum og hins vegar möndlum með karamellu. Nokkuð sem bætti vínið enn meira. Síðan kom sjávarréttarsalat með ferskum skötusel og ristuðu söli ásamt öðru fersku sjávarmeti. Á borðið við hliðina á okkur kom óvænt hópur blindra Norðmanna, sem leiddust hönd í hönd við innkomuna eins og í leiðslu en hresstust furðufljótt og skáluðu síðan með reglubundnu millibili. Þeir veitu salnum þægilega bakraddarstemmningu og þeir þurftu greinilega ekki að sjá veitingarnar til að njóta. Reyndar var setið á flestum borðum í kringum okkur, flestir útlendingar og allir í góðu skapi. Staðurinn var greinilega vinsæll og svolítið framandi. Ég var á honum og leið vel með konunni minni með öllum útlendingunum en íslenska þjónustufólkinu. Ekki laust við dálitið stolt að þetta gætum við eftir allt saman.

Tíminn flaug áfram og maður var í algleymi þess sem sjórinn okkar og kokkarnir buðu upp á. Hver rétturinn meira öðruvísi en sá sem kom á undan. Hvernig var þetta hægt og af hverju hafði maður misst af þessu öllu áður? Aðalrétturinn var síðan íslenskur lambavöðvi og söltuð nautatunga með mikilli soðsósu og gómsætu meðlæti. Þótt glösin hefðu aldrei átt að verða fleiri en eitt urðu þau samt tvö með lambinu, sem tungan ein nánast sá um ásamt rauðvíninu góða. Milliréttirnir í boði hússins urðu líka tveir og í lokin kom einn besti eftirréttur sem ég hef smakkað, súkkulaði-núkkatfrauð með vanilluís og ristuðu hnetukurli ásamt aníssykri. Og kvöldverðurinn var orðin að 6 rétta konungsrétti þegar upp var staðið og kostaði aðeins um 8.500 krónur á mann, með víninu góða. Það dýrmætasta voru þó klukkustundirnar þrjár sem aldrei munu gleymast. Takk kærlega fyrir mig.

Í lífinu þarf að taka áhættur, á því er nú var enginn vafi. Án þeirra gerast ekki óvæntir og skemmtilegir hlutir. Í hversdagslífinu horfi ég á fréttir á hverju einasta kvöldi en fátt kemur mér orðið á óvart. Ríkissjónvarpið finnst mér vera farið að lifa á gamalli hefð, þótt það hafi átt góða spretti eftir hrun þegar ýmsir þáttastjórnendur voru í vígamóð. Jafnvel Kastljósið er oft hundleiðinlegt og stjórnendur forðast heitustu umræðurnar eða nálgast fréttamatinn eins og kettlingar kringum heitan pott. Hvernig í ósköpunum er hægt að fylla hvern þáttinn af öðrum af jafn áhugalitlu efni eins og raun ber vitni, ekki síst þegar viðsjárverðir atburðir eru að gerast allt í kringum okkur, á hverjum einasta degi. Fréttir sem snúa að velferð og kjörum fólksins í landinu og stjórnsýslunni sjálfri. Fréttamatur sem kemur okkur öllum við og við viljum snæða, þótt bragðið kunni að vera framandi á köflum og miskryddað. Engin meistaraeldamennska það hjá fjölmiðli allra landsmanna. Sennilega er þetta meðtekin ákvörðun til að þóknast stjórninni þeirra og stjórninni okkar, að rugga þjóðaskútunni ekki um of og sem reyndar hriplek er orðin. Ójöfnu saman að jafna og við gömlu sjómennina okkar sem réru til að afla, ekkert síður í öldurótinu. Bestu þættir sem sýndir hafa verið í íslensku sjónvarpi í seinni tíð eru reyndar þættirnir, Fagur fiskur í sjó, sem ég hef áður skrifað um af þessu sama tilefni. Að gera betur og leggja sálina að veði.

Umfjöllun um peninga tekur varla nokkurn enda og skýrist af sömu eldamenskunni alla daga og áhugaleysis fréttamanna í öðrum málaflokkum. Eða þá hræðslu þeirra að kanna hið óþekkta og fara ótroðnar slóðir í framandi eldamennsku sem ætti þó að vera jafn mikið í eðli góðs fréttamanns eins og listakokksins. Einstaka handahófskennt viðtal sem sennilega tengist meira venslum en mikilvægi í fréttalegu samhengi ratar þó inn á milli í spjallþættina. Stórþættir eins á RÚV þessa daganna um framtíð Íslands í hinum ýmsu málaflokkum eru frekar bragðdaufir aðalréttir sem velda mér vonbrigðum. Þar ræður yfirborðsmennska í eldamennskunni ríkjum sem rista grunnt í munnvatnskirtlana, þótt sjálfsagt sé viljinn góður. Mætti ég frekar biðja um fleiri smárétti. Ég viðurkenni þó að það eru einstaka undantekningar í Kastljósinu og á sunnudögum í hádeginu er boðið upp á bragðmikla sunnudagssteik í Silfri Egils. En af hverju getur ríkisfjölmiðill ekki verið eins og góður veitingarstaður sem býður upp á exótíska rétti. Eitthvað til að brjóta upp hversdagsleikann og við erum búin að borga mikið fyrir.

Ég heimsótti veitingarstað í gamla miðbænum mínum með konunni á einum hversdagslegasta degi vetrarins, en sem var dagurinn hennar. Dagur sem gleymist aldrei. Þökk sé þeim sem gerðu sitt besta.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn