Fimmtudagur 03.03.2011 - 21:57 - FB ummæli ()

Slitnir hörpustrengir

Ég var einn af þeim bjartsýnu sem ætlaði að reyna að fá miða á opnunartónleika Hörpunnar 4 og 5. maí næstkomandi. Reyndi ítrekað þar til tölvukerfið hrundi í miðasölunni. Síðar frétti ég að aðeins hefðu verið um 800 miðar í boði fyrir þjóðina en rúmlega 2000 miðar voru þegar fráteknir fyrir boðsgesti og „fastagesti“.

Ég hef frá fyrstu kynningu verið mjög spenntur fyrir hinu nýja Tónlistar- og ráðstefnuhúsi, Hörpunni, sem ég hefði viljað kalla fjölmenningarhús. Ég hef alla tíð stutt fjáröflun til hússins og tók þátt í að stinga upp á nafni á húsinu, sem var Prisma, enda átti heitið að vera mjög alþjóðlegt árið 2007. Þetta nafn valdi ég fullviss um að húsið væri sömu eiginleikum gætt og glerkristallar sem brotið geta upp sjálft ljósið og framkallað alla regnbogans liti. Litina sem einkenna hjúp hússins og er í takt við litrófið í listarlífi þjóðarinnar.

Eftir hrun voru áleitnar spurningar sem leituðu á hugann á tímum fyrirsjáanlegs mikils niðurskurðar, ekki síst á sviði mennta- og velferðarmála. Spurningar vöknuð hvort hætta ætti við verkið sem var komið vel á veg vegna fyrirsjáanlegs kostnaðar upp á tugi milljarða króna sem ríkið átti að ábyrgjast. Sumir vildu láta húsið standa eins og það stóð haustið 2008, berstrípað fyrir alþjóðinni sem minnisvarði glæstra vona og bakhjallin horfinn. Aðrir vildu hreinlega afmá öll merki þess og minningarnar jafnframt með því að jafna það við jörðu. Sjónarmið sem áttu fullan rétt á sér miðað við aðstæður. En við völdum að standa saman og fá drauminn uppfylltan, hvað sem tautaði eða raulaði.

Það var síðan eins og að fá blauta tusku í andlitið og hætt við að einhverjir strengir hafi slitnað í þjóðarsálinni þegar fréttist að ekki einu sinni stæði til (og ekki ástæða til) að vera með beina útsendingu af sjálfum opnunartónleikunum sem þjóðin missir þá af. Að minnsta kosti slaknaði á mínum strengjum og hætt við að einn hafi slitnað þegar ég heyrði viðtalið við tónlistarstjóra hússins, Steinunni Birnu Ragnarsdóttur í morgunútvarpi RÚV í morgun. Eins og ekkert væri sjálfsagðara að aðeins útvaldir og nokkrir heppnir fengju að njóta. Opnunartónleikana sjálfa þar sem Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Vladimir Ashkenazy ætlar að frumflytja tónverkið, Velkomin Harpa eftir Þorkel Sigurbjörnsson og síðan að flytja verk allra gleðiverka, 9. sinfóníu Beethovens. Tónleika sem síðan enda á einu dáðasta píanókonserti allra tíma, Píanókonsertinum eftir Edvard Grieg sem óskabarn Íslands, Víkingur Heiðar Ólafsson ætlar leika. Allt verk sem ekki bara miklir „tónlistarunnendur“ vilja gjarnan verða vitni af og njóta, ekki síst þar sem þeir eru minnisvarði þessara merku tímamótum í menningarsögu Íslands. Ef ekki í Hörpunni sjálfri, þá að minnsta kosti í stofunni heima.

Eða eins og segir í auglýsingu hússins: „Margir hafa beðið eftir fyrstu tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu svo áratugum skiptir. Það eykur enn á eftirvæntinguna að hér munu tvö óskabörn íslensku þjóðarinnar mætast í fyrsta sinn á tónleikapalli: Víkingur Heiðar og Vladimir Ashkenazy.“

Ég er ekki öfundsjúkur og get vel unnt ákveðnum hópi tónlistarunnenda að njóta vel, þótt óneytanleg hefði ég viljað geta notið nýju sætanna sjálfur. Ég óska þeim heppnu í raun til hamingju með miðana sína. En önnur formleg opnun síðar í opinni útsendingu með allt öðru prógrammi er léleg sárabót fyrir mig og aðra Íslendinga. Þjóðin átti betra skilið. Að minnsta kosti er þetta mjög taktlaus sinfónía.

Flokkar: Óflokkað · Dægurmál · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn