Fimmtudagur 03.03.2011 - 08:42 - FB ummæli ()

Sporin í snjónum

Í vikunni gekk ég upp á heiði sem klædd var að mestu dúnhvítum snjó sem var svo vinsamlegur að koma aftur nú í vetrarlokin. Engin spor eða neitt sem minnti á nýlegar mannaferðir. Aftur var ég aleinn og fótsporin mín mörkuðu landslagið svo ekki var hjá því komist að veita þeim athygli á bakaleiðinni. Og það var gaman að fara ótroðnar slóðir, eða svo ímyndaði ég mér göngutúrinn minn eitt andartak.

Hvít ábreiðan var undurfögur, ekki síst þar sem hún bar við bláan himininn og skýjahnoðrana sem hrönnuðust upp yfir Esjunni. Eitthvað sem minnt á hreina loftið sem ég fékk að anda að mér og sem sólstafirnir skinu í gegnum öðru hvoru og gáfu heildarmyndinni sinn sérstaka blæ. Maður furðaði sig enn einu sinni á allri fegurðinni og sem var svo ólík þeirri sem ég fékk að kynnast á kaldri vetrarnóttu fyrr í vetur. Þegar ég var líka einn, en á meðal stjarnanna á sama stað en á annarri stundu. Fegurðin, hvernig sem við lítum á hana, er nefnilega bæði svört og hvít.

Fegurðin innra með okkur er ákveðið landslag sem við sjáum ekki svo glöggt, en sem við verðum að ganga um með virðingu til að geta notið. Sporin þar markast af göngu okkar í lífinu. Stundum hvít spor eins og í snjónum, en stundum líka svört. Einhverja hluta vegna kemur mér alltaf í hug tjara, kolbiksvört tjara þegar ég hugsa um andstæðu snjósins. Tóbaksreykurinn skilur einmitt eftir sig slíka slóð og spor í lungunum okkar. Hvort heldur við sogum hann að okkur úr sígarettunni eða öndum honum að okkur úr nánasta umhverfi. En það er ekki svört fegurð. Dagurinn í dag er hins vegar öskugrár, rok og rigning og allur snjór horfinn. Það þarf samt ekki endilega alþjóðadag gegn tóbaksreykingum til að minna okkur á þessa hluti, heldur einmitt dag eins og hann var um daginn eða bara eins og hann er í dag.

Dreifing krabbameins (svörtu blettirnir) hjá "óheppnum" reykingarmanni.Í pólitíkinni og dægurþrasinu efumst við sífellt hver hafi rétt fyrir sér og hvað skipir mestu máli í þjóðfélaginu. Í lífinu sjálfu eru nokkrar einfaldar staðreyndir sem allir ættu að getað tekið mark á og sem kosta minna en enga peninga. Hreyfing, tóbakslaust líf og hollt mataræði, svo einfalt er það. Að lágmarka áhættuþætti á lungnasjúkdómum, krabbameini og hjarta- og æðasjúkdómum sem reykingar hins vegar stórauka. Áhrif tóbaksins er jafnvel meira en allt annað samanlagt. Það kemur heldur ekki á óvart að flestir sem reykja enda með langvinna lungnateppu og síðan lungnaþembu. Árið 2009 reyktu samt um 16% Íslendinga 40 ára og eldri daglega. Hvað erum við eiginlega að hugsa?

Á Vísindaþingi Félags íslenskra heimilislækna sl. haust kynnti Guðrún Dóra Clarke, námslæknir í heimilislækningum, nýja rannsókn sem hún gerði ásamt fleirum fyrir rúmu ári síðan á Akureyri. Af þeim sem reyktu, höfðu hvorki meira né minna en 17%  merki um langvinna lungnateppu og þar af voru 63% sem ekki vissu um sjúkdóminn fyrr en hann var staðfestur með lungnamælingu (spirometriu). Það alvarlegasta í niðurstöðunum var þó sú staðreynd að um 70% af þessum hópi voru með sjúkdóminn á það alvarlegu stigi að hann stefndi í lungnabilun fyrir aldur fram.

Tóbaksreykingar er ein mesta heilbrigðisvá í íslensku þjóðfélagi í dag og sem snertir marga. Tóbaksreykingar er tjörusvartur blettur á nútíma þjóðfélagi sem tengist fíkn, sjúkdómum og dauða af eigin völdum. Fíkn sem samt er ótrúlega auðvelt að sniðganga með réttu hugarfari og sem sjálft níkotínið á aðeins lítinn hlut í að skapa.

Stór hluti áhrifa sem reykingamaðurinn fær er bara athöfnin að kveikja í og draga ofan í sig heitan og svartan reykinn sem sljóvgar um leið. Reykur sem síðan smá saman markar sín spor í lungun. Reykurinn er enda eiturgufur, koltvísýringur og kolmonoxid ásamt köfnunarefni sem myndast við bruna svipað og Díoxín gerir í sorpbrennslustöðvunum og okkur er svo mikið umhugað um þessa daganna. Ósjaldan lenda síðan stórreykingarmenn í að fá reykeitrun og enda í öndunarbilun eins og hverjir aðrir sem lent hafa í stórbruna. Um sjálfeyðandi og deyðandi hegðun er því um að ræða til langs tíma. Ef bara löngunin til að lifa væri sterkari. Hann er skrýtinn þessi mannshugur.

Afleiddur heilbrigðiskostnaður fyrir þjóðfélagið allt vegna reykinga er gríðarlegur og því er í raun óskiljanlegt að tóbak skuli vera selt af opinberum aðilum (ÁTVR). Ríkið borgar alltaf miklu meira með fólki sem reykir þegar upp er staðið en sem reykingarmaðurinn borgar sjálfur í álögðum gjöldum á tóbaki, og því meira sem salan er meiri. Vítahringur sem yfirvöld meðtaka þó ekki nema að litlu leiti. Auk þess samrýmist sala á þessum eiturefnum ekki þeim forvörnum sem ættu að skipta heilbrigðiskerfið mestu máli í dag, ekki síst á tímum langtímasparnaðar.

Þeir sem hætt að reykja, hætta þó fyrst og síðast fyrir sjálfan sig. Heilbrigðisþjónustan er hins vegar tilbúin að hjálpa og kjöraðstæður eru til þess í heilsugæslunni. Rannsóknir hafa einnnig sýnt, að enginn er í betri aðstöðu en heimilislæknir til að fá fólk til að breyta um lífsstíl, ekki síst þegar hinir ýmsu sjúkdómar banka upp á. Forskot heimilislæknisins er einmitt þekking á sjúklingnum og trúnaður, ásamt möguleikum á eftirfylgni og fræðslu á réttum tíma í lífi skjólstæðingsins.

Lífið er ekki alltaf auðvelt og á ekki endilega að vera það. En við viljum með góðri hjálp sjálf geta haft sem mesta stjórn á lífinu. Stjórnvöld geta stuðlað að því með góðu heilbrigðiskerfi, hvað sé leyft og hvað sé bannað. En þú átt alltaf fyrsta skrefið, skref sem markar sporin í framtíðina. Eins og sporin í lungunum eða sporin í snjónum.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag · útivist

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn