Laugardagur 26.02.2011 - 14:36 - FB ummæli ()

Almannagjáin

ÞingvellirÍ dag er ég feginn að veturinn er kominn aftur og allt er orðið hvítt. Vorið var ekki tímabært og í raun algjör tímaskekkja enda margir farnir að hlaupa út undan sig eins og kálfar. Við höfum vel tíma til að fara yfir málin áður en vorið, tími væntinga og vona kemur. Vegna umræðunnar nú um hvort kjósa eigi til nýs stjórnlagaþings eða skipa stjórnlagaþingsráð vil ég benda á fyrri umræðu mína um málið hér á blogginu mínu, 26.1 „Nýtt alþingi“ og 28.1 „Glerglugginn“ sem ég birti nú aftur hér fyrir neðan með smá lagfæringum. Stjórnlagaþing er þing fólksins, Hið nýja Alþingi og á lögmæti kosningarinnar má ekki leika minnsti vafi. Efasemdir síðar er eins og eitur sem grafa mun undan trúverðugleikanum og vera skuldbundið atvinnurekandanum. Gömlu gildin sem fjallað hefur verið um á þjóðfundunum snerust einmitt um trúverðugleikann. Við viljum sjá nýja stjórnarskrá sem byggð er á heiðarleikanum einum saman frá grunni og sannleika sem meitlaður er í hana.

Oft sjáum við hlutina mjög vel, ekki síst þá áþreifanlegu sem við getum snert. Hugmyndir eru samsett orð sem tilheyra andrýminu og því eins og loftið sem við öndum að okkur og ekki sýnilegt berum augum. Glerveggur er þó eitt að því sem getur skilið á milli svo við getum hvorki þreifað á hlutunum eða heyrt hvað sagt er hinum megin. Ljósið skín þó í gegn og oft má ætla hvað raunverulega er að finna handan glerveggsins. Steinveggir eru hins vegar ekki gegnsæir og því ómögulegt að sjá eða skilja nokkurn skapaðan hlut.

Hugmyndir manna um nýtt stjórnlagaþing, þing sem kosið er af þjóðinni og sem leggja á fram tillögur um nýja stjórnarskrá verður að vera á fullkomnu trausti byggt. Það þarf bæði að vera áþreifanlegt en um leið gegnsætt eins og lögin, glervegginn góða. Eitthvað sem er óumdeilanlega lögmætt þing þjóðar og kosið af þjóðinni. Ekki síst á dögum efasemda og vantrausts á stjórnsýslunni sjálfri. Rök um litla þátttöku í kosningu sem nú hefur verið úrskurðuð ógild vegur þó lítið enda kaus um þriðjungur þjóðarinnar og vitað var að sumir sem ekki vildu neinar breytingar lögðust gegn kosningunni frá byrjun. Heilu stjórnmálaöflin fannst óþægilegt að verið væri að rugga bátnum og hræddust grunngildin sem rædd voru á þjóðfundunum. Ekki síst að eign auðlindanna gengi til þjóðarinnar. En kosningin í vetur var dæmd ógild og stjórnlagaþing sem átti að vera löglegt þing getur því ekki orðið að ráði alþingis á einni nóttu. Við getum einfaldlega ekki lagt af stað með útsæði til að sá í akur eftir að hann hefur verið þegar eitraður og fræjum efasemda sáð. Því þá verður uppskeran engin.

Við sjáum samt auðveldlega markmiðin gegnum glervegginn góða. Úti ríkir nú frost og kuldi sem við skynjum ekki nema við brjótum hann. Þennan vegg megum við alls ekki brjóta því sýnin er framtíðarsýnin á það sem þarf að rækta frá grunni í þjóðlegri mold og við viljum halda hlýjunni inni. Glerveggurinn er raunverulegur, byggður á lögum sem við höfum skapað. Brjótum hann ekki því þá verður framtíðarsýnin kuldaleg og nöpur.

Almannagjáin okkar á Þingvöllum er tákn samstöðu, heiðarleika og gegnsæis. Áþreifanleg og sýnileg í senn. Látum ekki tímabundna erfiðleika og höft á einum síðvetri eyðileggja þá mynd sem við höfum átt í 1000 ár gegnum glervegginn góða og verða að allt annrri gjá milli þingis og þjóðar.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn