Föstudagur 25.02.2011 - 12:11 - FB ummæli ()

Eggin brotna þegar þau detta!

Í Fréttablaðinu í morgun er heilsíðugrein „Í labbitúr með hjálm?“ eftir hinn ágæta pistlahöfund, stærðfræðinginn Pawel Bartoszek sem samt hefur ekki alveg áttað sig á einu auðskiljanlegasta lögmáli náttúrunnar sem kennt er við eðlisfræðinginn Newton og er um samspil aðdráttarafls jarðar, þyngdar og fallhraða og við lærðum um í barnaskólanum í gamla daga. Að minnsta kosti virðist hann ekki skilja lögmálið þegar kemur að því að setja það í samhengi hvernig við getum varið okkar viðkvæmasta líffæri, heilann, þegar við dettum beint á hausinn af hjóli. Hjúkrunarfræðingar sýna hins vegar í skólunum í dag hvað gerist þegar egg er látið falla úr hendi beint á stofugólfið. Ef hins vegar eggið er sett í sérútbúinn „hjólahjálm“ úr korki og látið falla úr sömu hæð, brotnar eggið ekki. Sýning sem flest börn skilja mjög vel. 

Þessi fyrirbyggjandi ráðstöfun og fræðsla um nauðsinlega notkun hjólahjálma er hluti af uppeldinu og almennu umferðaröryggi. Ekkert síður en að benda á hvað nauðsynlegt er að bera endurskinsmerki á hlífðarfatnaði á dimmum vetrum og sem geta komið í veg fyrir alvarleg slys á leið í skólann þegar bílarnir geta átt í hlut eins og Pawel reyndar bendir réttilega á.

Pawel vitnar til rannsóknar máli sínu til stuðnings og að þegar hjálmanotkun hafi verið lögleidd í Nýja Sjálandi á tíunda áratugnum og „að hjálamanotkun hafi farið úr engu í ekkert hafi slysum á hjólreiðarmönnum fækkað óverulega“. Í mínum huga er lítill munur á engum og ekkert svo varla er við öðru að búast. Við vitum líka að hjólahjálmar eru ekki til að forðast slysin almennt, heldur alvarlegar afleiðingar slysanna, á höfði og andliti sérstaklega.

Þegar við hjólum að þá höllum við okkur gjarnan fram á við og flest hjól eru beinlínis gerð þannig að ekki er hægt að hjóla á þeim öðruvísi. Ef hjólað er á kantstein eða framhjólið snýst skyndilega, til dæmis þegar það hrekkur í djúpa holu, að þá dettum við fram á við og þá ALLTAF með höfuðið á undan. Hvirfillinn er gjarnan það sem kemur fyrst niður og oftast veit hjólreiðarmaðurinn aldrei hvað eiginlega gerðist. Þegar við bætist hraði á hjólinu er höggið oft svo mikið að hjálmurinn eða höfuðkúpan springur. Eins og hendi sé veifað, og ef þú ert heppinn horfir þú upp í skýin þegar þú vaknar frekar en að vera farinn þangað. 

Þessi tilfelli koma mjög oft til umræðu á Slysa- og bráðamóttökuni og stundum eru sýndir sprungnir hjólahjálmar, málinu til sönnunar. Svo einfalt er nú það, en það er sorglegt þegar maður sér hvað hjálmur hefði getað bjargað ef hann hefði verið til staðar á hausnum þar sem hann átti heima, en var það ekki heldur í hillunni heima í bílskúr. Eins vegna andlits- og augnáverkanna. Þökk sé því hvernig hjálmurinn er hannaður að ná aðeins út fyrir höfuðið og hlífa þannig þessum líkamspörtum betur og sem eru okkur líka mikils virði.

Munum eftir hjálmunum nú þegar styttist í vorið og börnin fara út að hjóla. Í guðanna bænum.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · útivist

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn