Mánudagur 07.03.2011 - 12:39 - FB ummæli ()

Morgunsárið

Í nótt gekk á með þrumum og eldingum meðan ég svaf svefni hinna saklausu. Á morgungöngunni fékk ég hins vegar mikið stormél í fangið, svo mér stóð ekki á sama. Síðastliðnar vikur hef ég fylgst með morgunbirtunni á austurhimninum sem varla er nema örlítil glæta svo snemma morguns. Í morgun þegar ég kom heim var hins vegar kominn annar roði sem slóg móður náttúru við. Morgunsárið frá henni Reykjavík sem litaði upp stormskýin í vestrinu blóðrauðum bjarma þar sem þau óðu yfir okkur íbúanna í Mosó og sjá má á meðfylgjandi mynd sem ég tók á símann minn. Roðinn var um tíma svo mikill að það var eins og eldhaf væri undir skýjunum sem annars voru skjannahvít og hnoðrótt eins og nýþeyttur rjómi. Í dag er bolludagurinn og á morgun er sprengidagurinn svo „morgunsárið“ í morgun túlka ég sem svo að við verðum að fara varlega með okkur sjálf. Kanski ekkert síður á ferðalögum til fjallanna eins og fréttir helgarinnar báru með sér að ekki væri vanþörf á. Og bara kuldi og frost í kortunum.

Þessi mynd í morgun minnir mig reyndar á atvik á sama árstíma aldamótaárið 2000 þegar veðurfarið var svipað og það er í dag. Þegar ég sat í heitum potti í sumarbústað austur í Brekkuskógi og horfði á fallegan skýjabólstur yfir Heklu sem síðar reyndist vera gosbólstur. Atburðurinn var enn minnisstæðari þar sem nokkur hundruð manns á heimleið frá gosstöðvunum daginn eftir, sátu fastir í bílum sínum heila nótt í Þrengslum og Hellisheiðin lokuð. Atvik sem var grafalvarlegt og litlu mátti muna að ekki færi illa, meðal annars vegana andvaraleysis yfirvalda og björgunarsveitanna sem voru allt of seinar að bregðast við ógn, langt frá sjálfum gosstöðvunum. Atvik sem við samt lærðum af og sem sýnir hvað veðurfar á Íslandi getur breyst með litlum fyrirvara. Ekki síður að vandinn er ekki alltaf mestur þar sem hann er virðist sýnilegastur með berum augum. Heklugosin eru gjarnan á 10 ára fresti svo hver veit hvað þessi fyrirboði í morgun í raun þýðir eftir allt saman?

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn