Mánudagur 25.07.2011 - 13:17 - FB ummæli ()

Staða læknisþjónustunnar á Íslandi

Undanfarna mánuði hefur verið mikið rætt um vaxandi álag á Bráðaþjónustu Landspítala háskólasjúkrahús (LSH), minnkandi aðgengi að sérfræðiþjónustu hverskonar og aukna lyfjanotkun landans. Minna hefur farið fyrir umræðu um mikinn og alvarlegan skort á heimilislæknum á höfuðborgarsvæðinu um áraraðir og takmarkaðan aðgang að heilsugæsluþjónustu, sem undir venjulegum kringumstæðum ætti að veita grunnþjónustuna. Eins nú vaxandi atgerfisflótta lækna frá landinu sem býður engan veginn sambærileg laun og nágranalöndin. Hjá þjóð þar sem byrjunarlaun lækna eru aðeins rétt um 300 þúsund krónur á mánuði. Jafnvel á bráðadeildunum þar sem vinnuálagið er hvað mest og allt starfsfólk reynir eftir fremsta megni meðal annarra verka að hlúa að afleiðingum blæðandi sára heilsugæslunnar, sem engan veginn annar sínu álagi. Á vinnustöðum þar sem færri unglæknar tolla lengi í starfi vegna yfirgengilegs álags og reyna því að koma sér sem fyrst til útlanda. Frá landi þar sem vaktaálag unglækna er ófjölskylduvænt og jafnvel ómanneskjulegt á köflum. Ekki síður úti á landi þar sem jafnvel læknanemar eru fengnir til að sinna héraðsvöktum, nánast einir síns liðs og allt getur gerst. Í landi sem ungir læknar sem koma úr löngu og kostnaðarsömu námi, þurfa fljótlega að fara að borga af námslánunum sínum, jafnvel upp á tug milljóna króna, en fá engan skattaafslátt eða vaxtarbætur á móti. Hjá þjóð þar sem læknar standa oft ekki undir húsnæðislánum, til byggja sér og sínum heimili til framtíðar. Á landi þar sem stefna stjórnvalda er að allir hafi svipuð laun, burt séð frá vinnuálagi, ábyrgð og kostnaði við að afla sér menntunar.

Á flestum sviðum læknisfræðinnar höfum við Íslendingar talið okkur standa fremstir meðal þjóða á undanförnum áratugum, læknismenntunin hefur verið góð, boðið er upp á hátæknilækningar á flestum sviðum og töluvert um vísindarannsóknir sem eykur hróður okkar erlendis. Löngum höfum við líka státað okkur af minnsta ungbarnadauða í heimi og boðið útlendingum að skoða glæsilegar heilbrigðisstofnanir og nýbyggðar heilsugæslustöðvar, en sem nú standa sumar hálf auðar. Síðast en þó ekki síst, á síðustu og verstu tímum, höfum við mikinn metnað að byggja nýtt og öflugt hátæknisjúkrahús. En eins og gott hús verður ekki smíðað án góðra smiða, verða góðar heilsugæslustöðvar og góð sjúkrahús ekki starfrækt án vel menntaðs starfsfólks.

Áður buðum við sjúklingum okkar bestu læknisþjónustu sem völ var á, erlendis ef hún fékkst ekki hér heima, sem síðar varð þróunin á flestum sviðum. Sem betur fer, með sérmenntuðum íslenskum læknum sem fóru oft í langt og strangt sérnám erlendis en sem komu síðan heim aftur með sérþekkinguna sína. Nú virðist margt af þessari uppbyggingu sem tók áratugi að skapa, vera unnið fyrir gíg á Íslandi. Ekki síst í uppbyggingu heilsugæslunnar. Innan fræðagreinar  sem var tiltölulega ný sérgrein innan læknisfræðinnar þar sem heilusgæslulæknar gengdu lykilhlutverki og sem átti að sjá um grunnþjónustuna, ekki síst vegna þjóðhagslegra sjónarmiða. Allt fyrir gíg vegna skilningsleysis stjórnvalda í uppbyggingunni, að tryggja ekki mannauðinn og borga ekki mönnum sanngjörn laun fyrir sanngjarna vinnu.

Um árabil hafa verið miklar efasemdir um forgangsröðun verkefna í heilbrigðiskerfinu á meðal fagfólks sem vel þekkir til, en sem ekki hefur verið hlustað á. Ekki síst ef við lítum á afleiðingar skipulagsleysins í heilbrigðisþjónustunni um árabil og sem sumir segja nú sé að hruni komin í vestrænum skilningi, svo sem hvar á að veita hvaða þjónustu. Nú loks er líka komin fram túlkun heilbrigðisnefndar Alþingis sem lengi hefur verið beðið eftir að fá stafestingu á. Að heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu hafi verið skilin eftir í meintu góðæri, á kostnað annarrar uppbyggingar heilbrigðiskerfisins, m.a. frjáls aðgengis að sérgreinalæknum og hátækniheilbrigðisþjónustu hverskonar. Dýrustu þjónustunni sem fellur fyrst í alvarlegri kreppu. Þegar álag á vakt- og bráðaþjónustuna verður síðan meira en góðu hófi gegnir, eins og staðan er í dag og sem sinnir yfir helming erinda sem ættu betur heima í vel skipulagðri heilsugæslu. Í heilsugæslu sem býður frekar upp á fræðslu og eftirfylgd með einkennum en skyndilausnir, eðli málsins samkvæmt.

Að mörgu þarf því að hyggja þegar þarf að byggja og vissulega býr Landspítalinn við erfiðan húsakost. Vandamálin þar er þó eins og hljóm eitt miðað við æpandi þörf á lagfæringum í heilbrigðiskerfinu hingað og þangað. Heilsugæslan í höfuðborginni sveltur og kjör heimilislækna voru meira skorin meira niður en annarra heilbrigðisstarfsmanna á höfuðborgarsvæðinu eftir hrun. Þar sem samt vantaði um 50 heimilislækna sem fer ört fækkandi enda meðalaldur þeirra orðinn hár. Meirihluti erinda sjúklinga í höfuðborginni er enda sinnt utan venjulegs dagtíma á vöktum hverskonar þar sem þjónustustigið er allt annað en hjá heilsugæslu sem nútímalegar erlendar klínískar leiðbeiningar um meðferð sjúkdóma gera ráð fyrir að séu fyrir hendi og sem leggja megin áherslu á fræðslu og eftirfylgd einkenna með tilliti til þekkingar á sjúklingnum og sjúkrasögu hans.

Mikil notkun lyfja í flestum lyfjaflokkum ber því ástandinu í dag ágætlega vitni, auk óeðlilega mikils álags á hverskonar vaktþjónustu og bráðamóttökur, á kvöldin, á nóttunni og allar helgar. Þegar jafnvel glundroðastig verður hvað eftir annað á endastöð heilbrigðiskerfisins og þangað sem leiðir okkar flestar liggur þegar mest liggur við. Ofnotkun lyfja er auk þess mikið heilbrigðisvandamál út af fyrir sig, kostnaðarsöm og heilsuspillandi enda röng notkun þjónustunnar sjúkdómsvæðandi og nýbyggingar bara steypa og gler ef mannauðinn vantar.

Sjúkraskrárkerfin eru auk þess ekki samtengd hér á landi og upplýsingar um sjúklinga því oft takmarkaðar fyrir lækna. Sama er að segja um lyfjaskrárnar og “lyfjagátt” apótekanna sem aðeins er hægt að senda inn um en ekki kíkja inn fyrir. Allt sem býður hættunni heim og veldur miklum rugling, hvað aðrir eru búnir að gera og hugsa og hugsanlegar milliverkanir á milli lyfja og aukaverkanir. Einnig sem getur stuðlað að misnotkun lyfja og fölsun á lyfjaúttektum sem síðan leiðir til lögleysu og glæpamennsku úti í bæ. Og það sem verst er, sjúklingurinn á hvergi heima í kerfinu og er oft villuráfandi og skilyrtur á áframhaldandi skyndilausnir, hvar sem hana er að fá hverju sinni.

Óvinir læknisfræðinnar í alþjóðlegum skilningi eru hins vegar fyrst og fremst sjúkdómarnir sem við viljum öll sigrast á, í það minnsta ná sáttum við og læra að lifa með, því auðvitað vinnum við ekki alltaf  fullnaðar sigur. Þetta ættu að minnsta kosti allir að vera sammál um, líka hér á  Íslandi. Læknis-, líf- og efnafræðivísindin hafa skapað okkur ýmiss verkfæri til að ná þessum takmörkum þar sem lyfin eru stór hluti af vopnabúrinu. Bólusetningar, rannsóknir á orsökum sjúkdóma og fyrirbyggjandi ráðstafanir ekkert síður en framfarir í gjörgæslu- og skurðlækningum. Ekki heldur samfélags- og geðlækningar ásamt þverfaglegri samvinnu með öðrum heilbrigðisstéttum í heilsugæslunni. Í flóknum samtímanum á tækniöld, þar sem líkaminn er aldrei eyland.

Vopnin þurfa hins vegar að vera vel varðveitt og vel skilgreint hvenær þau á að nota og hvernig, til að þau missi ekki mátt og hætti að bíta. Mörg lyf eru í dag afskaplega mikils virði á réttum forsendum, en geta líka verið hættuleg eða misst virkni sína ef þau eru ofnotuð eða misnotuð. Trúverðugleiki á notkun þeirra verður að vera fyrir hendi og annarra ráða sem jafnvel skipta meira máli í baráttu við sjúkdóma til lengri tíma litið reynd, áður en til þeirra er gripið. Skilningur á venjulegum gangi sjúkdóma sem læknast af sjálfu sér og mikilvægi þess að lifa heilbrigðu lífi eru enda mikilvægustu markmið sjálfbærrar heilsu. Læknirinn á að vera sérfræðingurinn til ráðgjafar um alla þessa hluti ásamt öðru heilbrigðisstarfsfólki.

Margir sem stjórna í heilbrigðsikerfinu hér á landi hafa fjarlægst heildræna sýn á góðri og skilvirkri heilbrigðisþjónustu, til lengri tíma litið. Allra síst eiga pólitíkusarnir að segja til hvernig læknar eigi að vinna eða ávísa lyfjum. Frekar að taka mark á ábendingum um hvað má betur fara stjórnun og svara erindum þar að lútandi sem jafnvel byggja á gæðaþróun hér á landi til áratuga. Baráttuna við sjúkdómana þarf að vinna á mörgum vígstöðvum þar sem trúverðugleiki læknisfræðinnar sjálfrar er aðalvopnið. Traust og trúnaður ekkert síður á milli stjórnvalda og læknis en milli læknis og sjúklings. Sem framtíð heilbrigðisþjónustunnar þarf öðru fremur að byggjast á og að læknar fái ráðið meiru til lengri tíma, en stjórnmálamennirnir til styttri tíma. Þar sem grunnurinn á að standa traustari fótum en það sem byggt er ofan á.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn