Sunnudagur 17.07.2011 - 10:33 - FB ummæli ()

Mávarnir í móunum

Einn daginn í vikunni var eitthvað svo allt öðruvísi í móunum mínum heima. Allt svo hljótt sem minnti mig helst á kyrrðina sem er svo algeng seint á kvöldin á veturna, í froststillum þegar himininn er líka heiðskýr í tunglskininu, en bara svartur. En nú var sólin hins vegar hátt yfir heiði og allt átti að vera í fullu fjöri, eins og alltaf hafði verið í sumar, með kvaki og tísti. Skyndilega heyrði ég skothvell og þá fyrst fattaði ég hvernig í öllu lág. Sá að mávurinn var horfinn. Kyrrðin hafði enda verið angurvær þögn. Hlaðin tilfinningu sem minnti mann helst á að eitthvað alvarlegt hefði gerst en maður skildi ekki og varð að bíða nánari frétta um orsakir og afleiðingar. Hinir mófuglarnir voru að minnsta kosti miður sín og óvanalega þögulir. Eftir alla skothvellina í skjóli hversdagsleikans um hásumar sem ég heyrði ekki, þegar allir voru í vinnunni eða í sumarleyfi úti á landi. Aðgerð sem var svo afgerandi um valdið að maður varð mjög hugsi. Um liðna tíma og tómarúmið sem oft ríkti þegar maður skildi ekki hlutina. Þegar við hugsuðum og framkvæmdum hlutina öðruvísi en við gerum í dag.

Í mínu umhverfi hafði ég vanist mávnum vel, enda bý ég ekki fjarri sjónum og björgunum í Úlfarsfellinu, sem móinn stendur undir. Þótt hann væri óttalegur vargur og mikil læti í honum við björgin í Hamrahlíðargilinu, ekki síst á morgnana. Í raun hef ég dáðst að honum í laumi á ákveðinn hátt, en þó oftar bölvað honum og líkt honum við þann sem er með yfirgang og læti. Varðstöður út um allt eins og þeir sem þykjast hafa valdið. Eins og teinréttir dátar með svarta boðungana sína, í varðstöðum á nípunum sínum. Með jöfnu millibili um allan móann og einn og einn tekur útsýnisflug yfir svæðið þegar einhver nálgast til að gæta að sér og sínum. Jafnvel gaggar á hundana mína og steypir sér niður í leiftursókn gegn þeim. En hann hlýtur þó að eiga einhvern tilverurétt, mávurinn sá að arana. Svartbakurinn klári. Hann er að minnsta kosti jafn íslenskur og aðrir íslenskir fuglar. Það er heldur ekki honum að kenna frekar en lundanum og kríunni að sandsílið brást í ár eins og síðastliðin ár. Eini munurinn að hann kann að bjarga sér og leitar þá á önnur mið, eins og við mennirnir gerum þegar að okkur þrengist. Nálgast þá móana óþarflega mikið og ógnar jafnvel saklausari fuglum, nágrönum sínum og mínum sem eru þó hér bara í heimsókn yfir sumarið. Tákngervingar sumardýrðar okkar. Þegar allt líf í móunum vaknar til lífsins stutta stund, áður en allt verður hversdagslegt aftur og kuldinn tekur yfirhöndina. Íslenski hversdagsleikinn þegar mávurinn fær loks að vera í friði. Óvinur minn í fyrstu en síðar vinur.

Í mannheimum er umræðan gjarna lituð af því góða eða illa, því rétta eða ranga, þótt sannleikurinn liggi oftast einhversstaðar þarna mitt á milli. Við losnum að minnsta kosti ekki við óþægilega umræðu með að útrýma henni með valdi. Hvort sem okkur líkar umræðan betur eða verr. Ekki síst þegar hún snýr að þróun á réttlátara þjóðfélagi þar sem allir fá vonandi sitt tækifæri aftur til að bjarga sér.

Tómarúmið, þögnin og angurværðin í þjóðfélaginu nú er sem betur fer ekki eins ríkjandi og áður, og mörgum steinum hefur verið velt. Ýmislegt óþægilegt komið í ljós sem lá undir. Kynferðisofbeldi gegn konum og börnum til áratuga sem ekki mátti nefna. Jafnvel þar sem sjálf  þjóðkirkjan átti hlut að máli, bæði beint og óbeint. Líka aðrar kirkjur sem nú loks taka þátt í umræðunni á lágværu nótunum. Að því við skömmumst okkar öll svo mikið. Breiðavíkurdrengirnir og öll harðneskjan og mannvonskan á barna- og meðferðarheimilum á allt of mörgum stöðum, út um allt land. Fjármálaspilling og hrun bankakerfisins sem skilur eftir sig gjaldþrota heimili og atvinnuleysi. Einokun náttúruauðlindanna og brask orkufyrirtækja eins og Orkuveitu Reykjavíkur, flaggskip höfuðborgarinnar. Pólitísk spilling sem náði til sveitastjórna og jafnvel stjórnsýslunnar. Jafnvel misráð í uppbyggingu heilbrigðsikerfisins þar sem heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins var látin sitja endalaust á hakanum og sem nú er við að blæða út. Jafnvel svo að bráðaþjónustan hefur varla undan til að hlúa að sárum hennar. Þar sem yfirvinnubann lækna og hjúkrunarfólks er aldrei til umræðu eins og hjá sumum.

Svona mætti lengi telja, umræða sem ein og sér á hverju sviði fyrir sig hefði hefði aldrei átt sér stað nema með hruninu. Þegar augu okkar loks opnuðust og við sáum allt í einu heiminn í allt öðru ljósi. Jafnvel sem veldur okkur ofbirtu á köflum og við kunnum okkur þá ekki læti, því gömlu gildin standa þrátt fyrir allt. Líka sorg yfir því sem miklu betur mátti fara og að miklu betur hefði verið að grípa miklu fyrr í taumana í stað þess að hreinsa sig jafnóðum af umræðunni. Sem minnti mig á í það minnsta, eitt augnablik um daginn. Þegar allt í einu var búið var að hreinsa burt allan mávinn, úr móunum mínum heima.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn