Í mörg ár hefur verið boðið upp á bólusetningu gegn pneumókokkum (Streptococcus pneumoniae) fyrir eldra fólk (>60 ára) á 10 ára fresti og fyrir sjúklinga með alvarlega lungnasjúkdóma og ónæmisgalla (5-10 ára fresti). Tilgangurinn er að fækka þeim sem sýkjast af alvarlegum pneumókokkasýkingum, ekki síst alvarlegum lungnabólgum, blóðsýkingum og heilahimnubólgum af völdum þessarra stofna. Yfir 90 stofnar eru til sem ræðst af fjölsykursgerðinni í hjúpi þeirra. Engu að síður hefur almennt verið litið svo á að pneumókokkar séu hluti af eðlilegri sýklalflóru í nefkokinu, einkum barna, en sem undir vissum kringumstæðum geta valdið sýkingum. Boðið hefur verið upp á bóluefni fyrir fullorðna sem svara vel fjölsykursgerð (polysaccharides bóluefni) 23 algengustu stofananna sem valda sýkingum og þar sem hver fjölsykursgerð er þá mótefnavaki með B-eitlifrumu mótefnasvari (T-independent). Ung börn (< 2 ára) svara hins vegar ekki þessum bóluefnum vegna vanþroska í ónæmiskerfinu og fjölsykrungar því einir sér ekki nógu góðir ónæmisvakar.
Frá árinu 2000 hafa hins vegar komið fram bóluefni sem byggir ónæmissvörunina á svokallaðri próteintengdri svörun (conjuncate bóluefni) þar sem bindipróteinið sem valið er t.d. diphtheria toxoid, er góður ónæmisvaki og sem ræsir IgG mótefnasvar með hjálp T-eitilfruma gegn hverri þeirri fjölsykursgerð sem eru samtengd í bóluefninu. Í fyrstu voru fjölsykursgerðirnar 7 (Prevenar) gegn algengustu meinvaldastofnum pneumókokka og sem líklegastir voru til að valda ífarandi sýkingum meðal barna. Síðan hefur stofnunum verið fjölgað í bóluefnunum og ná nú til allt að 13 algengustu stofnanna (Prevenar13). Eins hefur komið fram nýtt bóluefni á síðustu árum og sem valið var að notað í ungbarnbólusetningum hér á landi, Synflorix, þar sem notast er við bindiprótein í hjúp Haemophilus influenzae, non-typeable, svokallað prótein-D í stað dipteria toxoid bindipróteinsins í 8 stofnum af þeim 10 sem eru í bóluefninu. D-bindipróteinið gefur þá ákveðna mótefnasvörun líka gegn þessum Haemophilus sem jafnframt er algengur sýkill að valda mildum eyrnabólgum hjá börnum.
Grunnbólusetning ungbarna samanstendur af 3-4 bólusetningum á fyrsta ári, fyrsta sprautan um 3 mánaða aldur og sú síðasta um 12. mánaða aldur. Rannsóknir í seinni tíð í löndum þar sem bóluefnin hafa verið notuð sýna að tekist hefur að lækka tíðni ífarandi sýkinga sem pneumókokkar valda um 80%, þ.e. gegn þeim algengu stofnum sem bólusett er gegn. Vissar áhyggjur er þó á fjölgun annarra stofna á sama tíma og sem eru ekki í bóluefninu, jafnvel sýklalyfja-fjölónæmum stofnum og þegar er farið að bera á erlendis þar sem bóluefnin hafa verið notuð lengi.
Tíðni eyrnabólgusýkinga af völdum penumókokka hefur líka snarminnkað þar sem bóluefnin hafa verið notuð um árabil og fjöldi heimsókna til lækna vegna eyrnabólgu barna hefur fækkað um allt að helming. Á Íslandi hefur tíðni eyrnabólgu hjá ungbörnum verið há og sem í dag skýrir yfir helming af allri sýklalyfjanotkun barna og sem er um 20% af öllum sýklalyfjaávísunum utan spítala í landinu. Sterk tengsl hafa líka fundist milli útbreiðslu sýklalyfjaónæmra pneumókokka í þjóðfélaginu og notkun sýklalyfja hjá börnum. Í dag eru um 40% af öllum pneumókokkum sem valda sýkingum penicillínónæmir og jafnvel fjölónæmir (ónæmir fyrir þremur eða fleirum af algengustu sýklalyfjaflokkunum) og sem flestir eru algjörlega ónæmir fyrir helsta varalyfi penicillíns, makrólíðum (19F stofninn). Bóluefni gegn algengustu pneumókokkastofnunum sem í mörgum tilfellum eru auk þess sýklalyfjaónæmir, eru því kærkomin í baráttunni gegn alvarlegum sýkingum meðal barna á Íslandi og okkar hinna líka með hjarðáhrifum.
Byrjað var að bjóða bólusetningu fyrir börn fædd á árinu 2011 sl. vor með 10 gilda bóluefninu Synflorix eins og áður sagði. Spurningar hafa engu að síður vaknað hvort rétta bóluefnið hafi verið valið af stjórnvöldum með tilliti til þeirra stofna sem eru algengastir hér á landi í dag. Aldrei hefur verið mikilvægara engu að síður að nota þetta tækifæri og þegar alvarlegum sýkingum pneumókokka fækkar, að sýna meiri árvekni í notkun sýklalyfja til að geta spornað gegn þeirri þróun að sýklalyfjaónæmir stofnar komi í stað þeirra sem bólusett er gegn. Hvatt er til að heilbrigðisstarfsfólk fari því eftir alþjóðlegum leiðbeiningum og klínískum leiðbeiningum Landlæknis um ráðleggingar og meðferð sýkinga. Þróun sýklalyfjaónæmis helstu sýkingarvalda þjóðfélagsins er því miður áfram ein mesta heilbrigðisógn framtíðarinnar og sem við verðum að takast á við öll sameiginlega. (úrdráttur á fyrirlestri á Fræðadögum heilsugæslunnar 10.-11.11.2011)