Laugardagur 03.12.2011 - 09:37 - FB ummæli ()

Íshallirnar á Íslandi

Tvennt er líkt með íshöllum á Íslandi og Kauphöllinni. Þær byggjast á ákveðinni draumsýn í kulda og bráðna þegar sagan er öll. Reyndar má segja svipaða sögu með uppbyggingu alls fjármálalífs hér á landi sl. áratugi, sem var eins og slæm draumsýn sem endaði illa. Og þeir sem urðu ríkir, gerðu það gjarnan á kostnað þeirra sem urðu fátækari.

En flest viljum við nú komast út úr slæma draumnum og heim til hlutanna eins og þeir voru áður, löngu áður. En viti menn, sumir vilja ekki vakna og draumurinn því eins og martröðin sem engan endi ætlar að taka. Á tímum banka sem byggja fyrst og fremst á skuldum annarra og hrynja nú eins og spilaborgir, starfsfólki sagt upp störfum í hrönnum, að þá rís væntingarvísitala Kauphallarinnar sem aldrei fyrr, sem fyrirboði „nýrra“ tíma.

Fylgi stjórnmálaafla sem sem vilja fara gömlu leiðina með væntingarvísitölu Kauphallarinnar einnar að leiðarljósi, er að ná nýjum hæðum. Með fagurgala og loforð um gull í mund og blóm í haga. Öflugt atvinnulífi og nýjum landvinningum í ókunnugum löndum. Sóknarfæri alls staðar, en sem byggir á rústum þess sem sömu aðilar orsökuðu. Þar sem við líka flest tókum einhvern þátt, og því fór sem fór. Öfl sem gera nú allt sem þau geta, til að leggja steina í götu rústabjörgunarmannanna. Aðilum sem hlakkar í, þegar illa gengur og einhverjum verður sundurorða í björgunarliðinu. Í þeirri von að þeir komist fljótt aftur til valda og höllin þeirra beri nafn með renntu. Gegn staðfastri trú alþýðunnar vil ég meina, á mikilvægi hollari samfélagskenndar en verið hefur, allt frá tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Tíma og viðhorfsbreytingum sem öll okkar helstu og bestu skáld keppast nú um að segja svo vel frá, og við flest skiljum.

Sjálfur er ég nú langt upp í sveit, fjarri skarkala og bæjarþyt. Nálægt raunverulegum íshöllum og jöklum. Þar sem hvergi er fallegra, en sem samt kallar alltaf eftir vorinu og voninni. Þar sem engu að síður hægt er að njóta hverrar stundar, í kyrrðinni meðal stjarnanna. Þar sem ég get fylgst með lífinu á ísbreiðunni og sjónum. Fuglalífi, tófu og jafnvel rjúpu. Þar sem tíminn eins og standi í stað og allt er nánast óbreytt eins það hefur verið í hundruðir ára. Allt nema betri aðbúnaður heima fyrir, í  hlýjum húsum þar sem nóg er að borða og trillukarlar sækja fast á sjóinn. Meðal fólks sem unir nokkuð sátt með sitt. Þar sem niðurskurðarhnífurinn er samt á lofti og sem maður veit aldrei hvar kemur nákvæmlega niður. Á stað þar sem djúpar rætur ookar liggja og flestir vilja byggja upp samfélagið á væntumþykju fyrir náunganum og samstöðu. Þrátt fyrir mannlega beiskleika, eins og gegnur og nú sálarangist.

Eignir flestra fjölskyldna bráðnuðu eftir meint góðæri og urðu að engu. Mikil hlýtur ábyrgð þeirra að vera sem það orsökuðu og þegar unga fólkið stendur nú allslaust eftir og jafnvel verr en það. Með mikinn sársauka í hjarta, örvinglaðir og vilja flýja íslandið. Fólk sem vill gjarnan geta trúað á betri lausnir erlendis. Við sem eftir erum, verðum hins vegar að byrja upp á nýtt. Viljum við ekki byggja upp öðruvísi samfélag en áður var undir það síðasta? Heilsteypt og traust eins og það best var. Að allir leggist nú á árarnar eins og áður. Ekkert síður þeir efnameiri og sem ekki hafa þegar flúið land með allt sitt. Borgi jafnvel tíund ofan á aðra skatta, til að allir fái að njóta.

Það eru hins vegar blikur á lofti eins og skoðanakannanir nú sýna. Eigum við ekki samt að standa vörð um velferðarþjóðfélagið eins og við best þekkjum það. Trúum aldrei aftur á eitthvað allt annað. Kannski við fáum hins vegar að sjá eftir nokkur ár ævintýraþættina bak við „ísvegginn mikla“ í sögunni, Game of Thrones og sem nú er verið að taka upp á Íslandi. Þá skynjum við betur að þar var aðeins um enn eitt Valhallarævintýrið að ræða.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn