Fimmtudagur 01.12.2011 - 11:22 - FB ummæli ()

Þungaflutningar og ofsaakstur á vegum landsins

Á hverjum degi fylgist ég með ógnarþungum flutningabílum með stóra tengivagna á leið, til og frá bænum, á Vesturlandsveginum gegnum þéttbýliskjarnann í Mosfellsbæ og þar sem oft er lítið slegið af hraðanum, enda bílstjórarnir sjálfsagt bæði öryggir og góðir, en stundum þreyttir og syfjaðir eftir langan og erfiðan akstur. Á jafnvel einnar akreina vegakafla í hvora átt milli hringtorga, þar sem er brekka, beygja og brú. Stundum í röðum svo minnir á járnbrautarhraðlest sem sífellt fer stækkandi. Þá verður mér oft hugsað til þeirrar slæmu tilfinningar sem er að mæta slíkri lest, á litla fólksbílnum mínum. Ég tala ekki um að þurfa að fara fram úr þeim við erfið skilyrði fyrir utan höfuðborgina og mæta svo e.t.v. annarri lest úr gangstæðri átt, á örlagastundu. Þar sem höggið sem gæti hugsanlega orðið margfaldast með þyngd og hraða bifreiðarinnar sem á móti kemur. Þar sem höggið er í réttu hlutfalli við þyngdarmun farartækjanna. Eins, að stuðari stórra bifreiða lendir ekki á stuðara fólksbifreiðar minnar, heldur farþegarýminu. Það er ójafn leikur.

Nýlega var frétt í Fréttatímanum af ungum ökumönnum sem gera hins vegar að leik sínum að aka á ofsahraða gegnum nýju Bolungarvíkurgöngin. Ungir menn sem á sama stað fyrir nokkrum áratugum síðan, stunduðu fyrst og fremst sjóinn og þökkuðu alltaf  fyrir að komast heilir heim aftur. „Á allt að 215 km. hraða á klst. og margar aðrar ferðir á lítið minni hraða. Það líka á miðjum degi þegar töluvert er um aðra umferð í göngunum. Lögreglan er sögð þekkja til hóps manna sem stundi slíkan akstur dags daglega en eigi erfitt með að standa hann að verki og sönnunarbyrðin sé þung nema með meira eftirliti. Önundur Jónsson, yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum hefur m.a. látið hafa eftir sér að ungir ökumenn sem stundi slíkan ofsaakstur fylgist náið með ferðum lögreglunnar og tilkynni félögum sínum hvenær óhætt sé síðan að „fara“ í gegnum göngin“.

Sævar Helgi Lárusson, sérfræðingur hjá Rannsóknarnefnd umferðarslysa líkti „leiknum“ við „rússneska rúllettu“ í viðtali í sömu frétt í Fréttatímanum.„Nær 100 prósent líkur eru á að vélhjólamaður á yfir 200 kílómetra hraða á klukkustund inni í jarðgöngum lifi ekki af lendi hann í slysi. Á 200 km hraða fer hjólið 56 metra á sekúndu. Viðbragð ökumanna sé frá hálfri að 2,5 sekúndum. Ökumaðurinn er því kominn fleiri tugi eða hundruð metra þegar hann byrjar að hemla. Verði slys kastist ökumenn ansi langt með götunni og getur lent undir öðrum bíl, upp í loft eða á veggjum gangnanna. Því hærri sem bíll, sem bifhjól á slíkum hraða lendir í árekstri við, því meiri líkur eru á því að bæði ökumaðurinn og hjólið kastist inn um framrúðu bílsins með ógurlegum afleiðingum.“

Ekkert er sameiginlegt með ofsaakstri fólksbifreiða eða bifhjóla og þungaflutningum á vegum landsins, annað en afleiðingarnar ef slys verða. Ofsaakstur á bifreiðum og bifhjólum er hins vegar endurtekið í fréttum, en miklu síður þungaflutningarnir á ófullkomnum vegum landsins. Eins er oft rætt hvað gera megi til að sporna gegn ofsaakstri, ekki síst hvernig bæta megi löggæsluna, en síður hvernig eftirlit með farmi vöruflutningabifreiða er háttað, sem eru stundum illa hlaðnir eða ofhlaðnir og geta skapað stórhættu vegna skertra aksturshæfleika. Eins er mikið rætt hvernig við getum aukið umferðaröryggi okkar allra með nýjum og betri vegum og byggingu umferðamannvirkja hverskonar, en minna hvernig koma megi þungum vöruflutningum af vegunum og aftur á sjóinn, jafnvel landflutningi alls sjávarafla heilu byggðarlaganna. 

Gríðarleg aukning hefur orðið í þungaflutningum á vegakerfi landsins sl. áratugi. Bílarnir eru mikið öflugri en áður og skottast því gjarnan með langa tengivagna milli landshluta til að spara flutningskostnað. Vegna þessarra vöruflutninga á vegunum, sem í raun eiga heima í gámum um borð í strandferðarskipum, að þá neyðumst við flest til að taka þátt í annars konar rússneskri rúllettu,  „íslenskri rúllettu“, sem á ekkert skylt við ofsaaksturinn í Bolungarvíkurgöngunum, en sem er ekki síður hættuleg. Á vegum sem eru fyrst og fremst hannaðir fyrir almenna fólksflutninga. Alla nema auðvitað þá sem stunda ofsaakstur.

Gott umferðaröryggi er jafn mikilvægt og gott heilbrigðiskerfi fyrir þjóðina, sem á að geta dregið úr allt of miklum fórnarkostnaði vegna umferðarslysa í dag, í glötuðum mannslífum og fjölda þeirra sem hljóta varanlega örorku. Í skýrslu Rannsóknanefndar umferðarslysa frá árinu 2009 kemur fram að á árunum 2005-2009 voru 18% banaslysa tengt áreksti milli fólksbifreiðar og vöruflutniga- eða hópbifreiðar. Þar sem þrír bílar eða fleiri komu við sögu, tengdust yfir helmingur banaslysa áreksti við stóru bifreiðarnar. Enn fleiri banaslys tengjast hins vegar alltaf gáleysislegum og of hröðum akstri.

Nú er orðið jólalegt um að litast til fjalla og landið allt jafnhvítt af snjó. Þegar veður eru samt válynd og færð oft viðsjárverð. Þó síður inni í fjöllunum en uppi á hálendisvegunum. Áður fyrr var sjórinn helsti vágesturinn, ásamt vegleysum landsins. Nú er það hraðinn og stálhestöflin á vegunum og í göngunum. Njótum betur umferðarmannvirkjanna sem við hönnuðum fyrir nauðsynlegustu þarfir okkar, en ekki eitthvað allt annað. Ökum hægar, í þéttbýli og dreifbýli, til stranda og fjalla. Gefum okkur alltaf nægan tíma til ferðarinnar, hver sem hún er. Það eitt lágmarkar ótímabæran vina- og ástvinamissir.

Á hálum ís við Hvalfjarðargöngin í mars sl. -VIDEÓ-

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn