Laugardagur 26.11.2011 - 12:21 - FB ummæli ()

Hraust þjóð, okkar er valið

Oft hættir okkur til að líta á hlutina í of þröngu samhengi, eins og t.d. að líta á hvern sjúkdóm fyrir sig einangraðan frá öðrum sjúkdómum. Þegar í flestum tilfellum sjúkdómarnir eru nátengdir lífsháttum okkar innbyrðis og félagslegu öryggi. Talið er að flesta algengustu og alvarlegustu sjúkdómana megi þannig oftast forðast með góðum lífsstíl, góðri hreyfingu og hollu mataræði. Og glaður maður er yfirleitt líka heilbrigðari maður. Heilsugæslan og heimilislæknisfræðin gengur einmitt út á að tengja þessa þætti og orsakir sjúkdómanna saman og reynir að nota hverja heimsókn skjólstæðings til að sjá heildarmyndina. Sjúklingarnir streyma hins vegar á læknavaktir og bráðamóttökur á kvöldin og um helgar í þeirri von að fá skyndilausn við aðsteðjandi vanda. Á sama tíma og heilsugæslunni vantar meiri tíma á daginn til að sinna skjólstæðingum sínum betur. Ekki síst á sjálfu höfuðborgarsvæðinu þar sem mikil vöntun er á heimilislæknum og öðru sérþjálfuðu starfsliði. Heilsugæslu sem býður frekar upp á varanlegri lausnir, fræðslu og eftirfylgd með einkennum, í stað skyndilausna.

Margt breyttist með svokallaðri velmegun á síðustu öld. Lífslíkurnar jukust og flestir áttu góða möguleika á að verða gamlir. Þegar búið var að útrýma hungri, hörgulsjúkdómum og alvarlegum farsóttum var haldið niðri með hjálp læknavísindanna. Og nú eiga flestir kost á góðri læknishjálp þegar alvarlegustu sjúkdómarnir banka upp á eða slysin verða. Fyrir flesta aðra skipta hátæknilækningar þó miklu minna máli, en almenn heilsuvernd því meira. Nokkuð sem gleymist oft í lífsgæðakapphlaupinu mikla. Mikilvægi hollrar fæðu og hreyfingar sem mikið er nú rætt um á læknaþingum úti í hinum stóra heimi, en minna hér heima. Hjá oft þögulli þjóð, þar sem offitan er orðin að lýðheilusvandamáli og lyfjanotkun hvers konar, óvíða meiri.

Heimurinn er alltaf að verða flóknari að lifa í og hraðinn í nútímaþjóðfélaginu eykst sífellt. Margir hafa velt fyrir sér mannlegri getu að tileinka sér endalausar nýjungar daglegs lífs og hvar þolmörkin eiginlega liggja. Áreitið er endalaust og sífellt er aukin krafa að vinna hraðar og meira. Á tímum sem búið var að spá fyrir að öll tæknin myndi spara okkur ómældan tíma, þyrftum að vinna minna, og fengjum meiri tíma til að hugsa um okkur sjálf. Stressið og álagið samt aldrei meira og oft vitum við ekki í hvorn fótinn við eigum að stíga. Við gleymum oft þörfum okkur sjálfra, náungans og jafnvel þeirra sem okkur eru kærust. Samskiptin í auknu mæli rafræn, í stað augliti til auglits.

Lyfjaávísanir eru líka í vissum skilningi gengnar læknum úr höndum og orðnar oft hálf sjálfvirkar. Eftir pöntun með tölvusamskiptum eða gegnum þriðja aðila til að spara læknunum tíma. Eins er nú rætt um að veita hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum lyfjaávísanaleyfi á hormónalyf, með tillögu að breytingum á lyfjalögum. Á sama tíma og ekki einu sinni heimilislæknirinn hefur síðan aðgang í „lyfjagátt“ apótekanna til að taka þar til og leiðrétta ofskammtanir eða til að reyna að koma í veg fyrir hugsanlegar milliverkanir lyfja sem sjúklingarnir hafa fengið, héðan og þaðan.

Í dag komast læknar ekki yfir að kynna sér nema brotabrot af öllum þeim nýju rannsóknum sem kynntar eru daglega, í sífellt fleiri „læknisfræðitímaritum“ á veraldavefnum. Endalaus krafa að fylgjast með öllu og vera með. Fjöldi sjúkdómsgreininga hjá sjúklingum hefur líka margfaldast og tíðni algengustu sjúkdómanna sömuleiðis. Sjúkdómar sem fyrir ekki svo löngu síðan voru sjaldséðir eða ekki til og sem flestir tengjast lífsháttum okkar í dag. Sykursýki hefur til að mynda tugfaldast víða í hinum vestræna heimi, sem ásamt offitu og streitutengdum sjúkdómum eru algengustu orsakirnar sem leggja okkur að velli, oft fyrir aldur fram. Líka þunglyndi, vefjagigt, lungnasjúkdómar tengt reykingum, lifrarbólgur tengt lyfjanotkun og áfengisneyslu, sem stór hluti þjóðarinnar á við að glíma. Mörg krabbameinanna sömuleiðis. Allt sjúkdómar sem í mörgum tilvikum má vel koma í veg fyrir með betri hugsun og annarri hegðun, tímalega.

Kostnaður við heilbrigðiskerfið hefur náð nýjum hæðum og hefur í reynd tugfaldast á ekki svo mörgum árum. Á sama tíma sem lyfjaiðnaðurinn hefur farið offari á mörgum sviðum og ofmetið árangur algengustu lyfjameðferðanna. Lyfjameðferðir sem í upphafi voru aðeins ætlaðar fáum, en sem síðan voru yfirfærðar fyrir sem flesta. T.d. kólesteróllækkandi lyf fyrir þá sem ekki eru í sérstakri áhættu, þótt blóðfiturnar kunni að vera aðeins í hærri kantinum. Þegar hátt gildi á góða kólesterólinu skiptir meira máli og sem eingöngu er hægt að hækka með lífstílsbreytingu, meiri hreyfingu og góðu mataræði. Á tímum þegar fólk telur sig samt oft geta farið auðveldu leiðina, og gleypt pillur. Sama má segja um háþrýstinginn þar sem mörkin hafa frekar hækkað m.t.t. hvenær nauðsynlegt er að byrja á lyfjameðferð og árangur lífstílsbreytinga til lækkunar á blóðþrýstingi skiptir meira máli. Í raun getum við oft haft meiri áhrif á heilsuna okkar í dag en flestar lyfjameðferðir gera, ef við hugsum dæmið tímalega. Allt stefnir hins vegar í að offita, og systir hennar, sykursýkin, muni að öllu óbreyttu, með aukinni tíðni og afleiddum sjúkdómum, getað orðið heilbrigðiskerfinu ofviða vegna kostnaðar. Forgangsraða þarf þá upp á nýtt og hætt við að margt að því sem okkur finnst svo sjálfsagt í dag, verði einfaldlega ekki í boði.

Heilsa barnanna okkar er mest undir okkur sjálfum komin ásamt góðri heilsuvernd. Og hvergi fæðast börnin heilbrigðari en á Íslandi. En börnin þurfa góðan tíma með foreldrum sínum. Leikskólar og dagmömmur geta aldrei komið í stað foreldra. Samvera, tjáning, góð næring og hreyfing á fyrstu aldursárunum, skapar þá sjálfsímynd og heilsu sem við viljum að börnin fái í veganesti til framtíðar. Börn þurfa ekki síður að fá að vera heima í rólegheitunum þegar þau eru veik með pestirnar sínar. Ekki að þau fái sýklalyf á skyndivöktunum í þeirri trú að þau komist fyrr í leikskólann. Passa þarf líka betur upp á næringu þeirra, nauðsynlegustu vítamín og tennurnar. Miklar tannskemmdir og endurteknar eyrnabólgur vegna spillingar á sýklaflóru þeirra er mikið okkur sjálfum að kenna og í raun til skammar. Svo hefur allt of lengi verið.

Það er vissulega alltaf von að heilbrigðisyfirvöld sjái ljósið við enda öngstrætisins, þar sem kostnaðurinn er farinn að verða í öfugu hlutfalli við árangurinn í heilbrigðisþjónustunni. Að þau sjái vandamálin í víðara samhengi. Hugmyndafræði heimilislæknisfræðinnar gerir það vissulega og sérfræðingar í heimilislækningum eiga að vera sérþjálfaðir í að leiða teymisvinnu heilbrigðisstarfsfólks og tengja saman mikilvægustu þættina sem hafa áhrif á líkamlega og andlega heilsu skjólstæðinganna. Ekki síst þá sem tengjast fjölskyldunni og vinnunni. Þannig má líka segja að litið sé meira til persónunnar í heild sinni en einstakra sjúkóma sem hún ber hverju sinni. Heilbrigðisyfirvöld geta svo sannarlega sparað mikið og fjárfest vel til framtíðar ef þau nýta sér þessa sérþekkingu vel í grasrótinni.

Við öll, ekki síst foreldrar landsins, eigum skilið að fá tækifæri til að hugsa betur um okkur sjálf og börnin okkar. Líka gamla fólkið. Fá meiri tíma til að vera saman. En við þurfum hjálp frá heilbrigðiskerfinu. Ekkert síður frá fjölþættri þjónustu heilsugæslunnar, en hátæknilækningunum þegar mest liggur við. Ekkert síður félagsráðgjöf og sálfræðihjálp, en hjúkrun og almennum lækningum. Með meiri heildrænni sýn á vanda fólks en verið hefur. Með þeirri sýn og meiri áherslu á atferli mannsins verða væntanlega leiddar fram mestu framfarirnar í læknisfræðinni á næstu áratugum. (styttri útgáfa af greininni var birt í Fréttablaðinu í morgun)

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn