Nú er búið að vera lengi kalt, þurrt og frost flesta daga. „Frýs í æðum blóð“. Nálgumst háveturinn og mesta skammdegið. Allt sem hefur áhrif á líðan okkar, ekki síst skapið. En líka húðina, einkum barna. Þegar húðin þornar í réttu hlutfalli við lækkandi rakastig sem oft er ansi lágt í kuldanum. Þegar í stað gulu sólarinnar, hvíta tunglsins njótum og treystum á hlýju hýbýlin okkar. Eins hreistraðs fisksins úr köldum sjónum, sem umræðan nú snýst um að aðrar þjóðir fái einnig að njóta. „Í fiskiæðum blóð“ þar sem fiskifitan, sérstaklega omega 3 og D-vítamínið, er talin allra meina bót. Fyrir okkar innra og ytra þel.
Börnin eru eins og áður segir viðkvæmust og stór hluti þeirra þurfa á meiri fitu að halda í húðina á þessum árstíma. Til að þau verði ekki líka hreistruð. Mörg eru auk þess með barnaexcema, sem við köllum líka vetrarexcema á veturna. Þegar húðin roðnar og springur vegna þurrks og ofnæmis hverskonar. Kvilli sem stór hluti fullorðinna er líka haldin, fyrir matvælum ýmiskonar og þvottaefnum. Klór, sápum og snyrtivörum. Kannski líka þurr vegna þeirrar staðreyndar að flestir Íslendingar fara mikið í heit böð, jafnvel daglega. Allt húðvandamál sem við sjáum mikið af í heilsugæslunni. Ástand og sjúkdómar sem oft kalla á góðar ráðleggingar. Ekki síst gott mataræði, fisk á diskinn minn, reglulega inntöku á lýsi og D-vítamíni. Jafnvel stundum Penzim húðáburð sem líka er unnið úr þorskinum okkar og frægt er orðið, þó meira til að græða en verja, dags daglega.
Mikilvægast er að forðast þurrkinn í húðinni með góðum rakakremum. Ekki síst í andliti og á vörunum sem oft vilja springa og flagna. Síðan að nota feitari krem yfir, til að viðhalda rakanum sem lengst. Nota t.d. olíur í baðvatn ungbarna og nota aðeins mildar sápur sem eyða síður yfirborðsfitunni. Forðast á hins vegar að nota rakakrem rétt áður en farið er út í frost, en nota þess í stað feitu kremin sem virka sem skjöldur á húðina og ver að frostið nái að bíta eins djúpt. Til dæmis AD vítamínkrem þar sem uppistaðan er gamla góða ullarolían, að viðbættu þorskalýsi og góðu húðvítamínunum. Þegar við erum eins og fiskar á þurru landi.