Föstudagur 16.12.2011 - 10:54 - FB ummæli ()

Hvítir sloppar

Það er alltaf eitthvað sérstakt á döfinni þegar maður klæðist hvítri skyrtu. Tandurhreinni og stífstraujaðri. Tími eftirvæntinga og gleðilegra stunda, en stundum líka sorglegra, meðal kvenna, karla og barna. Þegar við viljum sýna okkar bestu hliðar.

Undanfarna mánuði finnst mér hins vegar margir hafa klæðast hvítum skyrtum af tilefnislausu. Þar sem óeining og óánægjan ríkir og hver höndin er uppi á móti annarri. Og allt annað en sem skiptir mestu máli er dregið fram til að ræða. Stundum til að koma höggi á andstæðinginn og upphefja sjálfan sig um leið. Jafnvel vísað til skoðanakannana máli sínu til stuðnings eða úttekta aðkeyptra erlendra aðila sem sagðir eru hlutlausir. Þar sem niðurstaðan verður yfirleitt í takt við væntingarnar, uppgefnar upplýsingar og mötun. Ekki í takt við það sem oft mestu máli skiptir og allir í raun vita, sem vilja.

Hvað pólitíkina áhrærir að þá hef ég nýlega skrifað pistil um íslensk vetrarævintýr og draumahallir. Stjórnsýsluhættir í raunverulegum höllum er viðkvæmara efni að ræða, enda á maður þar sjálfur allt sitt undir, ólíkt ábyrgðarleysinu í pólitíkinni. Sem einskonar leiguliði sem rækta á heilbrigðisgarðinn, en sem hefur ekkert mikið meira um málið að segja. Í ókunnugum salarkynnum vildi ég gjarna hafa verið boðinn til skrafs og ráðagerða og myndi þá væntanlega mæta í hvítri skyrtu frekar en læknasloppnum mínum. Spariklæðnaði sem annars er aðeins takmarkaður við notkun í samveru með fjölskyldu minni, meðal vina og vinnufélaganna á heilsugæslunni, auk vaktfélaga minna frá öllum skyndivöktunum sem ég kalla stundum hinn íslenska vígvöll. Þar sem oft er grátur og gnístan tanna, og þar sem maður sér ljótustu afleiðingar ofbeldis í þjóðfélaginu öllu.

Sjaldan hefur verið meiri þörf á að ræða vandamál íslenska velferðarkerfisins og hvað sé til úrbóta. Þegar fjármagnið vantar meira en viljann að láta heilbrigðismál og menntamál njóta forgangs yfir aðra málaflokka. Þar sem aldrei er mikilvægara að nota hverja einustu krónu skynsamlega og til að geta fjárfest sem best í framtíðinni. Skipulag á heilbrigðisþjónustunni skiptir höfuðmáli, en sitt sýnist hverjum. Hver höndin upp á móti annarri og oft vandséð að þeir sem best þekkja, fái nokkru um ráðið. Þar sem pólitíkin ræður ríkjum og hollustuvinir sérhagsmunahópa ráða næstmestu, og lítið talað við hina sem reyna að horfa á heildarmyndina. Hið íslenska pólitíska hvítflibbastríð, þar sem kusk á skyrtuflibbanum skiptir engu máli.

Oft klæðist ég hins vegar hvíta sloppinum mínum, þar sem hvíti liturinn á að berskjalda sóðaskapinn fyrir öðrum, ef einhver er. Til dæmis þegar illa er farið með lyfin í flestum lyfjaflokkum, eins og margsinnis hefur verið bent á, en ekki hlustað. Einum dýrasta útgjaldalið heilbrigðiskerfisins og sem mikið hefur verið til umræðu. Þar sem ná má mikið betri árangri einfaldlega með skynsamlegri notkun lyfjanna og betri heilsugæslu. Þegar t.d. koma má í veg fyrir verri heilsu barnanna okkar í framtíðinni með því að draga úr óhóflegri notkun sýklalyfja lyfja sem hefur áhrif á allt þeirra nærumhverfi og bakteríuflóru okkar allra. Í okkur og á. Sama má segja um óhóflega notkun svefnlyfja, bólgu- og verkjalyfja og margra fleiri lyfjaflokka.

Vitað er í vísindunum, að oft er um helmings mun að ræða á notkun flestra lyfjaflokka milli svæða og landa, allt eftir því hvernig heilbrigðisyfirvöld skipuleggja heilbrigðisþjónustuna og hvernig  læknar á hverjum stað standa að málum. Það eina sem raunverulega skiptir máli í þessu samhengi. Spurningin er bara hvort hefur meiri áhrif, markaðsöflin eða gæðin. Í vel skipulagðri heilsugæslu sem getur unnið eftir alþjóðlegum stöðlum eða á sundurlausum skyndivöktum út um allan bæ. Hvort tilvísanir á lyf séu fyrst ogf fremst rafræn í opna gátt sem enginn veit hvað geymir eða augliti til auglits við þann lækni sem best til þekkir.

Á höfuðborgarsvæðinu hefur heilsugæslan verið skilin eftir í kuldanum í marga áratugi eins og margsinnis hefur verið bent á. Nú loks eru einhverjir að vakna upp við vondan draum, þegar  hrun blasir við. Meðalaldur starfandi heimilislækna er um 55 ár og meira en helmingur mun hætta störfum á næstu tíu árum. Þegar í dag vantar upp undir 50 sérmenntaða heimilislækna á höfuðborgarsvæðið eitt og sér og  7 heimilislæknar þurfa að bætast við hópin á ári hverju, bara til að halda í horfinu. Fyrir löngu er orðin allt of löng bið eftir tíma hjá heimilislækni, ef fólk er svo heppið af hafa nokkurn. Er íslenskri þjóð í raun og veru sama um þessa grunnþjónustu sem flestar aðrar þjóðir telja eina þá mikilvægustu í heilbrigðisþjónustunni?

Það lítur þannig ekki vel út hjá þjóð þar sem heilsugæslunni er látin blæða, og það á sjálfu höfuðborgarsvæðinu. Þar sem byggja á upp nýtt og fullkomið hátæknisjúkrahús úr stáli og steinsteypu, í stað þess að tryggja mannauðinn. Hvernig við getum sjálf bætt lífið með smá hjálp og tekist á við mestu heilbrigðisógnir samtímans auk mannlegra tilfinninga, í stað þess að treysta alltaf á skyndilausnirnar á síðustu stundu. Ekki síst í grunnþjónustunni þar sem afskaplega dýrmæt þekking leynist og stjórnvöld geta nýtt sér og bætt, ef viljinn er fyrir hendi.

Það eru blikur á lofti og margir nú skjótráðir með ráð undir rifi hverju. Sumir vilja maka krókinn og telja hiklaust að aðrar heilbrigðisstéttir en læknar geti stundað lækningarnar og ávísað lyfjum. Jafnvel klæðst hvítum læknasloppum. Þess má hins vegar „til gamans“ geta að til er fyrirtæki sem heitir „Hvítir sloppar“ og sem ásamt fleirum fyrirtækjum sérhæfa sig í útflutningi á íslenskri lækisþjónustu til Norðurlandanna, aðallega til Noregs og Svíþjóðar. Þar sem sótst er eftir vinnukrafti þeirra sem læknasloppunum tilheyra í raun, og þar sem veitt eru viðunandi starfskjör og aðstaða eins og menntun lækna hæfir.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn