Mánudagur 19.12.2011 - 16:17 - FB ummæli ()

Förum varlega með Parasetamól

Parasetamól (Panodil) er sennilega til á flestum heimilum landsins. Lyf sem slegið getur á milda verki og er talið öruggasta lyfið við sótthita hjá börnum sem fullorðnum. Eins besta lyfið ef talin er þörf á stöðugri meðferð við slitgigt og vöðvabólgum. Lyf sem gigtlæknarnir mæla með, öðrum gigtarlyfjum fremur (NSAID), sem fyrsta valkosti vegna minni hættu á aukaverkunum og milliverkunum með öðrum lyfjum sem sjúklingar kunna að taka.

En það geta samt sem áður leynst stórhættulegar aukaverkanir ef óvarlega er farið og teknir eru of háir skammtar í einu eða of mikið magn yfir sólarhringinn og sem nú er mikið varað við og endurtekið er í fréttum víða um heim þessa daganna. Lifrarbilun er nefnilega ekki svo óalgeng aukaverkun þegar skammtar eru allt of háir, líka hér á landi. Meira en 8 töflur (4 gr) á dag getur þannig verið banvænn skammtur fyrir fullorðna og mikilvægt er að reikna vandlega út ráðlagða dagskammta fyrir börn sem þurfa á paracetamóli að halda vegna verkja og sótthita. Rétt er að hafa samráð við lækni ef talin er þörf á notkuninni lengi eða spurningar vakna um hærri skammta en ráðlagðir eru á pakkningunni vegna verkja.

Annað eldra lyf sem var mikið notað hér áður í sama tilgangi og parasetamól er notað nú, asperínið gamla og góða, og sem er í dag kallað magnýl, var hér líka til umræðu fyrir stuttu vegna blæðingaráhættu og annarra hættulegra aukaverkana, ekki síst ef notkunin var tengd sótthita hjá börnum. Hins vegar að þá eru um 70% af öllum alvarlegum lifrarbilunum sem leiða til lifrarígræðslu síðar eða jafnvel dauða orsakað af því sem hingað til hefur verið talið saklaust lyf, parasetamól, og sem er það reyndar, ef það er tekið inn í réttum skömmtum. Flestir sem taka lyfið að staðaldri eru hins vegar oft komnir vel til ára sinna og geta auðveldlega ruglast á skömmtunum og því þurfum við sem yngri eru að vara við hættunni. Hugsum því til gamla fólksins í þessu samhengi enda parasetamól lausasölulyf, en sem líka er hægt að fá í stórum pakkningum með lyfseðlaávísun til að taka inn eftir þörfum. Benda má á önnur verkjalyf til að taka með ef nauðsyn kallar, helst þá í samráði við lækni.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn