Miðvikudagur 21.12.2011 - 09:55 - FB ummæli ()

Aðeins hálfur maður

Athyglisverðar greinar hafa verið að birtast á síðastliðnum árum um karlaheilsu og meintan skort á karlkynshormóninu testósteróni. Umfjöllunin var valin sú áhugaverðasta í endurmenntun fyrir heimilislækna á bandaríska vísindavefnum MedScape árið 2011. Sennilega ekki bara vegna ímynd okkar karlmanna sem tengist „testósterón“-hugtakinu sem slíku, heldur allskonar áhættum á fylgisjúkdómum sem gæti tengst testósterónskorti, m.a. alvarlegum æða- og hjartasjúkdómunum. Sýnt hefur verið fram á að með lækkuðu testósteróni aukist líkur á svokallaðri efnaskiptavillu sem á ekkert skylt við aðrar villur í lífinu nema lífernið sjálft. Þannig er meiri áhætta á að fá sykursýki, háþrýsting og króníska lungnateppu. Einnig minna hættulega bólgusjúkdóma, en sem valda langvarandi verkjum hjá körlum, sem síðan kallar á verkjalyfjameðferðir og sem er mikið til umræðu vegna mikillar notkunar verkjalyfja um allan hinn vestræna heim. Ekkert síður hér á landi. Svo ekki sé talað um allan þann vanda sem tengist blöðruhálskirtli karla og óvinum sem þar leynast í skötulíki

Skortur á testósteróni er talinn há allt að 40% karlamanna 45 ára og eldri, hækkandi hlutfall með aldri og misjafnlega mikið eftir búsetu ef marka má hinar ýmsu rannsóknir sem gerðar hafa verið. Stóra vandamálið er mismunandi mæliaðfeðirnar á testósteróni, eftir stöðum og löndum. Ekki er heldur að fullu ljóst, hvort frítt testósterón í blóðinu (testósterón sem ekki er tengt burðarpróteinum ýmiskonar) skiptir meira máli en heildarmagnið. Hvort heldur, sem mæligildið er notað til að meta hugsanlega áhættu á fylgisjúkdómum eða sem ástæðu til inngripa og „uppbótarmeðferðar“. Reikna má hins vegar með að stór hluti einkenna karla sem heimsækir heimilislækni sinn, megi rekja að einhverju leiti til skortseinkenna á testósteróni, þótt í fæstum tilfellum séu skortseinkennin það mikil að þau hafi haft áhrif á t.d. kyngetu, frjósemi eða öðru sem tengist kynhegðun og kynferði (m.a. hárvexti). Galdurinn í dag felst hins vegar að rannsaka þetta samband við hormónið betur, finna réttari viðmið á mæligildunum og finna þá sem eru í mestri áhættu og gagnast hugsanlega hormónameðferð best.

Fyrir rúmlega ári síðan skrifaði ég pistil sem ég kallaði „Hættuleg blanda„. Þar var greint frá niðurstöðu rannsóknar sem var þá nýbirt í læknatímaritinu HEART og sem sýndi að um um 20% karlmanna yfir 60 ára hafðu umtalsvert lækkað frítt testósterón í  blóði. Rannsóknin sýndi verndandi þátt testósteróns gagnvart kransæðadauða hjá karlmönnum sem þegar voru með staðfestan kransæðasjúkdóm. Lágt testósterón og hátt kólesteról virtist þannig sérstaklega hættuleg blanda.

Rannsóknin náði til um 1000 manna sem var fylgt eftir í 7 ár. Dánartíðni þeirra sem voru með lækkað frítt testósterón var um 21% á móti 12% hjá þeim sem voru með eðlilegt frítt testósterón, leiðrétt fyrir öðrum áhættuþáttu,  m.a. hvað varðaði blóðfitulækkandi meðferð. Niðurstöðurnar vöktu upp spurningar hvort í framtíðinni ætti ekki að kanna blóðgildi testósteróns hjá karlmönnum sem eru í aukinni áhættu á að vera með kransæðsjúkdóm, ekkert síður en að mæla kólesterólið sem er vel þekktur áhættuþáttur. Hugsanlega mætti þá gefa þeim kost á testósterón „uppbótarmeðferð“ og minnka dánarlíkurnar um allt að helming.

Höfundar rannsóknarinnar mæltu þó með, að áður en ráðleggingar yrðu settar fram um uppbótameðferð, að gerðar yrðu framvirkar rannsóknir á gagnsemi meðferðar og hugsanlegar aukaverkanir metnar. Aðrar rannsóknir hafa ekki verið framkvæmdar með þessum hætti, en ein rannsókn var kynnt fyrir ári síðan í NEJM sem var þó gerð fyrst og fremst til að meta hugsanlegann bættan vöðvakraft og færni með uppbótameðferð á testósteróni hjá eldri karlmönnum (>65 ára) og sem mældust með lágt frítt testósterón. Rannsókninni var þó hætt fyrr en ætlað var vegna aukinnar dánartíðni af völdum hjartasjúkdóma. Rannsóknin var lítil og orsakaþættir of óljósir til að hægt væri að draga öruggar ályktanir um dánartíðnina. Vöðvakraftur og færni til daglegs lífs jókst hins vegar og sem var megin tilgangur rannsóknarinnar að sýna fram á.

Umræðurnar og niðurstöður síðustu rannsókna eru að minnsta kosti mjög athyglisverðar, þar sem svona stór hluti karla virðist eiga hlut að mikilvægu máli. Spurningar vakna auðvitað, hvort ekki sé þá eitthvað til úrbóta. Íslenski karlmaðurinn hefur oft verið ímynd karlmennskunnar og hreystinnar á heimsmælikvarða, svo maður getur auðvitað vonað að ástandið sé ívið skárra hér á landi en annars staðar. Eins og við höfum svo gjarnan talið okkur trú um á mörgum öðrum sviðum. Síðustu tölur um ofþyngdina lofa þó ekki góðu og sem líka tengist efnaskiptavillum meira en nokkuð annað.

Læknavísindin hafa áður farið í hringi varðandi greiningu og meðferð á hormónaskorti, nánar tiltekið hjá konum. Þar sem þörfin á meðferð með estrógenum var ekki eins mikil og sýndist í byrjun. Þegar lyf voru sett á markað fyrir um tveimur áratugum síðan og gagnast átti flestum konum um og eftir tíðarhvörf og viðhalda æskublómanum. Meðferð sem reyndist úlfur í sauðsgæru og áhætta á hjarta- og æðasjúkdómum jókst í stað þess að minnka. Jafnvel meðferð gegn beinþynningunni stóðst ekki tímans tönn. En gæti annað átt við með okkur karlanna og að við megum þá eiga von á  „uppbótameðferð“ fyrir okkur, þegar á heilsuna og annað hallar? Eins og hjá honum vini okkar Leppalúða sem aðeins er hálfur maður eins og allir vita, og sem við nú hugsum til með hlýju og vonum að gagnist Grýlu okkar vel.

Viðtal um „Karlaheilsu“ Í bítið 19.01.2012

Karlar sækjast í auknum mæli eftir hormónameðferð, Fréttablaðið,  jan. 2005

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn