Föstudagur 20.04.2012 - 15:00 - FB ummæli ()

Hin illkleifu fjöll norðursins

Nú í sumarbyrjun verður manni hugsað til allra fjallanna sem gaman verður að ganga á næstu mánuðina, til að njóta þess að vera til. Sum fjöll í huganum eru hins vegar allt öðruvísi fjöll og aðeins myndlíkingar, hindranir til að takast á við og helst sigra. Ekki síst eiga slíkar líkingar við í þjóðmálunum þar sem vandamálin eru farin að vaxa okkur yfir höfuð. Vandamálafjöll sem við höfum sjálf skapað, en sem eru orðin svo stór að þau eru að verða illkleif fyrir þjóðfélagið. Þar sem engin jarðgöng verða í boði og jafnvel nýtt háskólasjúkrahús leysir ekki vandann. En það eru til ódýrar lausnir, sem kosta jafnvel ekki neitt nema skilning almennings.

Fáar ógnir eru jafn alvarlegar heilsu manna í hinum vestræna heimi í dag og sykursýkin (diabetes mellitus, DM), og sem hefur tugfaldast í tíðni sl. áratugi. Of hár sykur í blóði sem er miklu hættulegri en hátt kólesteról og sem mikið meira hefur verið fjallað um. Sýki sem tengist ofþyngd og hreyfingarleysi ásamt slæmu mataræði meira en nokkuð annað. Eins fátækt og skorti á félagslegum úrræðum. Fjall í öðrum skilningi sem veldur öðru fremur alvarlegustu sjúkdómunum í þjóðfélaginu í dag, svo sem hjarta- og æðasjúkdómum, nýrnabilun, heilablóðföllum, blindu og alvarlegum sýkingum. Sjúkdómum sem ættu í eðli sínu fyrst og fremst af vera aldursbundnir við fullorðna, en sem börn með sykursýkina geta líka fengið. Þegar líkami barna og ungmenna eldist langt fyrir aldur fram og mikil þörf er að ræða frekar. Sem helmingur þjóðarinnar stefnir að fá, innan fárra áratuga að öllu óbreyttu.

Greind sykursýki er líka aðeins eins og toppurinn á ísjaka af miklu stærra vandamáli. Þar sem margfalt fleiri eru ógreindir eða með forstig sjúkdómsins. Talað er um allt að tuttugufalda tíðni miðað við tölurnar sem við sjáum í dag. Aðallega hjá vaxandi fjölda fólks sem á við ofþyngd að stríða og eru komnir með fyrstu einkenni skerts sykurþols, neyta of mikils sykurs og hreyfa sig ekki nóg. Nokkuð sem við í heilsugæslunni sjáum í dag í vaxandi mæli.

Í Bandaríkjunum stefnir hátt í helmingur íbúanna í að verða allt of þungir (með þyngdarstuðull (BMI) >30) á næsta áratug, þar sem hlutfallið er um fjórðungur í dag og Íslendingar virðast næstir í röðinni. Í landi þar sem þyngd fólks er oft í öfugu hlutfalli við fjárhag þess og yfir 25 prósent 65 ára og eldri þegar komnir með sykursýkina. Ástand sem verður aðeins snúið við með alhliða lífstílsbreytingum og félagslegum úrbætum í tíma. Ekkert síður hér á landi þar sem 60 prósent fullorðinna eru of þungir og um fjórðungur barna.

Í hugum margra hefur sykursýkin hingað til fyrst og fremst verið tengd við þann hóp sem er með versta formið, svokallaða Typu 1 og sem er yfirleitt arfbundin og leggst oftar á börn. Þegar brisið einfaldlega framleiðir ekki nóg insúlín og viðkomandi tærist upp nema hann fái insúlín í lyfjaformi til að hafa hemil á blóðsykrinum. Þar sem meðferðin er síðan ævilöng og stöng. Þessi gerð af sykursýkinni er sem betur fer ekki nema örfá prósent af öllum sem greinast með sykursýki hér á landi. Þar sem svokölluð fullorðinssykursýki eða offitusykursýki skýrir yfir 95% af öllum greindum, svokölluð Typa 2. Sykursýki sem er viðráðanlegri ef vilji er fyrir hendi að takast á við og oft hægt að halda niðri með róttækum lífstílsbreytingum, hollu mataræði og góðri hreyfingu. Líka lyfjum í töfluformi, sem oft eru nauðsynleg til að halda verstu einkennunum og blóðsykrinum niðri.

Segja má líka að sykursýkin sé hin illvíga bakhlið offitunnar. Þar sem kílóin eru orðin of mörg fyrir framleiðslugetu brisins á insúlíni og/eða vefir líkamans eru orðnir ómóttækilegri fyrir áhrifum þess. Nokkuð sem tengist líka svokallaðri efnaskiptavillu („metabolic syndrome„) og áður hefur verið fjallað um hér á blogginu mínu. Þegar há sykurgildi og brenglun á blóðfitum leiðir til svæsinna æðaskemmda í flestum líffærum og þú ert oft meira líkur epli en peru í útliti. Oft fyrst skemmdir í viðkvæmustu líffærunum eins og augum, víða reyndar í taugakerfinu, nýrum og hjarta. Þegar í raun lífsnauðsynlegt er orðið að fækka aukakílóunum og forðast sykurinn eins og rauðan eldinn. Skammta síðan fjölbreytt kolvetni með öllum ráðum. Fátt eykur hins vegar meira á næmni vefja líkamans fyrir góðum áhrifum insúlíns á sykurstjórnunina en hreyfingin. Stæltari og betur þjálfaðir vöðvar og góða kólesterolið (HDL) hækkar um leið. Sem hreinsar æðarnar aðeins að innan.

Mestar áhyggjur ber auðvitað af hafa af hratt vaxandi ofþyngd barna og unglinga hér á landi. Sem færa má rök fyrir að tengist mest mikilli neyslu sykurs, aðlalega sykraðra drykkja, auk meiri neyslu sælgætis og aukabita, yfir daginn og langt fram á kvöld. Eins og ákveðin fíkn, sykurfíknAlls drekka Íslendingar um 130 lítra af sykruðum gosdrykkjum á ári hverju og innbyrða að meðaltali sem samsvar um 1 kíló af hreinum sykri á viku, töluvert meira en nokkur önnur Norðurlandaþjóð. Í hverjum 500 ml. af sykruðum gosdrykk er sykurmagn sem samsvarar um 27 sykurmolum eða  54 grömmum af hreinum sykri. Sem er töluvert meira magn og ráðlagt er að hámarki yfir heilan sólarhring (36 grömm fyrir karla, 20 gr. fyrir konur og 12 gr. fyrir börn) samkvæmt ráðleggingum manneldisráða. Ekki er óalgengt að sumir unglingar drekki hins um 2 lítra á dag og sumur mun meiria, sem samsvarar neyslu á yfir 216 grömmum af hreinum sykri. Burt séð frá öðrum óhollum og örvandi efnum eins og coffein, sem gos- og orkudrykkir kunna að innihalda og mikið hefur verið til umræðu að undanförnu.

Ein lítil dós af sykruðum gosdrykk á dag í 20 ár hefur líka sýnt sig auka líkur karla á að fá hjartaáfall um 20%, samkvæmt nýlegri rannsókn og sem var fjallað um hér á blogginu. Áhættan mælist þegar tekið hefur verið tillit til annarra þekktra áhættuþátta svo sem þyngdar, kólesteróls, reykinga og jafnvel greindrar sykursýki. Ein lítil dós af sykruðum gosdrykk (um 36 gr sykurs) er þannig talin getað hækkað blóðsykur það snögglega að það hafi áhrif á meingerð kransæðasjúkdómsins sérstaklega og sem annars myndi þróast hægar. Algengustu hjartaáföllin er bráð kransæðastífla, hjartadrep og hjartabilun sem leitt getur til dauða. Niðurstöðurnar ættu auðvitað að hvetja alla að halda sykurneyslu í lágmarki, sérstaklega hvað sykraða gosdrykki varðar. Jafnvel þótt þeir séu grannir og hreyfi sig reglulega. Munum líka að mikil fíkn í sykur í dag getur leitt til sykursýki á morgun, orsök og afleiðing af sama meiði ásamt offitunni og hreyfingarleysinu.

Há tíðni sykursýki í offitufaraldrinum sem nú gengur yfir hinn vestræna heim og allt stefnir í að versni tugfalt að öllu óbreyttu, mun kollvarpa hugmyndum manna um auknar meðallífslíkur. Þess í stað draga líkurnar verulega niður. Fjöldi sjúklinga með alvarlegar afleiðingar sykursýkinnar mun verða heilbrigðiskerfinu ofviða og draga úr gæðum þess. Ekki síst til að sinna mörgum viðfangsefnum sem við teljum svo sjálfsögð í dag. Þegar kostnaðurinn verður einfaldlega kominn langt upp fyrir þau mörk sem við ráðum við. Það er nú okkar og heilbrigðisyfirvalda að snúa við blaðinu. Meðal annars með vel upplýstri umræðu, fræðslu og aðgerðum. Þarna eru gríðarlega mikil sóknartækifæri til að bæta heilsu landans og spara miklar fjárhæðir í heilbrigðiskostnaði þegar fram líða stundir.

Í gær, á sumardaginn fyrsta, gekk ég á lítið fjall eins og svo oft áður, réttara sagt aðeins fell en samt fjallið mitt, Úlfarsfell. Í smá norðannepju en björtu og fallegu veðri. Gangan var örlítið erfiðari en oft áður, enda margar vikur síðan ég gekk síðast á fjallið. Það sem var þó sérstaklega gleðilegt við gönguna var allur sá fjöldi göngufólks sem ég mætti á leiðinni og sem var í sömu erindagjörðum og ég. Á fjórða tuginn á öllum aldri, hver á sinni leið og á sínum hraða. Á fjalli inni í sjálfri höfuðborginni, en sem venjan er þó að hitta í mestalagi aðeins einn eða tvo. Vonandi fyrirboði nýrra tíma í fjallgöngum framtíðarinnar.

http://www.cbsnews.com/video/watch/?id=7403942n

http://ruv.is/frett/24000-bretar-deyja-ur-sykursyki

Diabetes Epidemic on ‘Relentlessly Upward Trajectory’

http://news.bbc.co.uk/2/hi/health/7151813.stm

http://www.cdc.gov/diabetes/pubs/estimates11.htm#2

http://www.ruv.is/frett/offita-samfelagslegt-vandamal

http://visir.is/olettar-konur-allt-ad-180-kilo-/article/2011111029587

Ein feitasta þjóð í heimi, Stöð 2 29.10.2011

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn