Það er tímabært að kveðja Afríku í þetta sinn. Eins að þakka öllum samferðamönnum okkur hjónana fyrir frábæra samveru í heila viku og ferð um ókunnugar slóðir í Atlasfjöllunum. Einnig Íslensku fjallaleiðsögumönnum fyrir að skipuleggja þessa ferð fyrir okkur, Jóni Gauta Jónssyni og Hamid sem var aðal leiðsögumaðurinn okkar í Marokkó og helsti tengiliður við heimamenn. Ferðin var ógleymanleg og ómetnalegt vítamín fyrir komandi vetur og seinni tíma.
Það þarf margt að ganga upp til að 18 manna gönguhópur komist á alla áfangastaðina sína í um 100 kílómetra hringferð um Atlasfjallgarðinn á 6 dögum. Þar sem gengið er um erfiðar fjallaslóðir og heildarhækkunin eru rúmlega 7000 metrar. Í hóp sem þarf að ná vel saman og deila öllu sameiginlegu frá morgni til kvölds. Í framandi menningu og við nýja ólíka siði. Ekki síst þar sem veðurfar er ólíkt því sem við eigum að venjast og þunna loftið og sólin reynir óneytanlega á þolið. Einkum þegar komið er yfir 3000 metra hæð og yfir brött fjallaskörð að fara þar sem veður geta verið mislynd. Í brennheitri sól eða frosti, dagsbirtu eða myrkri, jafnvel að nóttu þar sem treysta þarf á höfuðljósin. Eins jafnvel að sofa af sér Saharasandsorm í tjöldum sem geta alveg eins fokið út í buskann. Meira getur ævintýrið á framandi slóðum vart orðið og þar sem maður um leið fær að kynnast aðeins nýrri menningu sem áður var manni svo framandi og manni jafnvel stóð uggur af. Slíkir geta fordómar okkar verið í garð annarra þjóða.
Ferð sem þessi hefði heldur aldrei verið möguleg nema vegna frábærs fylgdarliðs Berbanna átta og múlasnanna þeirra. Sem að lokinni ferð voru orðnir vinir okkar allra. Traust fylgdarlið sem fylgdi okkur eins og skugginn alla leiðina og fluttu allan varning og tjöld, nema það sem við tókum með til dagsins í bakpokanna okkar. Berbar sem síðan elduðu dýrindis marokkóískar máltíðar í hádeginu sem á kvöldi við náttstað. Sem gáfu okkur mintute á daginn og kamillute fyrir háttinn. Drengirnir og karlarnir sem voru allan tíman svo glaðlyndir og tilbúnir til að hjálpa ef eitthvað á bjátaði.
Auðvitað verður maður var við fátækt í ferð sem þessarri, ekki síst í fjallaþorpunum og þar sem allt verðlag miklu lægra en við eigum að venjast. En menningarheimarnir eru ólíkir og því oft erfitt að bera saman kjör. Samkennd og samstaða ásamt ótakmörkuðum heiðarleika skein að minnsta kosti af andlitum flestra íbúanna. Ekkert síður af andlitum kaupmannanna á markaðstorginu í Marraches sem venjan er að prútta við og komast að sameiginlegri niðurstöðu sem báðir aðilar sætta sig vel við. Kveðjustundin í seinni fjallaskálanum við Toubkaltind og síðar í Marraches bar vinsemd Berbanna best vitni og sem endurspeglaðist í faðmlögum við okkur af þeirra sið. Ekkert síður kveðjustundin í kvöldverðinum með honum Hamid. Tilvonandi Íslandsvini sem ætlar vonandi að heimsækja okkur á Frón einhvern daginn og kynnast betur úr hverju íslenski hópurinn er gerður og hvar sameiginlegar rætur liggja.
Sennilega er samt rétt að spyrja nú, og heiðursmennirnir mættu hafa gert sem myndin er af hér að ofan og sem voru að hlaða á bílinn sinn í höfuðborginni Marraches þegar við vorum á heimleið. Hvort ekki væri betra að fara frekar fleiri ferðir en eina?