Miðvikudagur 10.10.2012 - 18:50 - FB ummæli ()

..sem ærir okkur öll.

Ég vil byrja á að óska öllum geðsjúkum og aðstandendum þeirra til hamingju með baráttudaginn, Alþjóðageðheilbrigðisdaginn, 10. október 2012. Fyrir betri skilningi stjórnvalda á vandamálum geðsjúkra svo og betri meðferð sjúklinga. Hvort heldur er með aðstoð geðlækna og sálfræðinga, lyfjameðferðar eða bættum aðbúnaði á sjúkrastonunum. Allt svið sem betur má bæta í dag, svo og tryggingarmál geðsjúkra og almenn réttindi.

Það mál sem ég vil hins vegar sérstaklega skrifa um í þessum pistli er ástandið sem ríkir hér á landi og varðar öryggi lyfjaávísana á geðlyf svo og lyfjameðferðir almennt. Eins oft alvarlegan skort á nauðsynlegustu lyfjum. Mál sem standa miklu verr hér en í nágranalöndunum.

Fyrst ber að nefna ófremdarástand er ríkir og varðar umhald og eftirlit með lyfjaávísunum í svokallaðri lyfjagátt apótekanna þangað sem flestir lyfseðlar fara rafrænt frá læknum. Þar sem enginn læknir getur séð hvað aðrir læknar hafa ávísað í og sem er grundvöllur öruggrar lyfjameðferðar og eftirlits. Ekki síst hjá öldruðum og geðsjúkum. Ekki síst ávísunum sem löngu er búið að ávísa í og hvaða lyf hafa verið leyst út frá hinum mismundi læknum og hvenær. Þar sem engar upplýsingar liggja fyrir í sjúkraskrám sem ekki eru samtengdar. Þar sem sami einstaklingur getur verið að fá sama lyfið frá mörgum læknum, jafnvel undir ólíkum heitum. Þar sem enginn virðist ábyrgur hvað sjúklingurinn tekur inn að lokum og sem býður jafnvel upp á misnotkun annarra en sem eiga að fá lyfið. Eins að lyf sem liggja í gáttinni séu ekki tekið inn af misgáningi við allt öðrum vandamálum en ætlast er til og dæmin sanna. T.d. getnaðarvarnartöflur í stað sýklalyfja við sýkingum. Eins má nefna stöðugar breytingar á lyfjaheitum eftir mismunandi framleiðendum sem afgreidd eru hverju sinni og sem meðal annars orsakast af endalausum breytingum á greiðsluþáttöku Sjúkratrygginga eftir því hvað lyf er ódýrast hverju sinni.

Það er einnig alvarlegt þegar lyf eru fyrirvaralaust tekin af markaði, einfaldlega vegna þess að lyfjainnflytjandinn græðir ekki nóg og engin ný lyf koma í staðinn. Gömul og góð lyf sem hafa verið á markaði áratugunum saman og flestir þekkja. Þegar skrifa þarf hins vegar í vaxandi mæli á allskonar undanþágulyfseðla fyrir sambærileg lyf erlendis frá, og sem ekki eru lengur með markaðsleyfi á Íslandi, enda innflytjandinn enginn. Eins þegar skrifræðið kallar á að skrifa þurfi upp á sérstakt lyfjaskýrteini fyrir gömul góð og ódýrt geðlyf eins og Nozinan, eitt algengasta lyfið sem gefið er m.a. við algengum svefntruflunum og vefjagigt. Bara vegna þess að það fellur undir flokk með miklu dýrari lyfjum.

Mörg lyf vantar á Íslandi þessi misserin, til lengri og skemmri tíma og þar sem engin lyf koma í staðinn. Í sumar vantaði t.d. propranolol sem margir taka fyrirbyggjandi vegna hjartsláttatruflana og mígreni. Lyf sem hefur vantað í marga mánuði og margir tekið afleiðingunum. Eins má segja með augnsmyrsli sem notuð eru við alvarlegar augnsýkingar og slys (Chloromycetin). Jafnvel steradropa sem nota á í augu við alvarlegum bólgum, en sem fást ekki nú nema með rotvarnarefnum sem sumir þola alls ekki. Allt kostar þetta auk mikla fyrirhöfn og aukið skrifræði hjá læknum.

Áður hef ég skrifað að löngu er tímabært vegna reynslu sl. ára, að heilsugæslan og jafnvel í samstarfi með sjúkrahúsunum panti beint inn nauðsynlegustu lyfin og selji. Hugsanlega ætti jafnvel að endurstofna Lyfjaverslun Ríkisins með þetta að markmiði. Eins er löngu tímabært að breyta lögum og reglugerðum þannig að læknar sem sinna sjúklingum fá aðgang í lyfjagagnagrunni apótekanna og sjái þá hvað hefur verið ávísað til sjúklings og hvaða lyf hafa verið tekið út og hvenær. Í dag, er hins vegar aðeins verið að vinna að breytingum með nýrri reglugerð sem snýr að aðgangi lækna í Lyfjagagnagrunn Landlæknis til að auðvelda eftirlit með notkun sterkari geðlyfja, róandi lyfja og verkjalyfja. Að gefnu tilefni vegna sögu um vaxandi lyfjamisnotkun sumra og mikið hefur verið í fréttum sl. ár, en þar sem sennilega er byrjað á vitlausum enda.

Því má með sanni segja að helsta hagsmunamál allra sjúklinga á Íslandi í dag, eigi mikla samleið með einu helsta hagsmunamáli geðsjúkra. Sem er lyfjaöryggið og sem er langt í frá að vera nógu gott í dag. Á alþjóðadegi geðsjúkra á Íslandi og sem ærir alla.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn