Föstudagur 27.05.2011 - 17:09 - FB ummæli ()

Opið upp á „gátt“

Rafræna „gáttin“ er aðgangur fyrir rafræna lyfseðla til apótekanna. Sérstök gátt sem hægt er að leggja inn lyfseðla gegnum tölvu sem sjúklingarnir einir geta síðan sótt í með aðstoð lyfjafræðings í apóteki. Einskonar rafrænn banki sem geymir útgefnar lyfjaávísanir í allt að ár og engin hefur yfirlit yfir nema sjúklingurinn sjálfur, ef hann þá á annað borð hefur vit á og veit hvað hann hefur fengið frá hverjum og einum lækni, hvað hann hefur tekið út áður og hvað getur beðið betri tíma. Sumir lyfseðlarnir sem sendir eru, eru nefnilega líka fjölnota, gilda í allt að ár.

Það þarf ekki auðugt ímyndunarafl að sjá hvaða glundroði getur skapast með þessu fyrirkomulagi. Ekki síst hjá gömlu fólki sem t.d. hefur farið til margra lækna. Gamalt fólk sem tekur mörg lyf og enginn einn læknir hefur einu sinni heildarsýn yfir. Heimilislæknir hefur t.d. bara yfirsýn yfir þau lyf sem hann sjálfur hefur ávísað á eða aðrir læknar sem vinna á sömu stofnun. Hvað aðrir læknar úti í bæ hafa gefið út veit hann ekkert um, nema í þeim fáu tilfellum þegar læknabréf berast honum. Til að flækja þetta enn meira að þá er oft sama lyfið til og afgreitt undir mismunandi heitum enda er alltaf er verið að breyta verðlagningu lyfja og ódýrasta samheitalyfið gjarna valið hverju sinni.

Ekki er óalgengt að gamalt fólk taki þannig sama lyfið undir mismunandi heitum, í mörgum skömmtum á jafnvel sama tíma. Þannig verða lyfjaskammtarnir auðvitað allt of stórir og hætta á aukaverkunum stóreykst. Eins geta verið um að ræða alvarlegar milliverkanir á milli lyfja sem læknar ávísa ef þeir vita ekki hvaða önnur lyf sjúklingarnir taka á sama tíma, eða réttar sagt þeir gera ekki ráð fyrir að séu til staðar í lyfjaumhverfi sjúklingsins. Stundum á inntakan auðvitað líka aðeins við varðandi ákveðin tímabundin veikindi. Að taka út lyfið síðar þegar viðkomandi er batnað á auðvitað ekki við. Dæmi er nefnilega um að fólk taki út lyf sem lá í gáttinni frá fyrri tíma í góðri trú að það sé við nýja kvillanum. Allt ein endalaus vitleysa.

Hætt er við að sjúklingar sem á annað borð misnoti lyf, safni í gáttina lyfseðilsafgreiðslum frá eins mörgum læknum og þeir geta. Lyfjagagnagrunnur Landlæknis nær aðeins yfir heildarmagn útleystra lyfja sem eru undir sérstöku eftirliti. Apótekin geta ekki séð hvað hin eru búin að afgreiða, aðeins það sem liggur inni í rafrænni bið hjá þeim og í allsherjar „gáttinni“. Það hljóta allir að sjá að þetta kerfi býður hættunni heim um misnotkun og allsherjar rugl, ekki síst þegar gamalt fólk á hlut að máli. Öryggi sjúklinga og almennings er þannig stefnt í mikla hættu.

Skyndilausnir og afgreiðslur hingað og þangað veldur líka því að heimilislæknirinn fær ekki heidarsýn á lyfjanotkun eins og ætti að vera og er varðandi sjálfa sjúkdómana í sjúkraskránni. Heimilislæknirinn á nú einu sinni að kallast gæsluvörður sjúkraskráarinnar. Persónuverndarsjónamið standa hins vegar í veginum fyrir að hann fái þessar upplýsingar, eins og úr sjálfri „gáttinni“. Gátt er auðvitað ekki gátt nema hægt sé að kíkja að minnsta kosti inn fyrir. Að minnsta kosti fyrir þá sem eiga þangað erindi. Annars er um gildru að ræða, meðal annars fyrir aðila sem nýta sér sakleysingjana eins og Hans og Grétu. Okkur heilbrigðisstarfsfólkið.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn