Föstudagur 27.05.2011 - 09:45 - FB ummæli ()

Það sem er gott, ekki síst fyrir karla.

coffee-beans1-e1306428214941Hvað er betra en góður kaffibolli á morgnana. Uppáhellingin sjálf er sem morgunbæn fyrir góðum degi og ilmurinn gefur fyrirheit um að draumarnir geti jafnvel rættst. Fyrir utan að vakna kemur kaffið blóðinu til að renna betur gegnum æðakerfið, þótt eflaust hækki blóðþrýstingurinn eitthvað aðeins tímabundið. En hvað segja vísindin og getur verið að þetta „lyf“ sem flestir neyta sé „allra meina bót“?

Sennilega ekki, en margar rannsóknir benda þó til að í hæfilegu magni bæti kaffi (koffein) heilsuna á ýmsan hátt. Jú, kaffið örvar aðeins hjartsláttinn og hækkar aðeins blóðþrýstinginn tímabundið, en ef viðkomandi er ekki sérstaklega viðkvæmur fyrir þeim áhrifum kemur það ekki að sök. Getur eins og áður segir bara virkað jákvætt og örvað aðeins það sem við reynum oft of lítið á. Hjartað og blóðrásina. Svona eins og að hreyfa sig aðeins meira í dagsins önn í kyrrsetunni. Reyndar ef fólk er óvant kaffidrykkju að þá getur borið á „aukaverkunum“ ef hratt er drukkið, hjartslætti, höfuðverk, ógleði og jafnvel kvíða eða spennu. Hjartveikir og fólk með háan blóðþrýsting skyldu líka alltaf fara varlega í kaffidrykkjunni.

Rannsóknir hafa hins vegar sýnt fram á að konur sem drekka reglubundið 6 bolla eða meira af kaffi á dag séu ekkert líklegri að þróa með sér háþrýsting síðar en þær sem drekka minna  (American Journal of Clinical Nutrition). Ég man reyndar alltaf eftir viðtali við gamla konu frá Rússlandi sem ég sá í erlendum fréttum fyrir nokkrum árum og sem var þá talin elsta konan í heiminum. Hún þakkaði langlífinu aðllega mikla kaffineyslu allt sitt líf og að kaffið væri allra meina bót! Hún hefur örugglega haft eitthvað til síns mál, sú gamla.

Læknavísindin hafa líka sýnt að reglubundin og hófleg kaffineysla minnki líkur á að fá ýmsa sjúkdóma svo sem Parkinsonsjúkdóm, áunna sykursýki, langvinna lifrarbólgur og jafnvel hjarta- og æðasjúkdóma tengt æðakölkun. Ekki nóg með það, heldur eykur kaffið brennsluna í líkamanum og heldur þá væntanlega aðeins niðri kílóunum og offitunni, faraldri okkar Íslendinga númer eitt. Koffein sýnir sig líka skerpa athyglisgáfuna sem okkur Íslendingum veitir heldur ekki af. Annað gildir á kvöldin því kaffineysla þá getur truflað svefninn á nóttunni, jafnvel í litlu magni.

Rúsínan í pylsuendanum eru þó niðurstöður nýrrar rannsóknar sem náði til um 50.000 karlmanna allt frá árinu 1986 (Health Professionals Follow-up Study) og sem birtar voru í síðustu viku í J Natl Cancer Inst. er sýndu að kaffi verndar fyrir algengasta krabbameininu hjá okkur körlunum, nánar tiltekið krabbameini í blöðruhálskirtli. Krabbamein sem flestir karlar vilja sem minnst vita af enda lækning oft erfið og ávinningur meðferðar tvísýnn. Reglubundin kaffineysla sem samsvarar um 6 kaffibollum á dag sýnir sig minnka líkur á að fá krabbameinið um 18% en um heil 60% að fá illvíga formið sem leitt getur til dauða fyrir aldur fram. Það er stór ávinningur og spurning hvort ýmislegt annað hangi þá ekki á spýtunni varðandi kaffi og krabbamein almennt.

Sum efni úr náttúrunni eru heilsusamleg og má jafnvel nota sem lyf, önnur ekki. Kaffi er sennilega eitt örfárra örvandi efna sem við eigum að leyfa okkur að neyta enda ekkert sem sýnir fram á skaðsemi, ef neyslan er hófleg. Ekki má þó auðvitað gleyma öllu öðru sem miklu hollara er frá henni móður náttúru og sem hefur sýnt sig geta heft þróun krabbameins, ýmiss afoxunarefni og ljósefni sem finnast í rauðu tómötunum okkar og öðru grænmeti, ekki síst gagnvart krabbameini í ristli og blöðruhálskirtli. Þar sem hins vegar steiktur matur og brasaður, reyktur og mikið kryddaður eykur líkurnar. Því er einmitt gott að neyta einhvers til mótvægis sem okkur finnst líka gott.

Vara ber hins vegar við mikilli neyslu koffeins í neyslu drykkjavörum barna og sem eru hvað vinsælastar í dag en að sama skapi óhollar. Fita börnin og skemma í þeim tennurnar. Í hálfum líter af gosdrykk eins og kóki eru upp undir sama magn koffeins og í 3 kaffibollum. Börn þurfa auðvitað síður á örvandi efnum að halda en fullorðið fólk og getur þvert á móti truflað einbeitingu þeirra og samskipti við önnur börn. Einnfjórði kaffibolli sem fylltur er síðan með mjók og smá sykri skaðar þó varla nokkurt barn, eða þannig var það að minnsta kost ekki í sveitinni minni þar sem notaður var jafnframt kaffibætir.

Kaffið virðist henta okkur Íslendingum sérstaklega vel fyrir margra hluta sakir. Þó ekki væri nema til að ná úr okkur hrollinum, vakna betur og halda okkur vakandi í baráttu lífsins. Ekki síður okkur til heilsubótar, gegn kvillum sem nú sliga þjóðina og er öllum til ama. Gegn angurværð og einsemd og sem stuðlar að betri og fleiri samverustundum með vinnufélögunum og fjölskyldu. Þar sem samskiptin eru oftast góð og góðar hugmyndir verða til. Eitthvað sem er þó leyfilegt að njóta í þessum heimi, hressir mann og kætir.

Sjá grein í dag í the Guardian http://www.guardian.co.uk/lifeandstyle/2013/jul/13/change-your-life-coffee-creativity

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · heilbrigðismál · Lífstíll

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn