Það eru vissulega gleðilegar niðurstöður að eitthvað skuli draga úr algengi tóbaksreykinga hér á landi og fram kemur í nýrri skýrslu Landlæknisembættisins sem kom út í gær. Tóbaksreykingar Íslendinga 15-89 ára minnkuðu þannig úr 14.3% 2011, niður í 13.8%, 2012. Vegna skrifa minna áður um bann á sölu munntóbaks á síðasta ári og sem fyrirhugað er í framtíðinni (m.a. sænska snusinu), er rétt að líta nánar á þann hóp sem reykir mest og sem einmitt er sami hópurinn og notar mest af „munntóbaki“ undir vör. Svo einkennilega vill til að orðið hefur vart við yfir 10% aukningu í tóbaksreykingum í þessum hóp karla og sem mælist nú um 22%, á sama tíma og dregið hefur verið úr sölu munntóbaks með sölubanni á árinu 2012. Á myndinn hér að neðan sem einnig er úr skýrslunni má sjá að neysla munntóbaks í þessum aldurshópi karla er um 18% og sem hefur minnkað umtalsvert frá árinu áður, ekki síst ef einnig er litið til aldurshóspsins þar fyrir neðan, 15-19 ára. Aukin neysla á skaðlegra reyktóbaki í stað minni neyslu á skaðlausara munntóbaki.
Þetta eru óvæntustu tíðindin í þessari annars ágætu skýrslu, og sem leiðir enn og aftur hugann að því hvort ekki væri betra að leyfa sölu í það minnsta á stöðluðum og veikari munntóbakspakkningum eins og sænska snusinu, í þeirri von að færri ungir karlmenn byrji að reykja og sem góð reynsla er af í Svíþjóð.
Eins, og sem er ekkert síður mikilvægt í þessu samhengi, að stuðlaða að minni sölu á hættumesta munntóbakinu,„íslenska ruddanum“. Íslenska neftóbakinu sem er notað í dag sem munntóbak meira en neftóbak og sem étur upp munnslímhúðirnar, enda ekkert annað að hafa við ríkjandi aðstæður og ekki stendur til að breyta.