Mánudagur 28.01.2013 - 21:20 - FB ummæli ()

„Þeir hæfustu munu lifa“

Hér vil ég reyna að gera grein fyrir miklu mikilvægara málefni en Icesave dómsúrskurðinum sem við nú gleðjumst yfir, en hefði aldrei ráðið endanlegum úrslitum um afkomu okkar hvort sem er. Stundum erum við líka heppin og forsjónin okkur hliðholl, jafnvel þótt við höfum farið illa að ráði okkar. Í dag fögnum við sigri, en svo þarf ekki alltaf að verða.

Sýkla og gerlaheimurinn á jörðinni er billjónsinnum stærri en heimur mannanna, jafnvel þótt hver mannsfruma sé meðtalin. Það er mikil óskhyggja að láta sig dreyma um að ráða yfir þeim heimi öllum. Þar sem lögmálið gildir að þeir hæfustu komast frekar af, eins og í dýra- og jurtaríkinu öllu. Hvað sem öllum efnum og úrræðum sem maðurinn kann að finna upp á, og sem hann beitir því miður oft óskynsamlega.

Heilbrigðisyfirvöld víða um heim hafa nú einna mest áhyggjur af þróun vaxandi sýklalyfjaónæmi helstu sýkingarvalda mannsins og sem minnst var á í pistli Egils Helgasonar um helgina, í tilefni skrifa í heimspressunni að undanförnu. Eins hér á blogginu mínu á Eyjunni oft áður, en reyndar fyrst hér á landi í mogganum fyrir 60 árum síðan. Í yfir 80 ár höfum við haft góð vopn, sýklalyfin, gegn þessum helsta óvini mannsins, bakteríusýkingunum. Þökk sé læknavísindunum og sem lengt hafa þannig meðalaldur mannsins meira en nokkuð annað. En vopnin hafa verið ofnotuð og eru því mörg hver hætt að bíta. Á sama tíma og okkur hefur þó orðið vel ágengt með varnir gegn veirusýkingum og ýmsum drepsóttum með tilkomu bóluefna og sem herjuðu á okkur á öldum áður. Bóluefni sem nú eru líka farin að gagnast í vörnum gegn sumum algengum bakteríusýkingum, en því miður ekki nærri öllum, og oft aðeins tímabundið.

Í raun hafa engin tímamóta sýklalyf til almennrar notkunar komið fram í meira en 40 ár, og það styttist óðfluga að við nálgumst þann veruleika sem var fyrir tilkomu sýklalyfjanna og þriðjungur dó sem fékk t.d. slæma lungnabólgu. Í dag þurfa þannig þúsundir barna á Íslandi hæstu skammta af sýklalyfjum gegn venjulegum eyrnabólgum, og jafnvel sterkustu sýklalyf sem völ er á í æð eða vöðva á sjúkrahúsi til að ráða niðurlögum sýkinga sem vel gekk að meðhöndla heima með mixtúrum í venjulegum skömmtum fyrir ekki svo löngu síðan.

Vandamálið sem skýrir ofnotkun sýklalyfja er helst að við notum þau allt of oft og af litlu sem engu tilefni. Helmingur af framleiðslu sýklalyfja fer auk þess til landbúnaðar og akuryrkju, þar sem þau hafa síðan áhrif á alla nærliggjandi sýklaflóru, þar á meðal mannsins. Þannig sýnir t.d. ein rannsókn að stór hluti danskra svínabænda bera svokallaða MÓSA í nefi. Eins er vitað að í um helmingi tilfella eru sýklalyf notuð gegn veirusýkingum þar sem þau virka alls ekkert, og gegn vægum bakteríusýkingum þar sem þau eru oftast óþörf. Þvert á móti geta þau í vissum tilfellum aukið á sýkingatilhneyingu af völdum annarra sýkla í framhaldinu og sem koma þá í staðinn í flóruna okkar. Síðan auðvitað vaxandi útbreiðsla sýklalyfjaónæmra stofna sem halda velli eftir hvern einasta sýklalyfjakúr.

Gerlar og bakteríur í okkur og á eru tífalt fleiri en frumur líkamans. Ungbörn eru sérstklega viðkvæm fyrir röskun á eðlilegri bakteríuflóru í þörmunum meðan ónæmiskerfið þeirra er að þroskast. Flóran ver auk þess okkur alltaf að vissu marki fyrir bólfestu óvinveittari sýkla frá umhverfinu og sem styrkja má með góðu fæði, nauðsynlegum vítamínum og probiotics. Fæðubótaefni í stöðlum lækningaskömmtum sem gerir þveröfugt á við sýklalyfin (antibiotics) og styrkir flóruna okkar í stað þess að eyða. En síðast og ekki síst viljum við geta treyst á vísindin, öflug og örugg sýklalyf þegar mest á reynir í lífinu.

Ég hef mest skrifað um sýklalyfjaónæmi helstu sýkingarvalda barnanna okkar hér á landi sl. tvo áratugi, enda rannsóknarefni mitt í meira en áratug. Barnanna sem erfa munu landið. Árangur rannsókna sem ég vann ásamt félögum mínum og hefur síðan verið vitnað til í hundruðum vísindagreina um allan heim, en sem minna er litið til af heilbrigðisyfirvöldum hér heima. Sláandi samhengi var þannig sýnt fram á milli mikillar og oft ónauðsynlegrar sýklalyfjanotkunar barna og dreifingar sýklalyfjaónæmra stofna (pneumókokka) sem borist höfðu til landsins. Eins og annarra landa, en sem náðu að blómstra hér hér á landi ólíkt því sem gerðist í löndunum í kringum okkur og þar sem sýklalyfjanotkunin er miklu minni. Reyndar ekki aðeins einn faraldur sem við fylgdum eftir yfir 10 ára tímabil (af stofni 6B), heldur síðar líka öðrum á síðustu árum (af stofni 19F). Miklu meiri faraldsfræðilegur vandi en sem við Íslendingar viljum oft meina að skýrist bara af óheppni eða tilviljun.

Í rannsóknum okkar félaganna var einnig sýnt fram á að að stór hluti heilbrigðra barna á landinu báru sýklalyfjaónæma stofna (pneumókokka). Hlutfall sem margfaldaðist fyrstu vikurnar eftir hvern einasta sýklalyfjakúr. Á höfuðborgarsvæðinu báru þannig meira en helmingur allra barna slíka sýklalyfjaónæma stofna eftir sýklalyfjameðferð sem erfitt gæti verið að meðhöndla með hefðbundnum sýklalyfjum í venjulegum skömmtum. Ef barn sýktist af þessum sömu stofnum, t.d. í eyrum, skútum eða lungum.

Vandi okkar hér á landi liggur fyrst og fremst í verklagi heilbrigðisþjónustunnar sem margoft hefur verið bent á. Þar sem megináhersla þjónustunnar er lögð á vakt- og skyndiþjónustu í stað heildstæðrar gæðaþjónustu vegna lýðsjúkdómanna. Algengustu heilbrigðisvandamálin eins og t.d. loftvegasýkingar sem eru yfir 20% orsök allra koma til vaktþjónustunnar úti í bæ og yfir 80% orskakra komu barna í sömu erindagjörðum. Í raun er talið að yfir 50% ástæðna allra komu barna til heilbrigðisþjónustunnar sé tengt eyrnabólgu eingöngu. Þjónustu sem okkur ætti að vera vel trúandi fyrir og er varðar stærsta einstaka heilbrigðismál barnanna okkar.

Í allt of mörgum tilfellum fær skjólstæðingur sýklalyf við vandamálum sem tengist vægum öndunarfærasýkingum og jafnvel bólum, og ekki er hægt að fylgja alþjóðlegum gæðastöðlum varðandi lyfjaávísanir almennt talað. Þegar meirihluta erinda sem eiga heima í heilsugæslu og bjóða á upp á fræðslu og eftirfylgd í stað skyndiúræða eins og sýklalyfjaávísana, er sinnt á skyndivöktum. Ekki síst á sjálfu höfuðborgarsvæðinu þar sem vaktþjónustan þarf að vera margföld á kvöldin miðað við það sem þekkist í nágranalöndunum vegna undirmönnunnar í heilsugæslunni á daginn. Alverlegur skipulagsvandi sem margsinnis hefur verið bent á sl. áratugi, en lítil viðbrögð verið við af hálfu heilbrigðisyfirvalda og sem lítið hafa viljað hlustað. Svo virðist að láta eigi enn frekar reyna á lögmál Darwins, að þeir hæfustu munu lifa („Survival of the fittest„).

Flokkar: Óflokkað · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn