Þar sem einkarekstur í heilbrigðiskerfinu er mestur meðal OECD ríkjanna, í Bandaríkjunum, og meðalkostnaður á hvern íbúa hæstur, er mestur ójöfnuður í lífslíkum milli fátækra og ríkra. Þetta er m.a. niðurstaða vísindagreinar sem birtist í JAMA, tímariti bandarísku læknasamtakanna fyrir nokkrum dögum og sem var gerð til að kanna þróun heilbrigðis hjá bandarísku þjóðinni á sl. áratug og til að fá samanburð á heilbrigðisástandinu við önnur vestræn ríki. Niðurstöðurnar megum við nú hugleiða varðandi dagdrauma sumra um aukinn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu, jafnvel sjálfri heilsugæslunni og sem rætt var um í síðasta pistli.
Íslendingar skipa efsta sætið í lífslíkum OECD þjóðanna árið 2010 en Bandaríkin hafa fallið niður um 5 sæti frá aldarmótum og skipa nú 28 sætið. Dánartíðni vegna hvítblæðis, heilablóðfalla, skorpulifur og umferðaslysa er til að mynda lægst á Íslandi (1) eins og meðfylgjandi mynd úr greininni sýnir í samanburði við hinar OECD þjóðirnar. Alzheimer sjúkdómurinn og nýrnakrabbamein hins vegar því miður mun algengari sem dánarorsök hér á landi en í hinum OECD ríkjunum.
Það er til mikils að vinna að geta varið lýðheilsuna okkar með enn betra skipulagi heilbrigðismála en verið hefur á síðustu árum, ekki síst þegar blikur eru á lofti með miklar kerfisbreytingar í átt til aukinnar einkavæðingar og þegar peningarnir eru af skornum skammti. Greinin í JAMA bendir á víti til að varast í þessum efnum fyrir aðrar þjóðir.
http://jama.jamanetwork.com/article.aspx?articleid=1710486
http://www.visir.is/notum-thjonustu-serfraedinga-meira-en-godu-hofi-gegnir/article/2013130629202
http://www.oecd.org/els/health-systems/Briefing-Note-ICELAND-2013.pdf