Föstudagur 24.01.2014 - 22:53 - FB ummæli ()

Virusar í apótekinu

apotekFáfræði almennings þegar kemur að vitneskju um lyfjanotkun er mikil hér á landi og krafan á bráðalausnir er meiri en í nágranalöndunum. Skortur á heilsugæsluþjónustu á daginn, en áhersla á skyndiþjónustu og lausnir í apótekunum á kvöldin ræður þar miklu um. Allskyns kúrar þrífast sem og pýramídasölukerfi þar sem maður er settur á mann og sem skýrir ágengnina í sölumennskunni. Sem oft eru í besta falli peningaplokk, en í versta falli hættulegt kukl. Umræða um hefðbundnar lækningar eru hins vegar í brennidepli þessa vikuna á Læknadögum. Umræða m.a. um mikilvægi góðrar næringar sem og nauðsyn meðferða við sjúkdómum. Umræða sem er stöðug og meira áberandi flesta daga í fjölmiðlum erlendis en hér heima.

Fréttir sem rata á forsíður helstu dagblaða erlendis er m.a. um ranga notkun algengra lyfja og skaðsemi lausasölulyfja. Lyf sem eru samt auglýst mikið í íslensku fjölmiðlunum og á risaskiltum í stórmörkuðum apótekanna hér á landi. Eins og um hverja aðra vinsæla markaðsvöru væri að ræða og stundum að því er virðist í samkeppni milli apótekanna á snyrtivöru- og fæðubótamarkaðnum. Heilu húsgaflarnir jafnvel lagðir undir auglýsingar á varasömum lyfjum. Auglýsingar t.d. um á ágæti Otrivin menthol nefdropa gegn kvef og flensueinkennum sem nú gengur sem og skemmt geta nefslímhúðina sem og allskyns verkja- og bólgulyfjum sem geta haft alvarlegar aukaverkanir ef ekki er varlega farið.

Flest þessara lyfja getur enda verið skynsamlegt að neyta í litlu magni í neyð, eftir ráðleggingum lyfjafræðings í samræmi við heilbrigði skjólstæðings, en ekki eigin gróða. Ýmsar alvarlegar aukaverkanir geta enda fylgt með í kaupunum og sem auðvitað er ekki söluvara. Víða erlendis er verið að ræða að taka alfarið af lausasölumarkaði sum þessara lyfja eins og t.d. eitt vinsælasta bólgulyfið hér á landi, diclofenac (Voltaren, Vóstar). Lyf sem reyndar mest er tekið við vöðvabólgu, en þar sem engar eru bólgurnar.

Ný lyf þurfa alltaf að sanna með tímanum og þegar betur er hægt að meta langtímaaukaverkanirnar, jafnvel eftir mörg ár. Ofurlyf eru samt þau lyf stundum kölluð sem markaðssett eru með það í huga að virka að einhverju leiti betur en eldri lyfin, þótt áhrifin komi oft í reynd ekki nema takmörkuðum fjölda að gagni og gömlu lyfin virki þá jafnvel betur. Lyf sem eru ætluð fáum en síðan markaðssett fyrir fjöldann, jafnvel sem lausasölulyf með tímanum. Í flokki ofurlyfja eru m.a. nýjustu sýklalyfin, kólesteróllækkandi lyfin, geðlyfin, magalyfin og nýjustu gigtarlyfin. Í tveimur síðustu flokkunum eru mörg lausasölulyf. Gigtarlyfið Vioxx var mjög vinsælt um árabil fyrst eftir að það kom fyrst á markað fyrir rúmum áratug og var mikið notað við hverskonar gigtarbólgum. Lyfið reyndist síðan auka áhættu á hjartaáföllum og það þá snarlega tekið af markaði. Nýjustu rannsóknir sýna að svipað gæti átt við önnur gigtarlyf, líka lausasölulyf eins og Vóstar/ Volteren og Ibufen. Lyf sem m.a. Lyfjastofnun Evrópu hefur verið með til sérstakrar athugunar hvort taka eigi af lausasölumarkaði.

 

Parasetamól (Panodíl) er sennilega til á flestum heimilum landsins og sem er hins vegar mjög öruggt lyf, ef það er tekið er í réttum skömmtum. Lyf sem slegið getur á væga verki og er talið öruggasta lyfið við sótthita hjá börnum sem fullorðnum. Eins besta lyfið ef talin er þörf á stöðugri meðferð við slitgigt og vöðvabólgum. Lyf sem gigtlæknar mæla með, öðrum svokölluðum gigtarlyfjum fremur (NSAID), og sem fyrsta valkosti við verkjum og bólgum vegna minni hættu á aukaverkunum og milliverkunum með öðrum lyfjum. Í vægri blöndu með kódein (parkódín) virkar það auk þess betur á verki og hósta og ætti því líka að geta fengið að vera lausasölulyf eins og var fyrir ekki svo löngu síðan.

En það geta samt sem áður leynst stórhættulegar aukaverkanir ef óvarlega er farið með þetta lyf og teknir eru of háir skammtar. Lifrarbilun er ekki óalgeng alvarleg aukaverkun þegar skammtar eru allt of háir eða of oft er tekið af lyfinu yfir sólarhringinn, líka hér á landi. Meira en 8 töflur (4 gr) á dag getur verið banvænn skammtur fyrir fullorðna og mikilvægt er að reikna alltaf vandlega út ráðlagða dagskammta fyrir börn sem þurfa á parasetamóli að halda vegna verkja og sótthita. Rétt er að hafa samráð við lækni ef talin er þörf á lengri meðferð eða spurningar vakna um einstaka hærri skammta, t.d. vegna verkja. Um 70% af öllum alvarlegum lifrarbilunum sem leiða til lifrarígræðslu síðar eða jafnvel dauða, orsakast af því sem hingað til hefur verið talið hið saklausa lyf, parasetamól, og sem er það reyndar, ef það er bara tekið inn í réttum skömmtum. Margir sem taka lyfið inn að staðaldri eru hins vegar komnir vel til ára sinna og geta auðveldlega ruglast á skömmtunum og því þurfum við sem yngri eru að vara við hættunni.

Fyrir um 3 árum átti að taka lyfjamálin til gagngerar endurskoðunar hjá heilbrigðisráðuneytinu með það að leiðarljósi að samþætta stjórn lyfjamála í stjórnsýslunni og sem hafði lengi hefur vantað. M.a. vegna staðreynda sem hafa legið fyrir um allt of mikla lyfjanotkun í flestum lyfjaflokkum hér á landi. Lítið hefur hins vegar heyrst af málinu síðan enda Lyfjastofnun þröngur stakkur búinn eins og komið hefur fram í fréttum sl. daga.

Apótekin sjálf virðist hins vegar alltaf litast meir og meir af sölumennsku hverskonar, ekkert síður er varðar lausasölulyfin og sem þeim er líka treyst fyrir með útgáfu lyfsöluleyfa. Á sama tíma og gróðinn er mestur af kvöld- og helgarsölunni í bland með allskonar varningi sem á ekkert skylt við lyf. Síðan eru öll apótek sem eitt lokuð þriðjungs sólarhringsins, á nóttunni og þegar fólk veikist af flensunni sem nú er að ganga í bænum, en þar sem hagnaðarvonin er minni.

Viðtal um málið og laussölulyf við Lísu Pálsdóttur í Sjónmáli á RÚV 3.2.2014

 

http://www.dv.is/blogg/vilhjalmur-ari/2013/10/31/mikil-lyfjanotkun-hvad-veldur/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2012/09/04/kreppan-i-kroppnum/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2012/08/30/verdbolgan-i-apotekinu/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2011/10/30/gamla-goda-magnylid-varasamt-en-med-nytt-hlutverk/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2012/06/12/blaedingarhaetta-af-voldum-hjartamagnyls-meiri-en-talin-hefur-verid/

http://www.dr.dk/Nyheder/Indland/2012/06/18/184756.htm#.T9-Gy9dSmPY.mailto

(Áður birt á DV blogginu 23.1.2014 )

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn