Föstudagur 28.02.2014 - 13:21 - FB ummæli ()

Bætum árvekni gegn alvarlegustu krabbameinunum

blai naglinn

Nú er mottumarsinn byrjaður, fimmta árið í röð. Vitundarvakning sem Krabbameinsfélag Íslands stendur fyrir, tileinkað krabbameinsvörnum karla og mikilvægi þess að þeir sýni árvekni gagnvart eigin líkama. Stofnanir og fyrirtæki hafa af þessu tilefni séð ástæðu til að upplýsa húsin sín eins og Landspítalann og sjálfan Háskólann með bláum lit. Á haustin eru sömu hús böðuð bleikum ljósum, þá tileinkað krabbameinsvörnum kvenna á Leitarstöð KÍ og fl. stöðum. Þessi aðgreining og áköllun á athygli varðandi krabbameinsvarnir eftir kyni og árstíðum er auðvitað í sjálfu sér tímaskekkja, en auðveldar að fá athygli fjölmiðla á málefunum og eflir fjáröflunarleiðir. Bæði kynin eru auðvitað jafn mikilvæg varðandi allar krabbameinsforvarnir, krabbameinsrannsóknir og meðferðamöguleika. En blái liturinn er í brennidepli þennan mánuð og konur geta líka nýtt skilaboð um mikilvægi árvekninnar almennt, í leitinni að öðrum krabbameinum, svo sem ristil-, eitla- og húðkrabbameinum. Og auðvitað eigum við að leika okkur með alla litina í bland í skammdeginu eins og meðfylgjandi mynd ber með sér.

Þrátt fyrir að íslenskir karlar verða allra karla elstir í Evrópu, greinast um áttahundruð þeirra með krabbamein, þar sem tæplega þriðjungur deyr fyrir aldur fram. Hlutfall sem má lækka um 30% ef tímalega er gripið í taumana og mottumarsinn snýst um, í léttum tóni hjá feimnara kyninu um leið og þeir safna mottu. Þarna er átt við sjálfan punginn og að karlar þreifi eistun sín reglulega þar sem eitt algengasta og alvarlegasta krabbameinið getur fundist í tíma. Skilaboðin verða vart skýrari um mikilvægi sjálfsskoðunar. Og ekki aðeins að þeir þreifi vel á kynfærunum sínum, heldur bæði kynin brjóstin og eitlasvæðin, svo og að allir skoði húðina vel. Jafnvel munnholið og endaþarminn, þar sem kynsjúkdómatengd krabbamein finnast nú í vaxandi mæli.

Eftir því sem aldurinn færist yfir okkur, verða flest krabbamein algengari og leitin að þeim fyrirferðameiri í lífi okkar flestra. Oftast greinast þau aðeins eftir ítarlegar rannsóknir vegna óljósra einkenna, en stundum líka eftir kembileit hjá einkennalausum. Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands leitar þannig að krabbameini í leghálsi og brjóstum hjá einkennalausum konum. Allra síst má þó skimun gefa falskt öryggi og draga úr eigin árvekni.

Umræða skaut upp kollinum sl. vor að leita mætti nánari upplýsinga um 2.400 Íslendinga sem bæru með sér stökkbreytt krabbameinsgen, af svokölluðu BRAC2 geni, sem talið er  geta valdið m.a. brjóstakrabbameini hjá konum í um 80% tilvika og meiri líkum á krabbameini í eggjastokkum og jafnvel brjóst- og blöðruhálskirtilskrabbameini hjá körlum. Vandamálið er að Íslensk erfðagreining ein býr yfir þessum upplýsingum í formi dulkóðaðra rannsóknargagna sem ekki má brjóta og sem hugsaðar voru eingöngu til almennra rannsókna og lyfjaþróunar með upplýstu samþykki þeirra sem gáfu lífsýnin í upphafi. Engu að síður sýnir umræðan hvað við erum nálægt því að flokka okkur í áhættuhópa frá fæðingu, eftir því hvaða erfðaefni við berum. Spurningin er bara hvort við séum stödd á þeim tíma að við viljum nýta okkur þessa vitneskju með öllum hugsanlegum ráðum og sniðganga jafnvel siðfræðilegar vangaveltur sem því fylgir.

Sum krabbamein geta líka fundist sem aldrei leiða til alvarlegs sjúkdóms, eða dauða, ef of grannt er leitað. Óþarfa inngripsmiklar sýnatökur og brottnám viðkvæmra líkamshluta leið hins vegar til skertra lífsgæða, eins og getur gerst þegar skimað er of grannt eftir algengasta krabbameini karla, blöðruhálskirtilskrabbameininu. Sérstaklega þegar fyrsta skimun er eingöngu gerð með PSA (Prostata Specific Antigen) mælingu í blóði einkennalausra karla og sem er því miður of ósértækt varðandi krabbameinsvöxt eingöngu. PSA gildi hækkar í blóði við margar aðrar breytingar, svo sem bólgur og góðkynja stækkun á blöðruhálskirtlinum.

Milli 20-40% manna með hækkað PSA í blóði greinast með eitthvað krabbamein í blöðruhálskirtli að lokum, það er meirihlutinn greinist ekki. Af þeim sem greinast með krabbamein við frekari rannsóknir er aðeins um helmingurinn með krabbamein sem reynist lífshættulegt. Talið er að með því að nota PSA í kembileit að blöðruhálskirtilskrabbameinum eftir 60 ára aldur í Ástralíu, megi bjarga 2-3 lífum fyrir 85 ára aldur af 1000 körlum sem taka þátt. Tíu sinnum fleiri (28 karlar) munu hins vegar greinast með krabbamein sem telst hættulegt við kembileitina og fá meðferð  vegna óvissunnar, en þar sem tæplega helmingur fær alvarlegar aukaverkanir af meðferðinni, getuleysi og þvagleka. 87 karlar munu líka greinast með falska hækkun hvað krabbameinin varðar (krabbaemin ekki til staðar), þar sem tæplega þriðjungur (28 karlar) mun fá misalvarlegar aukaverkanir af sýnatökum úr blöðruhálskirtlinum. PSA gildi hækkar enda í blóði við margar aðrar breytingar, svo sem bólgur og góðkynja stækkun á blöðruhálskirtlinum. Okkur vantar þannig sérhæfðari og næmari próf til að greina æxlin, sérstakelga verstu æxlin tímalega og sem öllu máli skiptir, án fórnarkostnaðar allt of margra að óþörfu. Málið snýst því alls ekki um að karlar séu misrétti beittir varðandi krabbameinsleit í blöðruhálskirtli  miðað við leit að krabbameinum í leghálsi kvenna eins og sumir hafa viljað halda fram.

Vanda þarf vel leitaraðferðirnar sem notaðar eru í leitinni að blöðruhálskirtilskrabbameini. Leita ætti fyrst og fremst vegna nýrra einkenna frá þvag-og kynfærum, ættarsögunni, sem og vegna eigin innsæis. Sjálfsagt er að fá lækni til að þreifa á blöðruhálskirtlinum þegar menn fullorðnast og ef þvagbunan verður slappari. Fá má PSA mælingu ef grunur vaknar um hnút eða önnur óljós einkenni sem ekki bara skýrast af almennri stækkun á kirtlinum. Ef PSA er mikið hækkað ætti að fá ráðgjöf þvagfæraskurðlæknis á framhaldinu m.t.t. frekari rannsókna.

Oft ráðum við reyndar ferðinni mikið sjálf hvað varðar áhættu á að fá krabbameinin. Reykingar er skýrt dæmi um hegðun sem aldrei má láta fara forgörðum að takast á við og aldrei er of seint að hætta. Tengja jafnvel vægustu einkenni reykingasjúkdómsins, langvarandi hósta, við þá miklu áhættu sem að baki býr og framundan er. Þegar árin líða og hóstinn getur orðið blóðugur. Þetta heita fyrsta- og annarstigs forvarnir sem gilda um flesta lífsstílssjúkdóma okkar mannanna. Jafnvel gegn nýjum og algjörlega tilbúnum sjúkdómsmyndum sem læknarnir sjálfir hafa tekið þátt í að skapa t.d. með svokölluðum fegrunarlækningum að ónauðsynju. Hnútar sem við síðan vitum ekki hvernig við eigum að þreifa á eða meðhöndla í brjóstum og holhöndum þúsunda kvenna á Íslandi með lek sílikonbrjóst. Hnútar sem auk oft mikilla óþæginda og sýkingarhættu, geta falið aðra alvarlegri hnúta sem öllu máli skipta varðandi leitina að krabbameinum.

Í tilefni af mottumarsinum fyrir tveimur árum benti ég á mikilvægi HPV (Human Pappiloma Virus) bólusetningar kvenna fyrir bæði kynin. Ekki aðeins til að verjast leghálskrabbameini hjá konum, heldur einnig sem smitvörn fyrir karla gegn sífellt algengari HPV orsökuðum krabbameinum í munni, koki, og endaþarmi. Krabbamein sem tengist mest langvinnum og duldum HPV-veirusýkingum í slímhúðum unga fólksins og breyttri kynhegðun í nútíma samfélagi, sem engin góð lyf eru til gegn. Í Danmörku hefur ekki verið komist hjá því að sjá endurteknar auglýsingar í fjölmiðlunum um gildi HPV bólusetninga fyrir ungar konur sl. 2 ár, allt til 26 ára aldurs sem boðin er ókeypis. Markmið var að ná til sem flestra kvenna á sem skemmstum tíma.

Nýgengi leghálskrabbameina kvenna á Norðurlöndunum, sem í flestum tilvikum (> 80%) tengist HPV veirusýkingu upphaflega, er um 9 konur af hverjum 100.000. Tíðnin hefur farið lækkandi með góðri krabbameinsleit og mun væntanlega lækka mikið þegar ávinningur af bólusetningum gegn HPV veirunni fer að skila sér. Forstigsbreytingarnar finnast hins vegar miklu oftar í dag og hátt í 300 konur fara í keiluskurð á hverju ári hér á landi vegna þeirra, auk þess sem margfalt fleiri konum er fylgt náið eftir. Um 20 einstaklingar greinast síðan á ári með HPV orsakað/tengt krabbamein í munnholi og koki, fleiri karlar en konur. Áætlað hefur verið að eftir nokkur ár (2020) greinist fleiri karlar með HPV orsakað krabbamein (í munni, koki og endaþarmi) en konur með leghálskrabbamein.

Samspil HPV veirunnar við ýmsa aðra áhættuþætti krabbameina svo sem reykinga, áfengis og jafnvel getnaðarvarnarpillunnar er talið geta skýrt um 7% allra krabbameina í dag. Áætlað er að yfir 40% yngri kvenna séu nú smitaðar af HPV veirunni í leghálsi án þess að nokkur einkenni séu til staðar, svo sem kynfæravörtur sem eru einnig HPV orsakaðar. Um 7% fullorðinna eru taldir með smit í munnholi þar sem karlinn getur verið smitberi, en stundum líka alvarlegt fórnarlamb þegar kemur að HPV orsökuðum krabbameinum í munni og sem líka getur tengst tóbaksnotkun. Ráðgjöf um kynheilbrigði hvað þetta allt varðar, er því mikilvæg um leið og notkun getnaðarvarna er rædd við unga fólkið í dag, í skólunum og í heilsugæslunni.

Sortuæxli er annað algengt krabbamein sem meinvarpast fljótt og algengasta krabbameinið sem veldur dauða hjá ungu fólki á Íslandi í dag, eða milli 5-10 einstaklingar á ári. Það krabbamein sem er nátengdast umhverfinu, sólinni og ljósabekkjum sem enn í dag eru mjög vinsælir. Þar sem mikilvægast er að nota augun sjálf og láta fylgjast vel með breytingum.

Í dag er að lokum mikið rætt um skimun fyrir ristilkrabbameini með ristilspeglun fyrir bæði kynin eftir 55 ára aldur sem bjargað getur mörgum mannslífum og sumir tileinka blá litnum í dag. Leit sem öll þjóðin ætti að geta sameinast um, ef fjármagn finnst og ekki er dregið úr annar nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu sem þó því miður er þegar farið að gera.

Eitt af lykilhlutverkum heilsugæslunnar eru forvarnir á öllum stigum, ekki síst að tengja þekktar áhættur á að fá ákveðna sjúkdóma við lífstílinn. Eftir tilefnum og heimsóknum hverju sinni. Reyklaust umhverfi, meiri hreyfingu, hollara mataræði og nauðsynlegar bólusetningar. Jafnvel bólusetningar gegn sjálfum krabbameinunum sem við vonandi sjáum í vaxandi mæli í framtíðinni ásamt nýjum krabbameinslyfjum og líftæknilyfjum. Skilvirkar skimanir er hægt að gera gegn ákveðnum krabbameinum og erfðarannsóknir lofa miklu og eru þegar nýttar hjá ákveðnum fjölskyldum, á forsendum hvers og eins. Og þótt krabbameinsmeðferðir séu á höndum sérfræðinga á mismunandi sviðum læknisfræðinnar, ekki síst krabbameinslækna, eiga forvarnir að vera í höndum góðrar heilsugæslu. Þar sem síðan hægt er að fylgja stórum hluta af batanum eftir. En þar stendur hnífurinn einmitt í kúnni í dag. Eftirmeðferðinni sem litast af varnarsókn og þar sem lífstíllinn á að vera sterkasta vopnið.

http://www.ruv.is/heilbrigdismal/muna-ad-threifa-sig

http://www.smh.com.au/national/health/prostate-cancer-overdiagnosis-warning-20140305-34634.html

http://visir.is/bolusetningin-gagnast-fleirum-en-12-ara-stulkum-/article/2014140229286

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2012/06/04/thad-sem-allir-karlar-vilja-vita/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2012/02/25/karlaheilsan-og-skynsemin/

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn