Þriðjudagur 04.03.2014 - 21:30 - FB ummæli ()

Ófullkomleikinn er bæði vinur og óvinur

prostate-cancer-uk-logo

Nú í mottumarsi er  áhugavert að spá í eðli óvinarins sem við hræðumst hvað mest. Óvinur sem er hluti af okkur sjálfum og vert er að rannsaka mikið betur og sem er einmitt tilgangur söfunarátaks KÍ (Krabbameinsfélags Íslands) um leið og hvatt er til árvekni um eigin líkama. Alveg eins og með með geðsjúkdómana, fáum við ekki alltaf varist erfiðustu vefrænu sjúkdómana, enda enginn fullkominn og lífið á sér alltaf tvær hliðar. Slys og sjúkdómarnir tilheyra skuggahliðinni, misdökkar og alvarlegar. Krabbameinin eru í hugum margra náunginn með ljáinn sem kemur óvænt í heimsókn. Hann er þar tákn endalokanna og dauðans. En svo þarf alls ekki að vera, enda oft hægvaxta, lækning til eða þau eyðast af sjálfu sér.

Flest krabbamein vaxa dulin, jafnvel í áratugi og eru hluti öldrunarbreytinga á litningunum okkar. Sumir reyndar meira útsettir fyrir en aðrir, en sem við getum haft mikil áhrif á og oft varist til gamals aldurs. Stundum eins og óvinur sem við viljum yfir höfuð ekkert vita af.

Oft skynjum við ekki fegurð lífsins nema í andstöðinni og sorginni.  Millibilið er þó þar sem við hrærumst í daglega og sem vissulega er meira andsnúið sumum en öðrum. Við fæðumst líka misjafnlega fullkomin, í ólíkar aðstæður. Í öðrum heimshlutum er að því er virðist forréttindi að fá að lifa, fá mat og húsaskjól eða verða ekki drepin í stríðsátökum. Í nútímaþjóðfélaginu hefur okkur engu að síður tekist að búa okkur til ótrúlega öruggan heim, en sem sumir segja að sé nú á köflum ofverndandi og sem elur á gerviþörfum. Við treystum meir og meir á samfélagshjálpina, en um leið ákveðna forræðishyggju og í vaxandi mæli kembileit að sjúkdómum hjá einkennalausum.

Frumubreytingar sem kallast forstigsbreytingar og gerjast stundum inn í okkur eða á, geta verið slæmur forboði. Þeim er stundum líka eytt eða haldið niðri sem styðst við gott heilbrigði og sem reynir meira á eftir því sem við eldumst. Breytingar sem við vitum aldrei neitt af. Stundum hvetjum við óviljandi til þessara breytinga með lífsstílnum, jafnvel viljandi eins og með reykingum. Flestir karlar um miðjan aldur eru þegar komnir með krabbameinsfrumbreytingar í blöðruhálskirtli, en aðeins lítill hluti nær hins vegar að vaxa að því marki að það greinist sem klínískt krabbamein á lífsleiðinn. Í mörgum öðrum líffærum getur svipað sér stað. Það væri að æra óstöðugan að ætla sér að finna allar þessar breytingar. Ofleit, ofgreining og jafnvel meðferðin á þeim gerir okkur veikari fyrir og getur skert lífsgæðin og almenna heilsu. Við verðum að læra að lifa með óvissunni að vissu marki, til að geta notið lífsins vel.

Árvekni fyrir eigin líkama er hins vegar allt annað mál og fyrir vissum gerðum krabbameina hefur verið sýnt að bjarga má mörgum mannslífum með vel skipulagðri skimun í leit að krabbameinum í ristli, leghálsi og brjóstum. Heilbrigðiskerfið má þó ekki einblína á skimun, hvað sem það kostar, ef á sama tíma þarf að fórna því að geta gert svo miklu meira fyrir þúsundir sjúkra. Til að við fáum sem bestu hjálp við alvarlegum sjúkdómum og andlegum meinum. Í nútímaþjóðfélaginu þarf t.d. að sinna sálfræðihjálpinni mikið betur en gert er og bæta félagslega virkni sjúklinga. Í flókinni veröld þar sem stress og hraði er allsráðandi og flestir auk þess útsettir fyrir allskonar lífsstílssjúkdóma. Sjúkdómar sem stytta líf allt of margra og sem jafnvel falla fyrir eigin hendi, í þunglyndi og félagslegri einangrun.

Sálfræði- og félagsráðgjafahjálp fyrir alla aldurshópa, ekki síst yngsta fólkið, eins og t.d. HAM (hugræn atferlismeðferð) námsskeiðin hafa gert gegn kvíða og þunglyndi í heilsugæslunni, byggja upp andlega vellíðan til framtíðar. Sterkari líkamsvitund leiðir af sér síðan sterkari varnir gegn sjúkdómunum, ekki síst krabbameinum. Streita, offita og hreyfingaleysi ásamt fíkniefnasjúkdómum, tóbaksnotkun og óhóflegri áfengisnotkun eru stærstu áhættuþættirnir fyrir myndun illkynja krabbameina. Fullkomleikinn felst þannig frekar í að styrkja hið ófullkomna, tímalega.

Vísindin hafa í dag skapað okkur tækifæri á áhættugreiningu á ákveðnum krabbameinum með erfðaprófum. Á þá umræðu reyndi sl. vor þegar forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, Kári Stefánsson, benti á þann möguleika að konur gætu sótt erfðafræðilegar upplýsingar um sig í gagnagrunninn með leyfi Persónuverndar og nefnt var í síðasta pistli. Ávalt væri þó aðeins um viss líkindi að ræða og gera þyrftu ný erfðafræðileg próf úr viðkomandi til staðfestingar (sem hann reyndar bauðst til að gera ókeypis). Og vissulega er stundum sterkur grunur um krabbameinsgen vegna fjölskyldusögu, eins og þegar um BRCA2, arfgengt brjóstakrabbameinið er að ræða og þar sem jafnframt er áhætta á krabbameinum í báðum kynjum. Málið snýst þó einnig um réttinn að vita ekki og á sér þannig margar siðferðishliðar. Möguleikinn á að fá fá að lifa í óvissunni og eiga sömu möguleika á t.d. sjúkdómatryggingu á unga aldri og gagnvart makavali. Engu að síður ný þekking sem verður beitt í vaxandi mæli í skimun krabbameina í framtíðinni.

Eins vonandi sterkari vopn með nýjum krabbameinslyfjum, t.d. með svokölluð líftæknilyfjum og með hátækniskurðaðgerðum, jafnvel með vélmennum sem verða látin vinna inni í okkur. Með nýjum bóluefnum sem fyrirbyggja frumubreytingar eins og þegar býðst vegna smits HPV veirunnar eða öðrum bóluefnum gegn krabbameinsbreytingum sem þegar hafa átt sér stað. Gegn mótefnavökum í allskonar krabbameinum.

Að ræða um þessa hluti, heilbrigðan lífsstíl ásamt þeim úrræðum sem við þó þegar höfum í heilbrigðisþjónustunni, eru sterkustu krabbameinsvarnirnar í dag. Ekki eins og sagt var um árið þegar sá sem reykti óskaði eftir röntgenmynd af lungum til að gá hvort þau væru ennþá tær og án hnúta. Þegar neikvæðar rannsóknir gáfu honum eingöngu sjáfsstyrkingu í að geta haldið áfram. Allskonar tilefni hins vegar, jafnvel saklaus einkenni frá lungum eða hækkaður blóðþrýstingur, geta gefið tækifæri á að ræða miklu alvarlegri hluti og sem viðkomandi ber jafnvel með sér. Tækifæri sem ekki gefst nema tíminn sé rúmur í heilsugæslunni og sem býður upp á svo miklu þýðingarmeiri lausnir en upphaflegt tilefni gáfu endilega tilefni til.

Að lokum, leit að öllum krabbameinum er góðra gjalda verð ef hún er í samræmi og takt við aðra nauðsynlega heilsuvernd. Við erum öll aðeins ófullkomin, en heilbrigðisstarfsfólk á að hjálpa okkur í leit að fyrirboðum meina, líkamlegum sem andleglegum. Að hlustað sé á innsæi viðkomandi, ættarsögu þegar um alvarlega sjúkdóma hefur verið að ræða og fá vitneskju um áhættur sem fylgt hefur lífinu og áhrif getur haft sjúkdómaþróun. Ráðleggja í framhaldinu viðeigandi rannsóknir eftir skoðun. Bæta síðan lífsstílinn, næringuna og samspilið við örveruflóruna. Útivist og hreyfingu sem við erum sköpuð til að nýta, sem og hugarflugið og við teflum lífsins skák til enda. Til að hafa gaman af og allt snýst um. Tækifæri þarf síðan að vera til eftirfylgni, allt eftir tilefnum hverju sinni, þó ekki væri nema til að veita stuðning og sálarró. Allt sem sparar heilbrigðiskerinu ómældan pening um síðir og fullkomnar baráttuna við ófullkomleikann.

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2014/02/28/baetum-arvekni-gegn-alvarlegustu-krabbameinunum/

http://www.smh.com.au/national/health/prostate-cancer-overdiagnosis-warning-20140305-34634.html

6.3.2014  Ætti að segja þátttakendum í vísindarannsóknum frá stökkbreytingum í þeirra eigin BRCA-genum? http://www.laeknabladid.is/tolublod/2014/03/nr/5108

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn