Meirihluti landsmanna virðist aðhyllast tollfrjálsan innflutning á fersku kjöti samkvæmt skoðunarkönnun sem MMR gerði fyrir Viðskiptablaðið og birt er í dag. Flestir líta sennilega mest á möguleikann á fjölbreyttara úrvali og lækkuðu vöruverði með aukinni samkeppni. Færri hins vegar hvað slíkur innflutningur getur borið með sér varðandi sjúkdóma í mönnum og dýrum.
Svokallaðir klasakokkar (Staphylococcus aureus) sem finnast í nefi okkar flestra, eru algengastir að valda sýkingum í sárum og kossageit sem við flest þekkjum. Jafnvel öðrum geitum í hársverði sem voru algengari til forna og þegar töluvert vantaði upp á hreinlætið. Nú aftur tengt svitablautum íþróttafatnaði, áhöldum, dýnum og óhreinum íþróttagólfum. En þar með er ekki öll sagan sögð.
Klasakokkar valda hættulegustu spítalasýkingunum þegar þeir eru orðnir ónæmir fyrir öllum penicillínlyfjum og algengt er víða erlendis, svokallaðir spítala-MÓSAar (Methylycam Ónæmir Staphylococcus Aureus) eða MRSA og sem eru stundum ónæmir fyrir flestöllum öðrum sýklalyfjum. Sl. áratug hafa svipaðir mósar (CA-MRSA) orðið sífellt algengari í samfélaginu öllu. Nýju samfélagsgeiturnar okkar og alvarlegu húðsýkingarnar sem erfiðlega gengur að meðhöndla.
Sýklalyfjaónæmir klasakokkar (samfélagsmósar) finnast víða erlendis í eldisdýrum, sérstaklega þar sem sýklalyf eru mikið notuð. Kokkar sem síðan berast auðveldlega í nefflóru manna. Þannig hefur dönsk rannsókn sýnt að allt að þriðjungur danskra svínabænda bera þessa sýklalyfjaþolnu samfélagsmósa. Kokkar sem auðveldlega geta líka borist með fersku kjöti til landsins og blandast síðan okkar landsflóru.
Samfélag slíkra baktería getur auðvelega líka myndast í hinum ýmsum vefjum líkamans, þó sér í lagi á aðskotahlutum og sem mynda þá óvarinn grunn til að byggja á. Samfélag baktería sem að lokum haga sér sem smáríki í stórríki líkamans. Bú sem lúta eigin lögmálum og verkaskiptingu innbyrðis. Þessi fyrirbæri hafa verið kallaðar „fléttur“ (biofilms). Sumar bakteríurnar eru gerðir út af örkinni til að afla björg í bú, meðan aðrar eru látnar sjá um árásir og frekari landvinninga út um allan líkamann. Mikið meira áhyggjuefni en áður þar sem ísetning allskonar óþarfa aukahluta í líkamann hefur orðið æ vinsælla og sem geta síðan orðið gróðurstíur sýklalyfjaónæmra baktería inn í okkur sjálfum.
Aðrar landbúnaðarvörur sem bann er lagt við í dag varðandi innflutning, er heldur ekki að ástæðulausu, Egg geta innihaldið alvarlega salmonellustofna. Vissir ógerilsneiddir ostar eru líklegir að geta borið með sér Listeriu. Þá eru ótaldir þeir gerlar sem geta valdið alvarlegum matareitunum eins og ákveðnir E. coli gerlar ( O157) og miklu fleiri örverur sem ég hef áður fjallað um tengt verstu martröðunum og algengari eru erlendis en hér heima.
Mörg mál hafa komið upp á síðustu árum beggja vegna Atlantshafs, sem tengjast lífshættulegum matarsýkingum og eitrunum og rekja má beint til ólöglegrar slátrunar og slæmrar meðferðar á dýrum og síðar kjöti. Jafnvel gamalt og illa fengið kjöt, uppfullt af hormónum, lyfjum ásamt öðrum efnum sem til fellur. Það er með ólíkindum að stærstu dreifingafyrirtæki og matvælaframleiðendur í Evrópu skulu ekki alltaf vita hvaðan kjötið upphaflega kemur sem þeir kaupa og sláturaðferðir sem notaðar eru. Markaður sem viljum nú að standi okkur meira til boða?
Sýklalyfjaónæmir samfélagsmósar er a.m.k. stór heilbrigðisógn við okkur mennina í dag. Sýklar sem ennþá eru sjaldséðir hér á landi, m.a. þar sem notkun sýklalyfja í dýrahaldi og við ræktun kjöts er lítil, en hins vegar mjög mikil erlendis þar sem þessar bakteríur eru orðnar algengar og borist geta auðveldlega með fersku (og frostnu) kjöti til landsins. Kjöti sem sumir vilja nú fá að flytja inn, auk áhættunnar sem fylgir þá á nýjum dýrasjúkdómum með örverusmiti. Kjöt sem getur auk þess verið mengað af lyfjum og hættulegum efnum, og sem við vitum ekki alltaf í raun hvaðan kemur.
Gleymum ekki að landbúnaðar- og neyslumál eru líka heilbrigðismál þjóðarinnar.